Fara í efni

Skýrsla fulltrúa sveitarstjóra á Djúpavogi

Málsnúmer 202209244

Vakta málsnúmer

Heimastjórn Djúpavogs - 30. fundur - 06.10.2022

Fulltrúi sveitarstjóra á Djúpavogi fór yfir helstu verkefni og stöðu mála á svæðinu.

Notó: Samþykkt hefur verið að nytjamarkaður foreldrafélagsins fái inni í Faktorshúsinu þar til annað verður ákveðið.

Cittaslow: Cittaslow sunnudagurinn verður haldinn hátíðlegur 9. október en honum var seinkað vegna veðurs. Stefnt er að því að fulltrúi sveitarstjóra á Djúpavogi taki við fljótlega sem tengiliður og hafi umsjón með Cittaslow.

Malbikun við Djúpavogshöfn: Stefnt er að því að fljótlega verði malbikað til bráðabirgða plan á bryggjunni svo hægt verði að þjónusta báta í Djúpavogshöfn þar til bryggjudekkið verður steypt á næsta ári.

Starfsmannamál: Eva Björk Hlöðversdóttir mun láta af störfum á skrifstofunni í Geysi eigi síðar en 1. desember. Starf hennar hefur verið auglýst.

Skógræktin: Mikið tjón varð í skógræktinni í óveðrinu sem gekk yfir fyrir fáum dögum. Verið er að skoða með hvaða hætti sveitarfélagið muni koma til aðstoðar.

Ormahreinsun hunda og katta: Stefnt er að því að ormahreinsun fari fram fljótlega og verður það auglýst eins og verið hefur.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða: Sótt hefur verið um tvö verkefni á vegum sveitarfélagsins. Annars vegar um styrk vegna lagningar göngustígs inn í skógrækt úr þorpinu og hins vegar vegna hönnunar og útfærslu á stígakerfi í þorpinu öllu og nágrenni.

Hávaðamengun í Djúpavogshöfn: Áfram er leitað leiða til að minnka hávaða frá höfninni. Þegar hefur verið brugðist við með því að keyra minni ljósavél í brunnbátnum þegar þannig stendur á. Einnig er ert ráð fyrir að skipið liggi við bryggju í Innri-Gleðivík þegar aðstæður leyfa og að það liggi ekki lengur í gömlu höfninni en nauðsyn krefur hverju sinni. Stefnt er að því að bæta hljóðeinangrun frá vélarúmi þegar skipið fer til Noregs að lokinni slátrun nú í vetur. Ljóst er að knýjandi er orðið að koma á landtengingum fyrir stærri skip sem liggja í Djúpavogshöfn.

Þriggja fasa rafmagn: Þessa dagana er verið að leggja 3ja fasa rafmagn frá Djúpavogi inn að Bragðavöllum. Fyrr í haust var lagt frá Teigarhorni út á Djúpavog. Stefnt er að því í næsta áfanga að leggja frá Núpi og inn eftir Berufjarðarströnd. Hversu langt og hvenær er enn óljóst.

Lögreglan í Geysi: Lögreglan mun opna aðstöðu sína í Geysi fljótlega. Unnið er að breytingum á innréttingum og ýmsum tæknimálum. Gengið verður inn á lögreglustöðina um framdyrnar á Geysi og breytingar á pallinum og aðkomu verða gerðar á næstu dögum.

Heimastjórn Djúpavogs - 31. fundur - 03.11.2022

Rafvæðing hafnarinnar- Undanfarið hafa hafnaryfirvöld fundað með Rarik og fleirum varðandi möguleika á tengingum fyrir stærri skip í Djúpavogshöfn.

Íbúafundir: Undanfarið hefur heimastjórn haldið þrjá íbúafundi. Einn í þorpinu og sitthvorn fundinn í sveitunum í Álftafirði/Hamarsfirði og Berufirði. Allir tókust fundirnir vel. Meðal þeirra mála sem voru rædd er eftirfarandi:

Gamla kirkjan og Faktorshúsið - Gert er ráð fyrir að sótt verði um styrki fyrir hvort um sig til Minjastofnunar fyrir 1. desember þegar umsóknarfrestur rennur út. Enn hefur ekki verið ákveðið hvað starfsemi verður í hvoru húsi um sig en mikilvægt að það verði ákveðið fljótlega.

Umgengni í þorpinu og móttökusvæðið á Háaurum - Mikilvægt er að sveitarfélagið setji gott fordæmi hvað varðar umgengi og frágang útivið. Nú stendur yfir tiltekt á Háaurum og stefnt er að því að taka svæðið allt í gegn. Áfram verður unnið að því að hafa þorpið sem snyrtilegast í góðri samvinnu við íbúa og fyrirtæki.

Raðhús í Markarlandi - Samkvæmt upplýsingum frá byggingaraðila er stefnt að því að húsið rísi fyrir sumarið.

Eggin í Gleðivík - Nokkur umræða hefur skapast um staðsetningu Eggjanna í Gleðivík. Sigurður Guðmundsson mun funda með heimastjórn í desember til að ræða þau mál.

Vegglistaverkið á Kallabakka - Margir hafa lýst yfir ánægju sinni með verkið þó kynna hefði mátt betur framkvæmdina og hefur ábendingum um það verð komið á framfæri innan stjórnsýslunnar.

Hitaveita - Áfram er unnið að leit að heitu vatni. Ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um nýtingu vatnsins til annars en húshitunar.

Lýsing í þorpinu - Unnið er að því að bæta lýsinguna í þorpinu og við hafnarsvæðið. Ljósastaurinn við endann á Mörk verður færður/fjarlægður.

Skólalóðin - Þrýst hefur verið á sveitarfélagið um að klára skólalóðina. Gert er ráð fyrir 7 millj. kr. til verksins í drögum að framkvæmdaáætlun fyrir næsta ár.

Verktaka og útboð - Innkaupareglur sveitarfélagsins sem unnið er eftir segja til um hvenær útboð skuli fara fram hvort heldur er vegna vinnu eða þjónustu.

Hafnarsvæðið - Þessa dagana stendur yfir vinna við heildarskipulag á hafnarsvæðinu þar sem m.a. verður gert ráð fyrir rampi fyrir upptöku smábáta. Jafnframt er unnið að því með hvaða hætti megi auka öryggi á svæðinu. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um að færa þvottakústana.

Fjallskil - Stefnt er að því að hefja undirbúning vegna gangnaboðs 2023 fyrir áramót í samráði við þá sem málið varðar. Með því móti er vonast til að nægur tími gefist til verksins og að niðurstaðan henti sem flestum.

Tryggvabúð - Stefnt er að því að endurbótum þar m.a. á hljóðvist verði lokið fljótlega. Hönnun bílastæðis og malbikun mun taka mið af skipulagi í nágrenninu.

Aðgengi og snjóhreinsun á gangbrautum - Stefnt er að því að bæta aðgengi við stofnanir í þorpinu og að snjóhreinsun af gangbrautum verði með ásættanlegum hætti.

Göngustígar - Sótt hefur verið um styrk til göngustígagerðar og hönnunar til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og mikilvægt að koma því máli í farveg og byggja áfram á því sem þegar hefur verið gert.

Snjóruðningur og fyrirkomulag vetarþjónustu - Fulltrúi sveitarstjóra hefur kallað eftir að settar verði reglur um fyrirkomulag vetrarþjónustu til samræmis við það sem tíðkast annars staðar og er sú vinna hafin. Jafnframt er verið að skoða hvort og þá hvar koma megi fyrir salt/sandkistum svo vegfarendur geti sjálfir salt/sandborið þegar svo ber undir.

Land í eigu sveitarfélagsins - Engar hugmyndir eru um að selja land eða jarðir í eigu sveitarfélagsins.

Fráveita- Unnið er að fráveitu við Djúpavog á vegum HEF en óvíst hvenær framkvæmdir hefjast.

Eyjaland og vegurinn út á land - Stefnt er að því að jarðvegsskipta og keyra efni í veginn fljótlega.

Þriggja fasa rafmagn og ljósleiðari - Áfram verður þrýst á að ljósleiðari og þriggja fasa rafmagn verði lagt í sveitirnar.

Hreindýrakvóti - Heimastjórn hyggst kynna sér málið.

Fjárlaust Búlandsnes - Á vegum sveitarfélagsins er verið að skoða þann möguleika að Búlandsnesið verði lýst fjárlaust.

Sorphirða og flokkun - Nauðsynlegt er að endurskoða reglulega með hvaða hætti staðið er að flokkun og sorphirðu á svæðinu og tryggja að flokkun skili tilætluðum árangri.






Heimastjórn Djúpavogs - 32. fundur - 08.12.2022

Eyjaland: Á næstu dögum hefjast framkvæmdir í Eyjalandi. Gömlum lögnum og jarðvegi verður skipt út og yfirborð lagað. Í framhaldinu verður vegurinn í átt að flugbrautinni lagaður.

Tryggvabúð: Framkvæmdum þar m.a. til að bæta hljóðvist auk þess sem opnað var milli herbergja er næstum lokið.

Háaurar: Undanfarið hefur verið unnið að hreinsun á gámasvæðinu á Háaurum. Frekari framkvæmdir eru fyrirhugaðar.

Bóndavarðan: Bóndavarðan kom út í lok nóvember.

Cittaslow: Fulltrúi sveitarstjóra sat fund Nordic Cittaslow 1. desember þar sem farið var yfir starfið framundan.

Starfsmannamál: Sigurbjörn Heiðdal hefur sagt upp störfum hjá þjónustumiðstöðinni. Starfið hefur verið auglýst.

Verndarsvæði í byggð: Boðað verður til opins fundar á Djúpavogi um verndarsvæði í byggð fljótlega eftir áramótin.

Snorrasjóður: Stjórn Snorrasjóðs kom saman til fundar vegna úthlutunar úr sjóðnum. Niðurstaða fundarins verður kynnt fljótlega.

Fundur rýnihóps í Löngubúð: Nýlega var haldinn fundur í Löngubúð á samstarfi við auglýsingastofuna Hvíta húsið um ímynd Múlaþings. Betur hefði mátt standa að fundarboðinu og upplýsingagjöf m.a. til heimastjórnar í tengslum við fundinn.

Slökkvibílar: Búið er að selja annan af bílum slökkviliðsins sem auglýstir voru til sölu nýlega. Stefnt er að því að þeir verði fjarlægðir af planinu við slökkvistöðina fyrir jól.

Vegurinn um Öxi: Sveitarfélagið minnir reglulega á kröfur sínar og heimastjórnar um úrbætur varðandi vetrarþjónustu og framkvæmdir á Öxi. Innan nokkurra daga mun sveitarstjóri funda með forstjóra Vegagerðarinnar og er gert ráð fyrir að fulltrúi úr heimastjórn sitji þann fund.

Húsnæðisáætlun: Þessa dagana er unnið að húsnæðisáætlun fyrir Múlaþing og einstaka hluta þess. Drög verða kynnt heimastjórn fljótlega.

Eimskip: Svæðisstjóri Eimskips hefur óskað eftir að koma á funda heimastjórnar og kynna starfsmei og áherslur fyrirtækisins á svæðinu. Hann verður boðinn velkominn á fund heimastjórnar í janúar.

Salernismál: Áfram er unnið að úrlausn á salernismálum í og við Samkaup í samstarfi við fyrirtækið.

Heimastjórn Djúpavogs - 33. fundur - 05.01.2023

Snjómokstur innanbæjar og til sveita: Kort vegna vetrarþjónustu gatna á Djúpavogi er nú aðgengilegt á heimasíðu sveitarfélagsins. Unnið er að sambærilegu korti varðandi göngustíga. Einnig er unnið að kortlagningu og samræmingu á vetrarþjónustu til sveita í Múlaþingi sem vonast er til að ljúki fljótlega.

Heimsókn umhverfisfulltrúa: Gert er ráð fyrir að Margrét Ólöf Sveinsdótir verkefnastjóri umhverfismála verði gestur á næsta fundi heimastjórnar. Þar mun hún fara yfir og kynna starfssvið sitt og svara spurningum.

Ljósleiðari og þriggja fasa rafmagn: Áfram er unnið að ljósleiðaramálum og þriggjafasa rafmagni í dreifbýlinu. Sveitarstjóri mun funda með yfirstjórn Rarik vegna þess mjög fljótlega.

Eyjaland: Ekki náðist að hefja framkvæmdir við Eyjaland fyrir áramótin. Stefnt er að því að hefjast handa þegar aðstæður leyfa.

Verndarsvæði í byggð: Stefnt er að því að boða til opins fundar á Djúpavogi um verndarsvæði í byggð í febrúar.

Starfsmannamál: Nökkvi Fannar Sigrúnarson hefur verið ráðinn verkstjóri í þjónustumiðstöðinni á Djúpavogi. Hann hefur störf um miðjan febrúar.

Snorrasjóður: Úthlutað hefur verið úr Snorrasjóð. Davíð Örn Sigurðarson hlaut námsstyrkinn að þessu sinni en hann stundar nám í rafvirkjun við Fjölbrautarskólann í Breiðholti.

Axarvegur: Stefnt er að því að fulltrúi heimastjórnar eigi fund með yfirstjórn Vegagerðarinnar og sveitarstjóra Múlaþings fljótlega þar sem farið verður yfir m.a. vetrarþjónustu og stöðu mála varðandi framkvæmdir á heilsársvegi yfir Öxi.

Salernismál: Þessa dagana er unnið að undirbúningi vegna salernisaðstöðu í Sætúni. Einnig er unnið að lausn á salernismálum í og við Kjörbúðina í samstarfi við Samkaup.

Faktorshúsið: Auglýst verður eftir samstarfsaðilum vegna uppbyggingar hússins fljótlega.

Heimastjórn Djúpavogs - 34. fundur - 02.02.2023

Faktorshúsið: Auglýst hefur verið eftir samstarfsaðilum vegna uppbyggingar Faktorshússins. Ekki hafa enn borist fyrirspurnir um verkefnið.

Salernismál: Unnið er að lokahönnun á salernisaðsstöðu í Sætúni. Gert er ráð fyrir sex salernum með góðu aðgengi fyrir fatlað fólk. Sömuleiðis standa enn yfir viðræður vegna salernisaðstöðu í Kjörbúðinni á samstarfi við Samkaup.

Starfsmannamál: Auglýst hefur verið eftir starfsmanni í 60% starf umsjónaraðila í Tryggvabúð frá 1. mars. Umsóknarfrestur rann út 31. janúar.

Nýlega var úthlutað menningarstyrkjum Múlaþings 2023: Verkefni sem tengjast Djúpavogi sem hlutu styrk eru:

Bergþóra Birgisdóttir / Langabúð. Aldarafmæli Stefáns Jónssonar fréttamanns frá Rjóðri. Tilgangur verkefnisins er að heiðra minningu Stefáns Jónsonar, sem hefði orðið 100 ára 9.maí 2023, með dagskrá í Löngubúð á Djúpavogi 13. maí. Á dagskrá verður upplestur og tónlistaratriði í minningu Stefáns. Úthlutun: 150.000 kr.

Sveinn Kristján Ingimarsson / Tilvitnanir. Uppsetning á skiltum á ljósastaura á Djúpavogi sumarið 2023 með tilvitnunum úr bókum Stefáns Jónssonar rithöfundar frá Djúpavogi . Tilefnið er 100 ára afmæli Stefáns Jónssonar rithöfundar, útvarpsmanns og alþingismanns en hann fæddist á Hálsi í Hamarsfirði þann 9. maí 1923. Hugmyndin er að láta útbúa 50 álskilti sem eru u.þ.b. A4 stærð og festa á ljósastaura í þorpinu, gangandi
vegfarendum til gagns og gamans. Úthlutun: 100.000 kr.

Félag ljóðaunnenda á Austurlandi / Útgáfa ljóðabóka árið 2023. Félagið áformar að gefa út tvær ljóðabækur árið 2023. Stefnt er að útgáfu fyrri bókarinnar í júní, höfundur hennar er Iðunn Steinsdóttir rithöfundur frá Seyðisfirði. Bók Iðunnar verður sú tuttugasta og þriðja í flokknum Austfirsk ljóðskáld. Kristín Sigfinnsdóttir á Djúpavogi er höfundur síðari bókarinnar. Áætlað er að hún komi út í september. Bókin verður ein af aukabókum félagsins eins og við nefnum þær bækur sem ekki eru gefnar út í flokknum. Úthlutun: 200.000 kr.

Hólmfríður Ósk Samúelsdóttir / Vögguvísur í heimabyggð. Góða nótt, vögguvísur í heimabyggð er röð "kodda"tónleika fyrir fólk á öllum aldri. Flutt verða lög af plötunni Góða nótt sem kemur út í apríl 2023. Lögin er ætluð börnum fyrir svefninn og tónelskum fullorðnum sem vilja ró og ljúfa tóna. Tónleikarnir á Djúpavogi eru sérstakir því gestir mega mæta í náttfötum, geta lagst á dýnu með teppi & kodda og hlustað, knúsast og hallað augunum. Kjörið fyrir fjölskyldur og vini. Skapar ró, eflir tengsl, gleður og kætir. Úthlutun: 200.000 kr.

Þórdís Sævarsdóttir / Um loftin blá - Hljóðbók. "Um loftin blá" er barnabók frá 1940, eftir Sigurð Thorlacius, sem lýsir fuglaflóru, hringrás fuglalífsins, dýralífi, náttúru og staðháttum á Djúpavogi og nágrenni. Bókin er ekki auðfengin í dag. Markmið verkefnisins er að setja þessa fallegu og fræðandi sögu og heimild frá Djúpavogi og nágrenni í form hljóðbókar, svo hún glatist ekki, og gera hana þannig aðgengilega ungu fólki í dag og komandi kynslóðum. Úthlutun: 250.000 kr.

Viðvera sveitarstjóra: Björn Ingimarsson sveitarstjóri verður til viðtals í Geysi á Djúpavogi 6. febrúar og geta íbúar pantað viðtalstíma með Birni hjá fulltrúa sveitarstjóra gauti.johannesson@mulathing.is.

Verndarsvæði í byggð: Stefnt er að opnum fundi um "Verndarsvæði í byggð" seinni partinn í febrúar þar sem fulltrúar sveitarfélagsins og Minjastofnunar verða með kynningu á verkefninu og sitja fyrir svörum.

Fundur með Vegagerðinni: Gert er ráð fyrir að fulltrúi úr heimastjórn sitji fund með fulltrúum sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar 9. febrúar.

Vefmyndavél: Vefmyndavélin utan á Hótel Framtíð hefur verið biluð lengi. Stefnt er að því að hún verði löguð við fyrsta tækifæri.




Heimastjórn Djúpavogs - 35. fundur - 09.03.2023

Endurskoðun lóðaleigusamninga: Undanfarið hefur verið unnið að endurnýjun lóðarleigusamninga á Djúpavogi sem margir eru löngu útrunnir. Stefnt er að því að halda þessari vinnu áfram og mega íbúar því búast við að haft verði samband við þá af því tilefni.

Vefmyndavélin: Vefmyndavélin er komin í lag.

Girðing við Bræðsluna: Verið er að undirbúa byggingu girðingar við Bræðsluna og loka þannig geymslusvæði laxeldisins af.

Uppbygging á Teigarhorni: Undanfarið hefur verið unnið að undirbúningi frekari uppbyggingar á Teigarhorni í samstarfi við stofnanir ríkisins og einkaaðila.

Þriggja fasa rafmagn og ljósleiðari. Stefnt er að því að leggja þriggja fasa rafmagn inn Berufjarðarströnd á þessu ári. Áhersla er lögð á að koma þar niður ljósleiðara samhliða.

Skógræktin: Undanfarna daga hefur verið unnið að fellingu trjáa og öðru tilfallandi í skógræktinni. Enn er mikið verk óunnið.

Fiskeldissjóður: Nýlega var sótt um styrk til Fiskeldissjóðs til uppbygginar á aðstöðu fyrir viðbragðsaðila á Djúpavogi.

Íbúafundur: Stefnt er að því að boða til íbúafundar 27. apríl (ath. breytt dagsetning frá síðustu fundargerð).

Heimastjórn Djúpavogs - 36. fundur - 05.04.2023

Fiskeldissjóður: Fulltrúi sveitarstjóra gerði grein fyrir fundi sem hann átti með stjórn Fiskeldissjóðs varðandi fjármögnun á björgunarmiðstöð á Djúpavogi. Gert er ráð fyrir öðrum fundi með stjórn sjóðsins 11. apríl en stefnt er að úthlutun úr sjóðnum fyrir lok apríl.

Skógræktin: Áfram er unnið að verkefnum í skógræktinni.

Deiliskipulag fyrir athafna- og hafnarsvæði við Innri Gleðivík: Vinnslutillaga skipulagsins hefur verið auglýst. Almenningi er gefinn kostur á að senda inn ábendingar og/eða athugasemdir til og með 13. apríl 2023.

Öxi: Unnið er að snjóhreinsun á Öxi og gert ráð fyrir að vegurinn opnist fljótlega.

Fundur v skemmtiferðaskipa: Nýlega var haldinn fundur með hagaðilum vegna móttöku skemmtiferðaskipa á Djúpavogi í sumar. Fundurinn var vel sóttur og ljóst að mikill vilji er til samvinnu á svæðinu til að móttaka skipanna gangi vel í sumar.

Íbúafundur í Löngubúð: Íbúafundur heimastjórnar verður haldinn í Löngubúð kl. 17:00-19:00 27. apríl. Hann verður auglýstur nánar þegar nær dregur.

Fundur með viðbragðsaðilum: Fundað verður fljótlega með viðbragðsaðilum vegna fyrirhugaðrar byggingar björgunarmiðstöðvar þar sem áhersla verður lögð á þarfagreiningu viðbragðsaðila.

Grjótvörn og göngustígur: Þessa dagana er unnið að hönnun á grjótvörn og göngustíg í Innri og Ytri Gleðivík. Samhliða framkvæmdinni er gert ráð fyrir lagnavinnu í tengslum við m.a. fráveitu.

Umsókn í Orkusjóð: Unnið hefur verið undanfarið að umsókn í Orkusjóð með landtengingu fyrir brunnbáta og önnur skip í huga.

Heimastjórn Djúpavogs - 37. fundur - 04.05.2023

Breyttur opnunartími skrifstofu: Frá og með þriðjudeginum 2. maí verður skrifstofa Múlaþings á Djúpavogi opin frá klukkan 10:00 til 14:00, mánudaga til fimmtudaga og frá klukkan 10:00 til 12:00 föstudaga. Með því að hafa opið í hádeginu verður auðveldara fyrir þá sem eiga erfitt með að komast frá vinnu að nýta sér þjónustu skrifstofunnar.

Sumarsýning Ríkarðhúss: Þessa dagana er unnið að uppfærslu á sýningu Ríkarðshúss í Löngubúð og stefnt er að því að sumarsýningin verði opnuð um miðjan maí.

Ríkarðshús: Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur úrskurðað að greinargerðir vegna Ríkarðshúss í tengslum við afturköllun gjafaloforðs skuli afhentar fréttamanni RÚV og hefur það verið gert.

Sparkvöllurinn: Borist hafa ábendingar um viðhalds sé þörf á sparkvellinum. Málið er í skoðun hjá framkvæmdasviði.

Fiskeldissjóður: Sótt hefur verð um styrk í Fiskeldissjóð vegna hönnunar á nýrri björgunarmiðstöð fyrir viðbragðsaðila á Djúpavogi.

Faktorshús: Unnið er að lokafrágangi á lóð í kringum Faktorshúsið og stefnt að því að þeirri vinnu ljúki fljótlega.

Samfélagsverkefni heimastjórna: Unnið er að því að koma upp leikkastala á fjölskyldusvæðinu í Blánni í samræmi við ákvörðun á síðasta fundi heimastjórnar og í samráði við m.a. foreldrafélag leikskólans.

Á vel sóttum íbúafundi sem haldinn var í Löngubúð 27. apríl var m.a. rætt um eftirfarandi:

Vogaland: Til langs tíma hefur verið kvartað undan holóttum veginum um Vogaland. Miklu skiptir að sem fyrst verði farið í að lagfæra hann og verður þeim skilaboðum komið til umhverfis- og framkvæmdasviðs.

Ljósleiðaravæðing í þéttbýli: Mikill áhugi er fyrir ljósleiðaravæðingu í þéttbýli. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Mílu er gert ráð fyrir að ljósleiðari verður lagður á Djúpavogi á næsta ári.

Mastur neðan við Kamb: Mastrið er orðið gamalt og hefur ekkert hlutverk lengur. Starfsmaður heimastjórnar mun hafa samband við Mílu varðandi niðurrif á mastrinu, ekki síst út frá öryggissjónarmiðum.

Bókasafn: Rætt var um aðgengi að bókasafninu. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um flutning þess.

Faktorshúsið: Rætt var um notkun á Faktorshúsinu og settar fram hugmyndir um að það henti e.t.v. sem fjölnotahús m.a. til listsköpunar. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um notkun hússins og auglýsing eftir samstarfsaðilum varðandi uppbyggingu hússins bar ekki árangur.

Göngustígur upp á Bóndavörðu: Fram komu ábendingar um mikilvægi þess að göngustígurinn upp á Bóndavörðu yrði lagaður. Því hefur verið komið á framfæri við umhverfis- og framkvæmdasvið.

Nýbygging í Markarlandi: Rætt var um þann drátt sem orðið hefur á byggingu raðhúss á vegum Hrafnshóls við Markarland. Eftir því sem best er vitað eru einingarnar komnar eða væntanlegar fljótlega til landsins. Einnig voru gerðar athugasemdir við umgengni á byggingarstað.

Girðingar í sveitum: Í fundinum kom fram tillaga um hvort sumarstarfsmenn sveitarfélagsins gætu e.t.v. tekið að sér að fjarlægja ónýtar girðingar fyrir bændur. Hugmyndinni verður komið á framfæri við umhverfis- og framkvæmdasvið.

Google: Fram komu ábendingar um að upplýsingar og merkingar á kortum á Google á svæðinu væru ekki réttar. Athugun heimastjórnar 4. maí sýndi fram á að miðbærinn á Djúpavogi er nú rétt staðsettur og að ýmsar fleiri leiðréttingar hafi átt sér stað þ.m.t. Breiðdalsheiði.

Rúlluplast í sveitum: Fram kom ábending um að vel væri staðið að söfnun á rúlluplasti í sveitum.

Athafna- og hafnarsvæðið í Gleðivík: Gerðar voru athugasemdir við skilyrði sem sett eru um vörslu lausamuna á lóðum á svæðinu og ábendingar um mikilvægi þess að sérstakt geymslusvæði sé í boði. Stefnt er að því að boðið verði upp á sérstakt geymslusvæði á Háaurum í framtíðinni.

Grenndargámar í sveitum: Tillögur komu fram um hvort ekki væri mögulegt að setja upp grenndargáma í sveitum.

Ljósleiðari og þriggja fasa rafmagn í sveitum: Ábendingar komu um mikilvægi ljósleiðaravæðingar, sérstaklega frá Kelduskógum í Fossárdal, og orkuöryggi í sveitum. Heimastjórn mun áfram þrýsta á hvort tveggja sbr. lið 1.

Umhverfisverðlaun: Fram kom hugmynd um hvort veita ætti sérstök umhverfisverðlaun á hverju ári til að hvetja íbúa og fyrirtækja til snyrtilegrar umgengni og frágangs á lóðum og íbúðarhúsnæði. Hugmmyndinni verður tekin til skoðunar hjá heimastjórn.

Fundur með innviðaráðherra: Fulltrúar í heimastjórn sátu fund með innviðaráðherra á Egilsstöðum 3. maí þar sem áherslum heimastjórnar varðandi Axarveg var komið á framfæri.



Heimastjórn Djúpavogs - 38. fundur - 01.06.2023

Sætún: Framkvæmdir standa yfir og gert er ráð fyrir að salernisaðstaðan í húsinu verið tilbúin til notkunar 23. júní.

Sjólögn: Nýverið var lögð u.þ.b. 500 metra sjólögn frá Bræðslunni út í Innri Gleðivík. Lögnin mun sjá kassaverksmiðjunni fyrir sjó til kælingar. Framkvæmdin tókst vel með góðum undirbúningi og samvinnu þeirra sem í hlut áttu.

Fiskeldissjóður: Fiskeldissjóður synjaði umsókn sveitarfélagsins vegna hönnunar á björgunarmiðstöð fyrir viðbragðsaðila á Djúpavogi. Gert er ráð fyrir að sækja um aftur að ári.

Skólagarðar: Þessa dagana er unnið að því að koma upp skólagörðum sem nemendur geta notað til gróðursetningar.

Sjómannadagurinn: Stefnt er að því að frumsýna myndasýningu í Löngubúð laugardagskvöldið fyrir sjómannadag með myndum frá hátíðarhöldum liðinna ára, bátum o.fl. Samráðshópur um Cittaslow á Djúpavogi hafði frumkvæði að verkefninu.

Samfélagsverkefni heimastjórna: Vonast er til að leikkastalinn í Blánni verði fljótlega kominn á sinn stað. Stefnt er að fundi með stjórn Neista þar sem fjallað verður um heildarskipulag á svæðinu.

Gróðurker. Þessi dagana er unnið að smíði nýrra gróðurkerja sem sett verða við planið við Bakkabúð. Efnið í kerin er m.a. fengið úr Faktorshúsinu.

Göngustígur og lagnir: Unnið er að lagnavinnu meðfram sjónum milli Búlandstinds og Bræðslunnar. Jafnhliða verður komið fyrir göngustíg.

Gangstétt í Mörk: Steypuvinna á fyrsta hluta er í gangi.

Heimastjórn Djúpavogs - 39. fundur - 06.07.2023

Sætún: Unnið er að framkvæmdum við salernisaðstöðu í Sætúni. Þeim hefur seinkað en vonast er til að þeim ljúki mjög fljótlega.

Mastur: Sótt hefur verið um leyfi til að fjarlægja mastur við Kamb 1 og er gert ráð fyrir að það verði tekið niður í sumar.

Starfsmaður við höfnina: Starfsmaður er ráðinn tímabundið til að aðstoða við höfnina þá daga þegar umferð skemmtiferðaskipa krefst þess.

Eyjaland: Stefnt er að því að malbika Eyjalandið fljótlega í júlí.

Hafnarframkvæmdir: Áfram er unnið að hafnarframkvæmdum en steypa á þekjuna á bryggjunni í september. Einnig er unnið að lögnum og fyrirhuguðum göngustíg við Víkurland.

Viðgerð á Geysi: Viðgerð hefur undafarið staðið yfir á gluggum í Geysi en þeir hafa lekið lengi. Viðgerð lýkur í júlí.

Faktorshúsið. Tröppur verða settar við gaflinn á Faktorshúsinu á allra næstu dögum.

Mörk: Áfram er unnið að gerð gangstéttar meðfram Mörk. Þeirri framkvæmd lýkur fljótlega.

Tryggvabúð: Unnið er að því að undirbúa malbikun á bílastæðinu við Tryggvabúð sem verður gert fljótlega.

Salernisaðstaða við Kjörbúðina: Áfram er unið að málinu í samráði við forsvarsmenn verslunarinnar og N1.

Langabúð: Nýlega var lagður göngustígur neðan við Löngubúð og þökur settar sitt hvoru megin.

Grunnskólinn: Stefnt er að því að klæðningu á skólanum verði lokið fyrir skólabyrjun.


Heimastjórn Djúpavogs - 40. fundur - 10.08.2023

Sætún: Unnið er að framkvæmdum við salernisaðstöðu í Sætúni. Þeim hefur seinkað mikið en vonast er til að þeim ljúki fljótlega.

Eyjaland: Lokið er við að malbika Eyjaland.

Hafnarframkvæmdir: Áfram er unnið að hafnarframkvæmdum en ljúka á steypuvinnu við þekjuna í september. Einnig er áfram unnið að lögnum og fyrirhuguðum göngustíg við Víkurland. Stefnt er að því að malbika svæðið neðan við Faktorshúsið í haust.

Faktorshúsið. Tröppur hafa verið settar við gaflinn á Faktorshúsinu. Lokafrágangur stendur yfir.

Mörk: Áfram er unnið að gerð gangstéttar meðfram Mörk. Þeirri framkvæmd lýkur fljótlega.

Tryggvabúð: Búið er að malbika bílastæðið við Tryggvabúð. Unnið er að merkingum.

Salernisaðstaða við Kjörbúðina: Áfram er unnið að málinu í samráði við forsvarsmenn verslunarinnar og N1.

Grunnskólinn: Áfram er unnið að klæðningu á grunnskólanum.

Heimastjórn Djúpavogs - 41. fundur - 07.09.2023

Sætún: Framkvæmdum við salernisaðsstöðu í Sætúni er að ljúka mun seinna en ráð var fyrir gert.

Hafnarframkvæmdir: Vinna er hafin við að steypa þekjuna á bryggjunni. Verklok eru áætluð í lok september.

Gangnaseðlar: Gangnaseðlum var dreift til bænda og landeigenda fyrir nokkru.

Tryggvabúð: Búið er að merkja bílastæðin við Tryggvabúð.

Rampar: Römpum hefur verið komið upp við Steinasafn Auðuns, Við Voginn og við Leikskólann Bjarkatún.

Salernisaðstaða við Kjörbúðina: Áfram er unnið að málinu í samráði við forsvarsmenn verslunarinnar og N1.

Ljósleiðari: Unnið er að undirbúningi við lagningu ljósleiðara frá Hamraborg að Kelduskógum. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist fljótlega samhliða lagningu 3ja fasa rafmagns..

Ljós við gangbrautir: Komið hefur verið upp ljósum við gangbrautir við slökkvistöðina og móts við Steinasafn Auðuns.

Leikkastali: Leikkastalinn er kominn á Djúpavog og verður settur upp fljótlega.



Heimastjórn Djúpavogs - 42. fundur - 05.10.2023

Menningarstyrkir: Nýlega fór fram seinni úthlutun á menningarstyrkjum í Múlaþingi fyrir 2023. Verkefni á svæðinu sem hlutu styrk eru eftirfarandi: Þórir Stefánsson, Tyrkjaránið - ljósmyndasýning, Ágústa Arnardóttir, Fjölmenningarmánuður - mánuður tileinkaður fjölmenningu, Áhugahópur fólks um sjósókn á Djúpavogi, Minnisvarði um látna sjómenn - varðveisla menningarsögu um sjósókn, Ágústa Arnardóttir, Hvað ætla ég að gera - myndskreytt verkefnabók fyrir börn, Þuríður Elísa Harðardóttir, Ljósmyndasýning á Teigahorni - ljósmyndir af umhverfi og náttúru Austurlands.

Sætún: Framkvæmdum við salernisaðstöðu í Sætúni er lokið. Enn er þó eftir frágangur utandyra.

Björgunarmiðstöð á Djúpavogi: Sveitarstjóri og fulltrúi sveitarstjóra á Djúpavogi hafa fundað með viðbragðsaðilum. Málið er í vinnslu.

Hafnarframkvæmdir: Vinna er hafin við að steypa þekjuna á bryggjunni og styttist í verklok.

Faktorshúsið: Sveitarstjóri og fulltrúi sveitarstjóra hafa fundað með fulltrúum Goðaborgar ehf. Málið er í vinnslu.

Salernisaðstaða við Kjörbúðina: Áfram er unnið að málinu í samráði við forsvarsmenn verslunarinnar.

Ljósleiðari: Framkvæmdir eru hafnar við lagningu 3ja fasa rafmagns frá Núpi að Kelduskógum og ljósleiðara frá Hamraborg inn að Kelduskógum.

Leikkastali: Framkvæmdir eru hafnar við uppsetningu á leikkastala í Blánni.

Hitaveituframkvæmdir: Undirbúningur er hafinn vegna borunar eftir heitu vatni innan við Djúpavog. Boranir hefjast í nóvember.

Hundasvæði á Djúpavogi: Starfsmaður heimastjórnar hefur fundað með fulltrúa hundaeigenda á Djúpavogi. Málið er í vinnslu.

Sjálfsafgreiðslustöð N1 á Djúpavogi: Enn hefur ekki orðið af fundi formanns heimastjórnar á Djúpavogi með formanni umhverfis- og framkvæmdaráðs með forsvarsaðilum N1.

Snjóhreinsun á Öxi: Ekki hafa borist viðbrögð frá Vegagerðinni vegna fyrirspurnar starfsmanns heimastjórnar um með hvaða hætti staðið verður að vetrarþjónustu á Öxi. Stefnt er að fundi með fulltrúa Vegagerðarinnar við fyrsta tækifæri.

Starfsmannamál: Fulltrúi sveitarstjóra og starfsmaður heimastjórnar á Djúpavogi hefur sagt starfi sínu lausu og mun láta af störfum í lok desember.

Íbúafundur: Boðað verður til íbúafundar 7. nóvember samkvæmt áætlun.

Heimastjórn Djúpavogs - 43. fundur - 09.11.2023

Leikkastali: Framkvæmdum við uppsetningu á leikkastala í Blánni er lokið.

Björgunarmiðstöð á Djúpavogi: Sveitarstjóri og fulltrúi sveitarstjóra á Djúpavogi hafa fundað með viðbragðsaðilum. Málið er áfram í vinnslu.

Faktorshúsið: Sveitarstjóri og fulltrúi sveitarstjóra hafa fundað með fulltrúum Goðaborgar ehf. Málið er í vinnslu en engar ákvarðanir hafa verið teknar um framhaldið.

Hundasvæði á Djúpavogi: Fulltrúi sveitarstjóra hefur fundað með fulltrúa hundaeigenda á Djúpavogi og unnin hefur verið kostnaðaráætlun vegna verksins. Málið er áfram í vinnslu.

Salernisaðstaða við Kjörbúðina: Áfram er unnið að málinu í samráði við forsvarsmenn verslunarinnar. Vonast er til að niðurstaða liggi fyrir fljótlega.

Ljósleiðari: Framkvæmdum við lagningu 3ja fasa rafmagns frá Núpi að Kelduskógum og ljósleiðara frá Hamraborg inn að Kelduskógum hefur verið hætt í bili. Áfram verður haldið með verkið þegar fer að vora.

Hitaveituframkvæmdir: Undirbúningur er hafinn vegna borunar eftir heitu vatni innan við Djúpavog. Boranir hefjast í desember.

Sjálfsafgreiðslustöð N1 á Djúpavogi: Nýlega sátu formaður heimastjórnar, fulltrúi sveitarstjóra, formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs og sveitarstjóri fund með forsvarsaðilum N1 þar sem N1 lýsti yfir áhuga á að setja upp nýja afgreiðslustöð fyrir eldsneyti í útjaðri þorpsins í samræmi við nýtt aðalskipulag sem unnið er að. Fulltrúar N1 lýstu líka yfir vilja til að koma að uppbyggingu á salernisaðstsöðu í samstarfi við Samkaup.



Heimastjórn Djúpavogs - 44. fundur - 07.12.2023

Úthlutun úr uppbyggingarsjóði: Nýlega var úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Austurlands v. 2024. Meðal þeirra sem hlutu styrk eru: Ars Longa, rekstrarstyrkur 2 millj. og Kristján Ingimarsson, sumartónleikar Djúpavogskirkju 300 þús.

Ljósleiðari í Berufirði: Ákveðið hefur verið að setja 1 millj. í uppfærslu á örbylgjuneti í Berufirði meðan ekki hefur verið lokið við ljósleiðaravæðingu á svæðinu og mun Rafey hafa umsjón með verkinu.

Faktorshús: Byggðaráð hefur heimilað sveitarstjóra að ganga til samninga við Goðaborg ehf. varðandi uppbyggingu og rekstur í Faktorshúsinu.

Hitaveituframkvæmdir: Framkvæmdir vegna hitaveitu hafa dregist. Nú er gert ráð fyrir að boranir hefjist í febrúar.

Björgunarmiðstöð á Djúpavogi: Áfram er unnið að málinu í samstarfi við viðbragðsaðila.

Heimreiðar: Vegagerðin vinnur nú að hönnun nýrra heimreiða að Framnesi og Stekkamýri.

Nýir bekkir: Undanfarið hafa starfsmenn þjónustumiðstöðvarinnar unnið að smíði bekkja sem fyrirhugað er að hafa í þorpinu og hefur þeim fyrsta verið komið fyrir við Geysi. Bekkirnir eru unnir úr timbri úr gömlu trébryggjunni.

Nýr tengill á heimasíðu: Unnið er að því að koma nýjum tengli á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem hægt verður að nálgast yfirlit yfir stöðu lykil- og undirverkefna heimastjórnar ásamt stefnumótandi markmiðum eins og fram kom í grein heimastjórnar í Bóndavörðunni. Stefnt er að því að tengillinn verði virkur mjög fljótlega.

Vefmyndavél: Unnið er að því að panta og koma fyrir nýrri vefmyndavél.

Heimastjórn Djúpavogs - 45. fundur - 11.01.2024

Faktorshús: Gengið hefur verið frá samningi við Goðaborg ehf. vegna uppbyggingar og reksturs í hluta Faktorshússins. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist fljótlega.

Gamla kirkjan: Nýlega var gengið frá kaupum á gólfefni fyrir gömlu kirkjuna og gluggaumbúnaði að utan. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist með vorinu.

Djúpavogshöfn: Búið er að panta lítið þjónustuhús sem gert er ráð fyrir að setja upp í stað kofanna tveggja við trébryggjuna. Húsið verður í stíl við Faktorshúsið, svart með hvítum gluggum. Gert er ráð fyrir að starfsfólk hafnarinnar hafi þar aðstöðu.

Vefmyndavél: Pöntuð hefur verið ný vefmyndavél. Hún verður sett upp um leið og hún kemur til landsins.

Teigarhorn: Viðræður hafa staðið undanfarið við Umhverfisstofnun, Þjóðminjasafnið og Framkvæmdasýslu ríkisins um uppbyggingu á Teigarhorni. Gert er ráð fyrir að niðurstöður viðræðna liggi fyrir fljótlega.

Sætún: Fljótlega verður hafist handa við frágang á Sætúni að utan. Skipt verður um glugga þar sem það hefur ekki verið gert nú þegar og húsið klætt að utan með standandi viðarklæðningu. Einnig verður gengið frá bílastæðum og rampi fyrir hreyfihamlaða. Framkvæmdum verður lokið fyrir sumarið.

Víkurland: Framkvæmdir við grjótvörn við Víkurland hafa gengið hægar en gert var ráð fyrir en lýkur fljótlega. Gatna- og lagnahönnun í nýju iðnaðarhverfi hefur verið boðin út og gengið hefur verið til samninga við lægstbjóðanda.

Hitaveituframkvæmdir: Gert er ráð fyrir að boranir hefjist í febrúar.

Heimreiðar: Enn er unnið að hönnun á heimreiðum að Framnesi og Stekkamýri.





Heimastjórn Djúpavogs - 46. fundur - 08.02.2024

Faktorshús: Framkvæmdir á jarðhæð ganga vel. Búið er að klæða útveggi og setja upp milliveggi. Stefnt er að því að taka aðstöðuna í notkun um Hammondhelgina.

Hitaveituframkvæmdir: Borun eftir heitu vatni er hafin og vonast til að niðurstöður um hvort þar er nægt heitt vatn að finna munu liggja fyrir í kjölfarið.

Björgunarmiðstöð: Eftir nánari skoðun hefur verið ákveðið að björgunarsveitin mun ekki taka þátt í byggingu sérstakrar björgunarmiðstöðvar. Er sú ákvörðun m.a. tekin vegna kostnaðar við bygginguna.

Stefnumörkun hafna: Í nýrri stefnumörkun hafna Múlaþings er gert ráð fyrir að hámarksfjöldi farþega í landi á Djúpavogi hverju sinni verði ekki meiri en 2500 í framtíðinni. Þetta á ekki við um þau skip sem þegar hafa pantað aðstöðu í höfninni. Fylgjast má með komum skipa á slóðinni https://portsofmulathing.is/is/cruise-ship-arrivals/.

Öxi - viðhald og vetrarþjónusta: Að sögn Vegagerðarinnar hefur þjónustutímabilið verið lengt í báðar áttir. Byrjað sé fyrr á vorin og mokað lengur - og farið um miðjan vetur þegar snjólétt er.




Heimastjórn Djúpavogs - 47. fundur - 06.03.2024

Faktorshús: Framkvæmdir ganga vel, búið að stærstum hluta á neðri hæð og að hluta á efri hæð.

Sætún: Efni í utanhúsklæðningu er komið og ekkert því til fyrirstöðu að hefja vinnu við að klæða húsið.

Víkurland: Grjótvörn við innsta áfanga langt komin, en eftir að setja grjótvörn í fjöruna fyrir utan Sæbakka.

Hitaveituframkvæmdir: Boranir hófust i febrúar, búið að bora um 470 metra. Bokróna er föst en unnið er því að losa hana og verður borun áframhaldið ef það tekst, annars gæti þurft að endurskoða boráætlun.

Borgarland: Góður gangur hefur verið undanfarið, en mikið frost í jörðu hefur verið að valda verktaka vandræðum.

Heimastjórn Djúpavogs - 48. fundur - 04.04.2024

Víkurland: Búið er að grjótverja ströndina og ganga frá. Nú á einungis eftir að leggja göngustíg, setja frárennslisrör á nokkrum stöðum og lýsingu.

Hitaveita: Borun gengur hægt og er núna í um 770 metrum. Hitamælingar hafa valdið vonbrigðum og ekki hefur tekist að skera þá vatnsæð sem stefnt var að.

Grunnskólinn: Langt komið með að klæða húsið að utan, næst eru þakkantar og einnig þarf að endurnýja þök á hluta af skólabyggingunni.

Borgarland: Fyrsta áfanga er lokið fyrir utan jöfnunarlag og malbik, verktaki gerir ráð fyrir að taka næsta áfanga þegar frost er farið úr jörðu.



Heimastjórn Djúpavogs - 49. fundur - 02.05.2024

Hitaveita: Borun var hætt í byrjun apríl. Borað var niður á 800 metra en ekki fannst vatn í þessari atrennu.

Fráveita: Gert er rað fyrir að framkvæmdir við fráveitu að Langatanga hefjist í byrjun maí.

Vatnsveita: Vel gekk að bora eftir köldu vatni inn við Búlandsá og er HEF að vinna í því að koma þeim holum í nýtingu sem allra fyrst, þannig að hægt sé að leggja af vatnsbólið inn á Búlandsdal.

Gleðivík: Búið er að bjóða út gangstétt við Eggin í Gleðivík. Gert er ráð fyrir lagfæringu á aðstöðu og aðgengi við egginn samhliða þeirri vinnu. Styrkur að upphæð 28.546.000.- fékkst til úrbóta á svæðinu frá Uppbyggingarsjóði ferðamannastaða, til að bæta aðgengi og tryggja öryggi á svæðinu.

Faktorshús: Opnað var á síðasta vetrardag og þykir bæði heimamönnum og gestum vel hafa tekist til með framkvæmdina og almennt mikil ánægja með að líf sé komið í Faktorshúsið.

Samfélagsverkefni heimastjórna: Búið er að panta "aparólu", afgreiðslutími er 6-8 vikur.

Hammondhátíð: Tókst með afbrigðum vel, var vel sótt og utanhátíðardagskrá var veglegri en nokkru sinni fyrr.

Heimastjórn Djúpavogs - 50. fundur - 06.06.2024

Fráveita að Langatanga: Vel gengur í verkinu, langt komið með að ganga frá lögn að Höfða. Er verið að skoða hvernig vinnu verður háttað við Bóndavörðuvatn vegna fuglavarps.

Bryggjan: Vinna er komin í gang við að klára að steypa þekju á norðurkafla bryggjunnar. Einnig við raflagnir en ekki er hægt að klára raflagnir fyrr en undirbúningvinnu við steypuna lýkur. Rarik, HEF og Búlandstindur eru að vinna í þeim lögnum sem þeim tilheyra að eða frá bryggju og búið er að biðja þessa aðila að vinna saman í því máli til að stytta þann tíma sem skurðir þurf að vera opnir til að draga úr óþægindum fyrir Fiskmarkað Djúpavogs, Búlandstind og aðra sem nota svæðið.

Göngustígar: Stígur milli leikskóla og íþróttamiðstöðvar er langt kominn og búið er að keyra ofaní stíg upp á Bóndavörðu. Einng er búið að laga aðkomu að Löngubúð að norðanverðu, ásamt því að ganga frá tröppum norðan við Faktorshús.

Gamla kirkjan. Engar hugmyndir um samstarf um nýtingu eða rekstur kirkjunnar komu inn eftir auglýsingu í vor. Vinna við frágang á ytrabyrði og umhverfi á að klárast í sumar.

Leiksvæðið í Blánni: Aparólan sem pöntuð var er væntanleg á Djúpavog í næstu viku.

Heimastjórn Djúpavogs - 51. fundur - 08.08.2024

Fráveita að Langatanga. Verkinu er að mestu lokið. Vinna við lokafrágang stendur yfir.

Vatnsveita: Búið er að afla tilskilinna leyfa og búið að óska eftir tilboðum frá verktökum í lagningu á nýrri lögn frá borholum við Búlandsá inn á lögnina frá Búlandsdal.

Almenn verkefni sumarsins: Vinnu við göngustíg milli hafnarsvæða að mest lokið, einungis eftir að ganga frá við Eggin í Gleðivík og leggja gangstétt meðfram þeim. Göngustígur milli leikskóla og Íþróttamiðstöðvar er kominn með malbik. Búið er að malbika bílastæði við Sætún og ganga frá lóð, og langt komið með lokafrágang á húsin sjálfu.

Leiksvæðið í Blá: Aparólan er komin í gagnið.

Heimastjórn Djúpavogs - 52. fundur - 05.09.2024

Vatnsveita:
Vinna hafin við lagnavinnu frá nýju vatnsbóli að lögninni inn á Teigum.

Vogaland:
Lagt verður slitlag og malbik á götuna fyrir haustið, klæðningaflokkur og malbikunarflokkur væntanlegir nú í byrjun september.

Víkurland:
Frágangi á göngustíg lokið, vinna hafin við að steypa gangstétt við eggin, lagfæring á göngustíg að Tankinum lokið.

Grunnskóli:
Vinna við heimilisfræðistofu komin vel á veg. Skólalóð frágengin að mestu með nýjum klifurkastala.

Djúpavogshöfn:
Lokaáfangi á þekjusteypu hafinn, vinna við háspennukapal að höfninni langt komin og samhliða þvi vinna við dælulögn fyrir Búlandstind. Vinna við rafmagn er hafin. Eftir er að tengja nýjar vatnslagnir niður að bryggjukanti.
Vinna við aðstöðuhús við trébryggju er í undirbúningi, en ákveðið var í vor að ekki myndi ganga að vera í framkvæmdum á háanna tíma við höfnina og því var framkvæmdum frestað til haustsins.

Getum við bætt efni þessarar síðu?