Endurbygging gömlu löndunarbryggjunnar hefst eftir áramót, eins og fram hefur komið. Verktaki stefnir á að hefja forvinnu strax eftir áramót á starfsstöð sinni á Seyðisfirði, þ.e. forsmíða steypumót og járnabinda allt í undirstöðum og landvegg. Efnið verður svo flutt á Borgarfjörð. Fyrstu verkefni á Borgarfirði verða að fjarlægja gömlu þekjuna af bryggjunni, jarðvinna, fleygun staura og staurarekstur. Nánari dagsetningar verða kynntar síðar. Afhending á harðviði í bryggjugólf verður væntanlega í apríl 2026.
Viðbúið er að eigendur báta sem bundnir eru við löndunarbryggjuna þurfi að færa sig tímabundið um set vegna framkvæmdanna. Fulltrúi sveitarstjóra verður í nánara sambandi við þá eftir áramót vegna þessa.
Framkvæmdum er að ljúka í Fjarðarborg en þær hófust veturinn 2023. Verið er að ljúka við að klæða húsið og snurfusa innanhúss. Helstu breytingar eru að skipt hefur verið um alla glugga, inngangur í húsið verið færður til, lyftu sem stoppar á öllum fimm hæðum hússins komið fyrir, stigi færður og salerni fyrir fatlaða útbúið. Þá var aftur opnað fyrir glugga í stóra salnum og húsið málað að innan. Innréttingar í eldhúsi voru einnig endurnýjaðar að nokkru leyti og skipulagi þess breytt. Á efri hæð hússins er nú nýtt og bjart skrifstofurými fyrir u.þ.b. átta til tíu manns, kaffistofa fyrir hæðina og salerni, sem ekki var áður, og líkamsræktaraðstaða UMFB. Þá er búið að setja upp loftræstikerfi og brunakerfi í húsinu. Verklok eru um áramót. Enn á þó eftir að klára frágang í kjallara undir sviði þar sem leki kom upp síðastliðið vor, sem og að endurnýja salerni á neðri hæð en það bíður betri tíma.
Með bættri starfsaðstöðu í Fjarðarborg hefur starfsfólki á skrifstofu Múlaþings á Borgarfirði fjölgað úr einum í þrjá en í október hófu störf Anna Margrét Jakobsdóttir Hjarðar á umhverfis- og framkvæmdasviði og Þórunn Ólafsdóttir á fjölskyldusviði. Þá hafa verið gerðar breytingar á skipulagi í þjónustumiðstöð og hefur verkstjóri þjónustumiðstöðvar á Egilsstöðum nú einnig umsjón með þjónustumiðstöð á Borgarfirði. Auglýst hefur verið eftir starfskrafti í þjónustumiðstöð á Borgarfirði og rann umsóknarfresturinn út 24. nóvember.
Í Fjarðarborg geta framhalds- og háskólanemar einnig tekið sín lokapróf og verða þó nokkur slík þreytt á næstu vikum.
Vilji einstaklingar og/eða fyrirtæki kanna möguleika á að nýta skrifstofuaðstöðuna í Fjarðarborg, hvort sem er um lengri eða skemmri tíma er velkomið að hafa samband við fulltrúa sveitarstjóra. Verðskrá er að finna á þessari slóð:
https://www.mulathing.is/is/stjornsysla/fjarmal/gjaldskrar#fjardarborg
Jólaskreytingar voru settar upp í vikunni fyrir fyrsta sunnudag í aðventu en um helgina var Jóladagurinn haldinn í fimmta sinn en hann er framtak íbúa og fyrirtækjaeigenda á Borgarfirði til að lyfta íbúum og nágrönnum á Stór-Borgarfjarðarsvæðinu upp í skammdeginu. Frábær skemmtun og fjölbreytt og hafi aðstandendur bestu þakkir fyrir alla sína vinnu.
Rekstur tjaldsvæðisins á Borgarfirði verður boðinn út á næstu vikum og verður auglýst sérstaklega.
Heilbrigðiseftirlit Austurlands tók sýni úr neysluvatni mánudaginn 24. nóvember síðastliðinn og kom sú mæling mjög vel út. Samkvæmt upplýsingum frá HEF veitum er þó seinkun á uppsetningu gegnumlýsingartækis við vatnstankinn vegna tafa við að koma upp nýju tæknirými þar. Lögð er áhersla á að því verði lokið í vor.
Fræðslufundir um varmadælur verða haldnir í Múlaþingi á næstu vikum fyrir tilstilli Austurbrúar og Orkustofnunar. Á Borgarfirði verður slíkur fundur haldinn fimmtudaginn 8. janúar 2026 kl. 12 í Fjarðarborg.
Lagt fram til kynningar.
Dýpkun í höfninni er nánast lokið. Undirbúningur fyrir nýja löndunarbryggju og tunnu er í vinnslu, útboð vegna bryggjutimburs er lokið og pöntun farin afhendingartími er 25 vikur. Framkvæmdir á staðnum í framhaldi af því.
Sjóvarnir við Blábjörg og í Njarðvík eru í gangi, efnisvinnslu í Njarðvík lokið og grjótið komið niður, efnisvinnsla í Ósnámunni gekk frekar illa svo sækja þarf eitthvað af stærra grjóti í námu við Tjarnarland á Héraði. Væntanlega verður gengið frá Ósnámunni eftir þetta og frekari vinnsla færist í námuna á Vatnsskarði.
b) Sérstakt strandveiðigjald
Fiskistofa innheimtir sérstakt strandveiðigjald sem síðan er úthlutað til hafna eftir afla. Hafnir Múlaþings fá: Borgarfjörður 501.958 kr. Seyðisfjörður 31.678 kr. og Djúpivogur 568.357 kr.