Fara í efni

Heimastjórn Djúpavogs

38. fundur 01. júní 2023 kl. 10:00 - 12:30 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Guðný Lára Guðrúnardóttir formaður
  • Ingi Ragnarsson aðalmaður
  • Oddný Anna Björnsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Gauti Jóhannesson fulltrúi sveitarstjóra
Fundargerð ritaði: Gauti Jóhannesson fulltrúi sveitarstjóra

1.Hamarsvirkjun

Málsnúmer 202108056Vakta málsnúmer

Skírnir Sigurbjörnsson framkvæmdastjóri Arctic Hydro, Haukur Einarsson frá Mannvit, sérfræðingur í mati á umhverfisáhrifum, skipulagsmálum og leyfisveitingum, Sverrir Óskar Elefsen frá Mannvit, sérfræðingur í greiningu á hegðun íslenskara vatnsfalla, Bjarki Þórarinsson frá Mannvit, sérfræðingur í jarðvegsvinnu og mannvirkjagerð fyrir vatnsaflsvirkjanir, Ármann Ingason frá Mannvit, rafmagnsverkfræðingur og Kristinn Pétursson ráðgjafi sátu fundinn undir þessum lið og kynntu fyrirætlanir fyrirtækjanna varðandi Hamarsvirkjun og svöruðu spurningum fulltrúa í heimastjórn.

Heimastjórn þakkar fyrir greinargóða og upplýsandi kynningu.

Lagt fram til kynningar.

Gestir

  • Skírnir Sigurbjörnsson - mæting: 10:00
  • Bjarki Þórarinsson - mæting: 10:00
  • Kristinn Pétursson
  • Haukur Einarsson - mæting: 10:00
  • Ármann Ingason - mæting: 10:00
  • Sverrir Óskar Elefsen - mæting: 10:00

2.Cittaslow

Málsnúmer 202203219Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum lá fundargerð samráðshóps um Cittaslow á Djúpavogi dags. 11. maí 2023.

Lagt fram til kynningar.

3.Fundir sveitarstjórnar, ráða og heimastjórna í ágúst til desember 2023

Málsnúmer 202305150Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum lá tillaga að fundadagatali fyrir sveitarstjórn, ráð og heimastjórnir fyrir ágúst til desember 2023.

Heimastjórn á Djúpavogi gerir ekki athugasemdir við framlagða tillögu.

Samþykkt samhljóða.

4.Öryggi við þjóðveginn GSM samband

Málsnúmer 202204248Vakta málsnúmer

GSM og Tetra samband á Djúpavogssvæðinu er víða gloppótt og þarfnast úrbóta. Í Hvalnes og Þvottárskriðum, sem er ofanflóðahættusvæði, er samband lélegt og á köflum ekki til staðar. Á svæðum í Álftafirði er samband takmarkað. Í Hamarsfirði norðanverðum eru fjölmargir blettir þar sem ekkert samband er á þjóðvegi 1 og lítið samband á nokkrum bæjum. Á Axarvegi er samband stopult og á nokkuð löngum kafla efst á Öxi er það ekki til staðar. Úr þessu þarf að bæta til að tryggja öryggi vegfarenda. Heimastjórn áréttar fyrri bókun sína frá 2. maí 2022 og beinir því til sveitarstjórnar að þrýsta á viðkomandi aðila um úrbætur sem fyrst.

Samþykkt samhljóða.

5.Deiliskipulag, Djúpivogur, athafnalóðir

Málsnúmer 202109084Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum lá skipulagstillaga vegna athafna- og hafnarsvæðis við Innri Gleðivík þar sem brugðist hefur verið við athugasemdum sem gerðar voru við vinnslutillögu.

Heimastjórn á Djúpavogi hefur farið yfir athugasemdir sem bárust m.a. umsögn Vegagerðarinnar um deiliskipulagstillögu fyrir nýtt athafnasvæði fyrir ofan bræðsluna á Djúpavogi. Með því að sveitarstjórn hefur ákveðið að nýr stofnvegur að þéttbýlinu á Djúpavogi fari ekki um þetta svæði eins og áður var ráðgert heldur færist norðar og tengist inn á nýtt athafnasvæði norðan við Innri Gleðivík telur heimastjórn að athugasemdir Vegagerðarinnar eigi ekki lengur við. Gert er ráð fyrir að breytingar á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008-2020 þar sem ný tenging stofnbrautar kemur inn verði gerð samhliða breytingu sem rúmi fyrirhugaða uppbyggingu hafnarsvæðisins í Innri Gleðivík ásamt stækkun á athafnasvæðinu til norðurs.
Heimastjórn á Djúpavogi beinir þeim tilmælum til umhverfis- og framkvæmdaráðs að í ljósi aðstæðna, með vísan til fordæmis og þess að ólíklegt er að gerð gatna og gangstétta ljúki í bráð, verði veittur tímabundinn afsláttur á gatnagerðargjöldum á svæðinu og þannig stuðlað að frekari uppbyggingu.

Heimastjórn á Djúpavogi samþykkir að tillagan verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða.

6.Deiliskipulag miðbæjar á Djúpavogi

Málsnúmer 202208140Vakta málsnúmer

Í ljósi stóraukinnar umferðar ferðafólks og uppbyggingar í atvinnulífi á Djúpavogi telur heimastjórn á Djúpavogi brýnt að hafist verði handa sem fyrst við deiliskipulag miðbæjarins. Heimastjórn beinir þeim tilmælum til umhverfis- og framkvæmdaráðs að þeirri miklu og góðu vinnu sem fór af stað á sínum tíma verði haldið áfram og að við gerð fjárhagsáætlunar fyrir 2024 verði fjármagn til verkefnisins tryggt.

Samþykkt samhljóða.

7.Fjarskipti í Berufirði

Málsnúmer 202101273Vakta málsnúmer

Heimastjórn telur brýnt að afhendingaröryggi raforku og ásættanlegt fjarskiptasamband verði tryggt á svæðinu hið fyrsta. Heimastjórn á Djúpavogi tekur undir áherslur byggðaráðs sem fól sveitarstjóra á fundi sínum 23. maí sl. að halda áfram viðræðum við þá aðila er munu, annars vegar, koma að lagningu þriggja fasa rafmagns í Berufirði og hins vegar að lagningu ljósleiðara en þess er vænst að því verði lokið á næstu tveimur árum. Sveitarstjóra var jafnframt falið að svara fyrirliggjandi erindi þar sem grein verði gerð fyrir stöðu mála sem hann hefur gert.

Samþykkt samhljóða.

8.Þjónusta við ferðafólk á Djúpavogi

Málsnúmer 202210003Vakta málsnúmer

Viðræður standa enn yfir um mögulega lausn vegna salernisaðstöðu í og við Kjörbúðina. Beðið er niðurstöðu Heilbrigðiseftirlits Austurlands varðandi það hvort rekstaraðilum sé ekki skylt að sjá viðskiptavinum sínum fyrir salernisaðstöðu í verslunarkjarnanum og mun heimastjórn taka málið fyrir að nýju þegar sú niðurstaða liggur fyrir.

Samþykkt samhljóða.

9.Staða verkefna á umhverfis- og framkvæmdasviði

Málsnúmer 202209131Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar.

10.Sjálfsafgreiðslustöð N1 á Djúpavogi.

Málsnúmer 202205010Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum lá bókun umhverfis- og framkvæmdaráðs dags. 15.5.2023 varðandi staðsetningu á sjálfsafgreiðslustöð N1 á Djúpavogi sem er eftirfarandi:

202205010 - Sjálfsafgreiðslustöð N1 á Djúpavogi.
Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur erindi frá heimastjórn Djúpavogs þar sem óskað er eftir upplýsingum um hvort staðsetning sjálfsafgreiðslustöðvar N1 á Djúpavogi standist núverandi skipulag. Heimastjórn Djúpavogs telur mikilvægt að eldsneytisafgreiðslu verði fundin ný staðsetning til framtíðar fjarri íbúðabyggð.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð hefur skoðað málið og er eldsneytisafgreiðsla N1 ehf. á Djúpavogi í samræmi við gildandi Aðalskipulag Djúpavogshrepps 2008-2020.

Samþykkt samhljóða.

Forsendur fyrir staðsetningu á eldsneytisdælum á Djúpavogi hafa gjörbreyst samhliða stóraukinni umferð í tengslum við ferðaþjónustu og þungaflutninga. Hvort tveggja hefur neikvæð áhrif á lífsgæði íbúa og ásýnd svæðisins. Með vísan til niðurstöðu umhverfis- og framkvæmdaráðs leggur heimastjórn á Djúpavogi til að nú þegar hefjist undirbúningur að breytingu á gildandi aðalskipulagi með það fyrir augum að eldsneytisafgreiðslunni verði fundinn staður fjær íbúðabyggð.

Samþykkt samhljóða.

11.Skýrsla fulltrúa sveitarstjóra á Djúpavogi

Málsnúmer 202209244Vakta málsnúmer

Sætún: Framkvæmdir standa yfir og gert er ráð fyrir að salernisaðstaðan í húsinu verið tilbúin til notkunar 23. júní.

Sjólögn: Nýverið var lögð u.þ.b. 500 metra sjólögn frá Bræðslunni út í Innri Gleðivík. Lögnin mun sjá kassaverksmiðjunni fyrir sjó til kælingar. Framkvæmdin tókst vel með góðum undirbúningi og samvinnu þeirra sem í hlut áttu.

Fiskeldissjóður: Fiskeldissjóður synjaði umsókn sveitarfélagsins vegna hönnunar á björgunarmiðstöð fyrir viðbragðsaðila á Djúpavogi. Gert er ráð fyrir að sækja um aftur að ári.

Skólagarðar: Þessa dagana er unnið að því að koma upp skólagörðum sem nemendur geta notað til gróðursetningar.

Sjómannadagurinn: Stefnt er að því að frumsýna myndasýningu í Löngubúð laugardagskvöldið fyrir sjómannadag með myndum frá hátíðarhöldum liðinna ára, bátum o.fl. Samráðshópur um Cittaslow á Djúpavogi hafði frumkvæði að verkefninu.

Samfélagsverkefni heimastjórna: Vonast er til að leikkastalinn í Blánni verði fljótlega kominn á sinn stað. Stefnt er að fundi með stjórn Neista þar sem fjallað verður um heildarskipulag á svæðinu.

Gróðurker. Þessi dagana er unnið að smíði nýrra gróðurkerja sem sett verða við planið við Bakkabúð. Efnið í kerin er m.a. fengið úr Faktorshúsinu.

Göngustígur og lagnir: Unnið er að lagnavinnu meðfram sjónum milli Búlandstinds og Bræðslunnar. Jafnhliða verður komið fyrir göngustíg.

Gangstétt í Mörk: Steypuvinna á fyrsta hluta er í gangi.

12.Fundir Heimastjórnar Djúpavogs

Málsnúmer 202010614Vakta málsnúmer

Næsti reglulegi fundur heimastjórnar á Djúpavogi verður haldinn fimmtudaginn 6. júlí næstkomandi kl. 10:00. Erindi fyrir fundinn þurfa að berast starfsmanni heimastjórnar fyrir kl. 15:00 mánudaginn 3. júlí á netfangið gauti.johannesson@mulathing.is.

Fundi slitið - kl. 12:30.

Getum við bætt efni þessarar síðu?