Fara í efni

Skýrsla fulltrúa sveitarstjóra á Borgarfirði

Málsnúmer 202212043

Vakta málsnúmer

Heimastjórn Borgarfjarðar - 30. fundur - 08.12.2022

a) Framkvæmdir við sjóvarnir og höfnina

Dýpkun í höfninni er nánast lokið. Undirbúningur fyrir nýja löndunarbryggju og tunnu er í vinnslu, útboð vegna bryggjutimburs er lokið og pöntun farin afhendingartími er 25 vikur. Framkvæmdir á staðnum í framhaldi af því.

Sjóvarnir við Blábjörg og í Njarðvík eru í gangi, efnisvinnslu í Njarðvík lokið og grjótið komið niður, efnisvinnsla í Ósnámunni gekk frekar illa svo sækja þarf eitthvað af stærra grjóti í námu við Tjarnarland á Héraði. Væntanlega verður gengið frá Ósnámunni eftir þetta og frekari vinnsla færist í námuna á Vatnsskarði.

b) Sérstakt strandveiðigjald

Fiskistofa innheimtir sérstakt strandveiðigjald sem síðan er úthlutað til hafna eftir afla. Hafnir Múlaþings fá: Borgarfjörður 501.958 kr. Seyðisfjörður 31.678 kr. og Djúpivogur 568.357 kr.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 32. fundur - 03.02.2023

Fulltrúi sveitarstjóra fór yfir málin en í máli hans kom m.a. fram:

Unnið er að endurbótum á sjóvörnum við Blábjörg sem gengur þokkalega en risjótt tíð flýtir ekki fyrir. Væntanlega klárast framkvæmdir í næsta mánuði.

Það hyllir undir framkvæmdir við samfélagsmiðstöðina Fjarðarborg. Húsið verður lagfært og aðgengi fært til nútíma horfs. Flytja á starfsemi Múlaþings á staðnum í húsið, koma upp aðstöðu til fjarvinnu og fyrir störf án staðsetningar sem nú tíðkast og verða væntanlega samfélaginu til framdráttar.

Mikill tími hefur farið í snjómokstur síðasta mánuðinn.

Aflabrögð hafa verið góð þá sjaldan að gefur.

Einnig voru rædd frekari sjóvarnamál og lóðamál.

Lagt fram til kynningar.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 35. fundur - 04.05.2023

Hafnarframkvæmdir, nánar tiltekið ný löndunarbryggja, ný tunna og stytting gömlu löndunarbryggjunnar munu fara í útboð síðsumars. Dýpkun á innsiglingu er lokið.

Framkvæmdum við sjóvarnir í Njarðvík vegnar vel og lýkur á næstu dögum. Sjóvörnum við Blábjörg er lokið.

Gjaldtaka í Hafnarhólma, í formi frjálsra framlaga, verður komið á í sumar og er vinna við það í fullum gangi.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 36. fundur - 08.06.2023

Dýpkun hafnarinnar og sjóvörnum (í Njarðvík og við Blábjörg) er lokið. Um miðjan júlí fer í útboð ný löndunarbryggja og annað tréverk. Útboðsgögn eru tilbúin.

Gjaldtaka í Hafnarhólma hefst á næstu dögum. Komið verður upp skiltum þar sem hægt verður að greiða rafræn frjáls framlög.

Heimastjórn þáði heimboð Þekkingaseturs Þingeyinga til Húsavíkur að skoða Stéttina, sem er nýuppgert samvinnuhúsnæði, í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir í Fjarðarborg.

Heimastjórn þáði boð Aeco um að heimsækja leiðangursskipið Fridtjof Nansen. Þar var m.a. rætt um samtal og tengsl milli leiðangursskipanna og heimamanna.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 38. fundur - 15.08.2023

Fulltrúi sveitastjóra fór yfir helstu verkefni á Borgarfirði.

Ný löndunarbryggja hefur verið boðin út og auglýst á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Unnið er að frekari skiltagerð og útfærslu varðandi frjáls framlög í Hafnarhólma.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 39. fundur - 11.09.2023

Fulltrúi sveitarstjóra á Borgarfirði fór yfir helstu mál m.a. að tvö tilboð bárust í nýja löndunarbryggju. Þeim var báðum hafnað og verður útboðið endurtekið.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 40. fundur - 04.10.2023

Við reglubundið eftirlit með neysluvatni á Borgarfirði kom í ljós að vatnið er örverumengað. Hitaveitan, í samvinnu við HAUST, vinnur að frekari sýnatökum og úrbótum.

Haldinn var fundur með fulltrúum sjómanna þar sem farið var yfir hafnarframkvæmdir með áherslu á staðsetningu tunnu í hafnarmynni.

Búið er að bjóða út hafnarframkvæmdir á ný, öllum tilboðum var hafnað í fyrra úboði. Tilboð verða opnuð 10. október.

Framkvæmdir standa yfir við þorpsgötuna. Búið er að skipta um ræsi og til stendur að leggja nýtt malbik um leið og veður leyfir.

Heimastjórn vill minna íbúa á að sækja skal um stöðuleyfi til byggingarfulltrúa ef til stendur að láta lausafjármuni (gáma, báta, hjólhýsi o.þ.h.) standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til slíkra lausafjármuna.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 44. fundur - 01.02.2024

Starfsmaður heimastjórnar fór yfir helstu verkefni m.a. hafnarframkvæmdir, samfélagsverkefni og frekari skiltagerð við Hafnarhólma.

Lagt fram til kynningar.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 46. fundur - 11.04.2024

Fulltrúi sveitarstjóra á Borgarfirði fór yfir mál líðandi stundar á Borgarfirði m.a. fyrirhugaðar hafnarframkvæmdir og sjóvarnir. Hafnarframkvæmdir hefjast á næstu vikum.

Rædd voru fyrirhuguð starfslok fulltrúa sveitarstjóra en þau eru áætluð í júní. Heimastjórn krefst þess að sveitarfélagið auglýsi starfið hið fyrsta og fer jafnframt fram á að staðan verði auglýst sem 100% starf enda með öllu ótækt ef Múlaþing getur ekki haldið úti fullu starfi á Borgarfirði í stjórnsýslu sinni enda næg verkefni fyrir slíkan starfsmann á Borgarfirði.

Samþykkti samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 47. fundur - 06.05.2024

Fulltrúi sveitarstjóra fór yfir stöðu sjóvarna og greindi frá vinnu við gerð hafnarreglugerðar og hafnarframkvæmdir.

Lagt fram til kynningar.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 48. fundur - 06.06.2024

Fulltrúi sveitarstjóra fór yfir málefni tengd höfninni. Framkvæmdir við nýja löndunarbryggju eru í gangi. Við ástandsskoðun kom í ljós að gamla löndunarbryggjan er verr farin en talið var og því liggur fyrir þörf er á að endurbyggja hana sem fyrst.

Lagt fram til kynningar.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 51. fundur - 10.10.2024

Borgarfjarðarhöfn
Vinna við nýja löndunarbryggju klárast að öllum líkindum í næstu viku. Verið er að vinna að frágangi lagna og rafmagns, bæði fyrir löndunarbryggju og tunnu.

Fjarðarborg
Framkvæmdir í suðurstofu og miðrými á efri hæð eru að klárast og stefnt að því að skrifstofa sveitarfélagsins flytji þangað upp á næstu vikum. Þar verða enn fremur til reiðu skrifstofurými til útleigu fyrir áhugasama. Áfram verður haldið með framkvæmdir í vetur, m.a. klæðningu utanhúss og í anddyri.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 55. fundur - 06.02.2025

Fjarðarborg: Rætt um stöðu framkvæmda í húsinu, sem ganga ágætlega. Verið að ljúka við að stúka af aðstöðu fyrir líkamsræktaraðstöðu UMFB. Lyfta verður sett upp í húsinu í lok febrúar/byrjun mars. Áhersla lögð á að ljúka við að klæðningu framhliðar hússins og gafla fyrir sumarið. Áætluð verklok í lok árs.

Hafnarhólmi: Rætt um þær tillögur sem liggja fyrir við gjaldtöku í Hafnarhólma sem eru tvær; bílastæðagjald eða gjaldhlið við Hólmann.

Húsnæðismál: Sala á Þórshamri gengin í gegn. Verið að klára að tæma Hreppsstofu og í framhaldi fer það hús á sölu.

Umhverfismál: Rætt um drög að framtíðarleiksvæði fyrir börn á grænu svæði milli Fjarðarborgar, Sparkhallar og grunnskóla. Endurnýjun gangstétta við þorpsgötu hefst í sumar.


Heimastjórn Borgarfjarðar - 59. fundur - 08.05.2025

Vegagerð á Hafnarvegi: Verktaki stefnir á að setja niður pípuhlið og klára að gera tilbúið fyrir klæðingu í næstu viku. Klæðing verður lögð í lok maí.

Hafnarhólmi: Verið er að undirbúa uppsetningu gjaldtökukerfis og verður það sett upp eftir miðjan maí. Sama á við um kynningarefni um hólmann í Hafnarhúsi. Gjaldi í hólmann er stillt í hóf, verður rukkað pr. farartæki og gildir fyrir heilan dag:

Bifhjól: 400 kr.
Einkabifreið, 1-5 farþegar: 1.000 kr.
Stærri einkabifreið 6-9 farþegar: 1.500 kr.
Hópferðabílar, 10-19 farþegar: 2.200 kr.
Hópferðabílar, 20-32 farþegar: 5.000 kr.
Hópferðabílar, 33 farþegar eða fleiri 8.500 kr.
Sumarpassi fólksbíls (maí-ágúst): 2.500 kr.

Höfnin: Höfnin verður malbikuð í sumarlok og er sú framkvæmd í hönnun núna hjá sveitarfélaginu. Vegagerðin hefur sent inn uppfært kostnaðarmat og drög að teikningu (sjá viðhengi) vegna endurbyggingar gömlu löndunarbryggjunnar, sem er orðin afar léleg. Hönnunarvinna verður kláruð í sumar og efnispöntun gerð í kjölfari.

Fyrsti áfangi við að endurnýja gangstéttir við þorpsgötuna er áætlaður að hefjist í lok maí/byrjun júní og verður byrjað frá tjaldsvæði.

Heimastjórn samþykkti að verja fjármagni sem ætlað var í samfélagsverkefni í hugmynd grunnskólabarna Borgarfjarðar um að útbúa gott leiksvæði á balanum milli Sparkhallar, Fjarðarborgar og grunnskóla. Verið að panta leiktækin og fljótlega fara starfsmenn áhaldahúss í að undirbúa svæðið.

Áhaldahússtarfsmenn munu á næstunni snurfusa Lindarbakka og í kringum hann: Laga girðingar og mála húsið. Ferðamálahópur Borgarfjarðar og Félag fjarbúa hafa tekið höndum saman um að endurnýja og uppfæra skiltið við Lindarbakka. Í bígerð er að stofna Hollvinafélag Lindarbakka og verður það kynnt betur síðar.

Starfsmenn áhaldahúss eru í vorverkunum og verður farið í að laga þorpsgirðinguna, holuviðgerðir á götum innanbæjar og þökulagningu í mánuðinum.

Sveitarfélagið og Borgarhöfn ehf. í Njarðvík sóttu um styrk fyrir tilraunaverkefni um almenningssamgöngur milli Borgarfjarðar og Egilsstaða í sjóð A.10 Almenningssamgöngur á milli byggða í byggðaáætlun í þeirri von að geta haldið úti reglulegum ferðum áfram en sem kunnugt er sagði Vegagerðin upp samningi við Borgarhöfn um áramót. Niðurstaða ætti að liggja fyrir í júní.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 60. fundur - 06.06.2025

Endurbygging gömlu löndunarbryggju: Hafnadeild Vegagerðarinnar vinnur nú að hönnun vegna endurbyggingar gömlu löndunarbryggjunnar sem er orðin afar illa farin. Haldinn var fróðlegur og góður fundur sl. föstudag, 30. maí með sjómönnum þar sem farið var yfir nokkrar af tillögum VG. Stefnt er á að ljúka hönnunarvinnu og efnispöntun í sumar og verkið fari í útboð í haust og framkvæmdin fari fram á 2026.

Hafnarhólmi: Unnið að uppsetningu búnaðar vegna gjaldtöku í Hafnarhólma. Verkið hefur tafist en stefnt á að gjaldtaka hefjist um miðjan júní.

Vegaframkvæmdir á Hafnarvegi: Áætlað er að klæðing verði lögð á í júní.

Bílastæði við Brúnavíkurleið: Sveitarfélagið, Ferðamálahópur Borgarfjarðar, Ferðafélag Fljótsdalshéraðs, landeigendur Hafnarlandsins og Vegagerðin eiga í samtali um bílastæðið við upphaf gönguleiðarinnar um Brúnavíkurskarð sem var fjarlægt við vegaframkvæmdir. Vonast er til að málið leysist farsællega á næstunni.

Samfélagsverkefni: Búið er að panta leiktækin fyrir leiksvæðið milli Fjarðarborgar, Sparkhallar og grunnskóla og er áætlað að þau skili sér í byrjun júlí. Stefnt er að nauðsynlegri jarðvegsvinnu í lok júní svo leiktækin komist hratt á sinn stað.

Gangstéttir: Gangstéttarlagning frestast þar til seinna í sumar en hún var áætluð núna í júní.

Íbúafundur heimastjórnar: Fundurinn verður haldinn í Fjarðarborg fimmtudaginn 12. júní næstkomandi kl. 17.30. Dagskráin verður auglýst sérstaklega.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 61. fundur - 15.08.2025

Gjaldtaka hófst í Hafnarhólma 17. júlí og lauk 10. ágúst. Nokkrir byrjunarhnökrar eins og við var að búast á meðan verið var að stilla allt af en gekk afar vel þegar það var komið. Gott var að taka þetta stutta tímabil til að sjá hvernig þetta gengur fyrir sig og þegar gjaldtaka hefst aftur í vor verðum við búin að bregðast við þeim ábendingum sem hafa borist um hvað betur mætti fara, endurhanna sumar merkingar, leiðbeiningar og skilti.
Rúmlega 8.000 ökutæki fóru inn á stæðið á áðurgreindu tímabili og gekk innheimta vel. Sumarpassinn komst því miður ekki í gagnið fyrir sumarið en verður kominn á fyrir næsta sumar. Ákveðið hefur verið að malbika stæðið nú í lok sumars. Í haust munum við vinna áætlun um næstu viðhaldsverkefni í hólmanum.

Bræðslan var haldin í 20. sinn með glæsilegri dagskrá og höfum við ekki heyrt annað en að allt hafi gengið vel fyrir sig og gestir skemmt sér vel. Sveitarfélagið veitti Bræðslunni og Bræðslubræðrum virðingarvott í tilefni stórafmælisins með því að setja upp vegvísi að Bræðslunni við þorpsgötuna. Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri afhenti vegvísinn formlega á föstudeginum fyrir Bræðslu. Það er engum blöðum um það að fletta að Bræðslan hefur haft mjög margvísleg jákvæð áhrif á litla þorpið okkar í gegnum árin og hvorki sjálfsagt né einfalt er að halda úti svo stórum viðburði í öll þessi ár í sátt við nærsamfélagið.

Byrjað er að undirbúa lagningu nýrrar gangstéttar við þorpsgötuna og verður byrjað við Svínalækinn og að Tunguhól.

Minnt er á að brotajárnssöfnun hefst 19. ágúst á svæði 1 (Seyðisfjörður, Borgarfjörður, Jökulsárhlíð, Hróarstunga, Hjaltastaðaþinghá og Eiðaþinghá) en í framhaldi verður hirt eftir skipulagi á þriggja ára fresti. Skráningu í brotajárnssöfnun og fyrirspurnir um hana má senda á umhverfisfulltrui@mulathing.is eða hringja í síma 470-0732.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 64. fundur - 04.12.2025

Endurbygging gömlu löndunarbryggjunnar hefst eftir áramót, eins og fram hefur komið. Verktaki stefnir á að hefja forvinnu strax eftir áramót á starfsstöð sinni á Seyðisfirði, þ.e. forsmíða steypumót og járnabinda allt í undirstöðum og landvegg. Efnið verður svo flutt á Borgarfjörð. Fyrstu verkefni á Borgarfirði verða að fjarlægja gömlu þekjuna af bryggjunni, jarðvinna, fleygun staura og staurarekstur. Nánari dagsetningar verða kynntar síðar. Afhending á harðviði í bryggjugólf verður væntanlega í apríl 2026.
Viðbúið er að eigendur báta sem bundnir eru við löndunarbryggjuna þurfi að færa sig tímabundið um set vegna framkvæmdanna. Fulltrúi sveitarstjóra verður í nánara sambandi við þá eftir áramót vegna þessa.

Framkvæmdum er að ljúka í Fjarðarborg en þær hófust veturinn 2023. Verið er að ljúka við að klæða húsið og snurfusa innanhúss. Helstu breytingar eru að skipt hefur verið um alla glugga, inngangur í húsið verið færður til, lyftu sem stoppar á öllum fimm hæðum hússins komið fyrir, stigi færður og salerni fyrir fatlaða útbúið. Þá var aftur opnað fyrir glugga í stóra salnum og húsið málað að innan. Innréttingar í eldhúsi voru einnig endurnýjaðar að nokkru leyti og skipulagi þess breytt. Á efri hæð hússins er nú nýtt og bjart skrifstofurými fyrir u.þ.b. átta til tíu manns, kaffistofa fyrir hæðina og salerni, sem ekki var áður, og líkamsræktaraðstaða UMFB. Þá er búið að setja upp loftræstikerfi og brunakerfi í húsinu. Verklok eru um áramót. Enn á þó eftir að klára frágang í kjallara undir sviði þar sem leki kom upp síðastliðið vor, sem og að endurnýja salerni á neðri hæð en það bíður betri tíma.

Með bættri starfsaðstöðu í Fjarðarborg hefur starfsfólki á skrifstofu Múlaþings á Borgarfirði fjölgað úr einum í þrjá en í október hófu störf Anna Margrét Jakobsdóttir Hjarðar á umhverfis- og framkvæmdasviði og Þórunn Ólafsdóttir á fjölskyldusviði. Þá hafa verið gerðar breytingar á skipulagi í þjónustumiðstöð og hefur verkstjóri þjónustumiðstöðvar á Egilsstöðum nú einnig umsjón með þjónustumiðstöð á Borgarfirði. Auglýst hefur verið eftir starfskrafti í þjónustumiðstöð á Borgarfirði og rann umsóknarfresturinn út 24. nóvember.

Í Fjarðarborg geta framhalds- og háskólanemar einnig tekið sín lokapróf og verða þó nokkur slík þreytt á næstu vikum.
Vilji einstaklingar og/eða fyrirtæki kanna möguleika á að nýta skrifstofuaðstöðuna í Fjarðarborg, hvort sem er um lengri eða skemmri tíma er velkomið að hafa samband við fulltrúa sveitarstjóra. Verðskrá er að finna á þessari slóð: https://www.mulathing.is/is/stjornsysla/fjarmal/gjaldskrar#fjardarborg

Jólaskreytingar voru settar upp í vikunni fyrir fyrsta sunnudag í aðventu en um helgina var Jóladagurinn haldinn í fimmta sinn en hann er framtak íbúa og fyrirtækjaeigenda á Borgarfirði til að lyfta íbúum og nágrönnum á Stór-Borgarfjarðarsvæðinu upp í skammdeginu. Frábær skemmtun og fjölbreytt og hafi aðstandendur bestu þakkir fyrir alla sína vinnu.

Rekstur tjaldsvæðisins á Borgarfirði verður boðinn út á næstu vikum og verður auglýst sérstaklega.

Heilbrigðiseftirlit Austurlands tók sýni úr neysluvatni mánudaginn 24. nóvember síðastliðinn og kom sú mæling mjög vel út. Samkvæmt upplýsingum frá HEF veitum er þó seinkun á uppsetningu gegnumlýsingartækis við vatnstankinn vegna tafa við að koma upp nýju tæknirými þar. Lögð er áhersla á að því verði lokið í vor.

Fræðslufundir um varmadælur verða haldnir í Múlaþingi á næstu vikum fyrir tilstilli Austurbrúar og Orkustofnunar. Á Borgarfirði verður slíkur fundur haldinn fimmtudaginn 8. janúar 2026 kl. 12 í Fjarðarborg.

Lagt fram til kynningar.
Getum við bætt efni þessarar síðu?