Fara í efni

Þjónusta við ferðafólk á Djúpavogi

Málsnúmer 202210003

Vakta málsnúmer

Heimastjórn Djúpavogs - 30. fundur - 06.10.2022

Heimastjórn ræddi þær áskoranir og viðfangsefni sem fylgja stórauknum fjölda ferðafólks í þorpinu. Undanfarið hafa m.a. staðið yfir viðræður við Kjörbúðina/Samkaup um málið.
Eftirfarandi bókun lögð fram:
Heimastjórn á Djúpavogi leggur áherslu á að innviðir í þorpinu verði styrktir til samræmis við þann aukna fjölda ferðafólks sem heimsækir staðinn. Þar er átt við salernisaðstöðu, umferðarstýringu, öryggi vegfarenda o.fl. Miklu skiptir að tryggja gott samstarf um verkefnið s.s. við íbúa, verslunar- og þjónustuaðila og stofnanir sveitarfélagsins. Starfsmanni falið að fylgja málinu eftir í samráði við heimastjórn.

Heimastjórn Djúpavogs - 35. fundur - 09.03.2023

Starfsmaður heimastjórnar gerði grein fyrir viðræðum við stjórnendur Samkaupa/Kjörbúðarinnar varðandi samstarf um salernisaðstöðu í tengslum við verslunina sem lengi hefur verið kallað eftir. Fyrirtækið hefur nú lýst því yfir að um dýra framkvæmd sé að ræða sem það sé ekki tilbúið til að fjármagna og allar líkur séu á því að samstarfsaðilar í húsinu vilji ekki heldur taka þátt í verkefninu.

Heimastjórn á Djúpavogi lýsir yfir miklum vonbrigðum með þau viðbrögð Samkaupa að vilja ekkert gera til að koma upp salernisaðstöðu í eða við verslun félagsins á Djúpavogi þrátt fyrir að sveitarfélagið hafi lýst sig tilbúið til að koma að rekstrinum. Í sama húsnæði er rekið útibú frá Landsbankanum, Vínbúðinni og Póstinum, auk þess sem dælur frá N1 eru við húsið. Heimastjórn furðar sig á þeim rökum að kostnaður standi í vegi fyrir framkvæmdinni þegar til þess er litið um hvaða fyrirtæki er að ræða. Starfsmanni falið að koma áherslum heimastjórnar á framfæri við stjórnir rekstraraðila.

Samþykkt samhljóða.

Heimastjórn Djúpavogs - 36. fundur - 05.04.2023

Á síðasta fundi heimastjórnar var starfsmanni falið að koma áherslum heimastjórnar varðandi salernisaðstöðu á framfæri við stjórnir rekstraraðila í húsnæði Kjörbúðarinnar. Engin viðbrögð hafa borist frá rekstraraðilum.

Heimastjórn á Djúpavogi lýsir yfir miklum vonbrigðum með að stjórnir rekstraraðila í húsnæði Kjörbúðarinnar á Djúpavogi hafi ekki séð sér fært að bregðast við og felur starfsmanni að ítreka fyrra erindi. Jafnframt er starfsmanni falið að leita álits Heilbrigðiseftirlits Austurlands á því hvort ekki sé skylt að sjá viðskiptavinum fyrir salernisaðstöðu á staðnum.

Samþykkt samhljóða.

Heimastjórn Djúpavogs - 37. fundur - 04.05.2023

Fyrir fundinum láu bréf frá hluta rekstraraðila í húsnæði Kjörbúðarinnar á Djúpavogi auk Heilbrigðiseftirlits Austurlands varðandi salernisaðstöðu á staðnum.

Heimastjórn á Djúpavogi harmar viðbrögð rekstraraðila í húsnæði Kjörbúðarinnar á Djúpavogi og furðar sig á viljaleysi þeirra til að koma til móts við viðskiptavini sína og nærsamfélagið á Djúpavogi. Heimastjórn áréttar jafnframt ályktun frá 2. maí 2022 þar sem óskað var eftir því við umhverfis og framkvæmdaráð að kannað verði hvort staðsetning sjálfsafgreiðslustöðvar N1 á Djúpavogi standist núverandi skipulag, enda var stöðin sett niður án grenndarkynningar og án samráðs við íbúa á sínum tíma. Heimastjórn telur mikilvægt i ljósi eðlis starfseminnar og stóraukinna umsvifa í ferðaþjónustu og þungaflutningum að eldsneytisafgreiðslu verði fundin ný staðsetning til framtíðar fjær íbúðabyggð og með mögulega uppbyggingu á frekari þjónustu í huga. Starfsmanni falið að óska eftir fundi með fulltrúum N1 og fylgja málinu eftir.

Samþykkt samhljóða.

Heimastjórn Djúpavogs - 38. fundur - 01.06.2023

Viðræður standa enn yfir um mögulega lausn vegna salernisaðstöðu í og við Kjörbúðina. Beðið er niðurstöðu Heilbrigðiseftirlits Austurlands varðandi það hvort rekstaraðilum sé ekki skylt að sjá viðskiptavinum sínum fyrir salernisaðstöðu í verslunarkjarnanum og mun heimastjórn taka málið fyrir að nýju þegar sú niðurstaða liggur fyrir.

Samþykkt samhljóða.

Heimastjórn Djúpavogs - 40. fundur - 10.08.2023

Fyrir fundinum lá erindi frá Heru Líf Liljudóttur varðandi upplýsingamiðstöð fyrir ferðafólk á Djúpavogi.

Heimastjórn þakkar fyrir erindið og tekur undir mikilvægi þess að ferðafólki standi til boða nægilegar upplýsingar um svæðið. Starfsmanni falið að koma erindinu áfram til atvinnu- og menningarstjóra í samræmi við umræður á fundinum.

Samþykkt samhljóða.

Heimastjórn Djúpavogs - 45. fundur - 11.01.2024

Fyrir fundinum lá svar við erindi varðandi salernismál við Búland 1 frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands ásamt tölvupósti frá Samkaupum um sama mál.

Heimastjórn tekur undir með Heilbrigðiseftirliti Austurlands að æskilegt sé að í verslunarhúsnæði Samkaupa á Djúpavogi þar sem eru fimm þjónustufyrirtæki, þar sem ætla megi að fólk hafist við að jafnaði, sé salerni aðgengilegt fyrir viðskiptavini. Heimastjórn telur ótækt að ekki sé til skilgreining á verslunarmiðstöð í íslenskum lögum og hvetur ráðherra til að bæta úr því með reglugerðarbreytingu. Starfsmanni falið að fylgja málinu eftir í samráði við lögmann sveitarfélagsins.

Tillögu Samkaupa er vísað til byggingafulltrúa til skoðunar.

Samþykkt samhljóða.

Heimastjórn Djúpavogs - 46. fundur - 08.02.2024

Aron Thorarensen lögfræðingur hjá Múlaþingi sat fundinn undir þessum lið.

AT og GJ fóru yfir stöðu málsins. AT og fulltrúa sveitarstjóra falið að vinna að málinu áfram í samræmi við umræður á fundinum.

Samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Aron Thorarensen - mæting: 10:05
Getum við bætt efni þessarar síðu?