Fara í efni

Heimastjórn Seyðisfjarðar

3. fundur 11. janúar 2021 kl. 09:15 - 11:00 á skrifstofu sveitarfélagsins, Seyðisfirði
Nefndarmenn
  • Berglind Harpa Svavarsdóttir formaður
  • Ólafur H Sigurðsson aðalmaður
  • Rúnar Gunnarsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Aðalheiður L Borgþórsdóttir starfsmaður
  • Björn Ingimarsson sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Aðalheiður Borgþórsdóttir starfsmaður Heimastjórnar

1.Skriðuföll á Seyðisfirði

Málsnúmer 202012168Vakta málsnúmer


a) Skipulagsmál á Seyðisfirði í kjölfar aurflóðanna á Seyðisfirði 18. desember 2020.
Tillaga að bókun:

Heimastjórn leggur til að umhverfis-og framkvæmdaráð hafi hraðar hendur með að skipa í stýrihóp sem hefur það hlutverk að greina stöðu húsnæðismála og alla uppbyggingu á Seyðisfirði í kjölfar aurflóðanna í desember s.l. Skoða verður alla möguleika með þéttingu byggðar fyrir nýbyggingar og einnig ný örugg svæði eins og t.d. núverandi knattspyrnuvöll. Rödd íbúa verður að fá að heyrast og náið samstarf verði í þessari vinnu við þá íbúa sem hlut eiga að máli. Mikilvægt er að þrýst verði á að staðið verði við þau loforð sem ríkisvaldið hefur gefið út varðandi aðstoð við uppbyggingu Seyðisfjarðar

b) Ofanflóðavarnir.

Heimastjórn gerir þá kröfu að strax verði hafin rannsókn á því hvað varð þess valdandi að rýmingar fóru ekki fram fyrr en skriður voru farnar að falla og nánast allar rýmingar sem framkvæmdar voru í raun “sagnfræði? en ekki forspá eins og þær eiga að vera. Mikið verk er nú óunnið til að skapa traust íbúa til rýminga. Endurskoða verður allt vinnulag við ákvarðanatökur við óvissuaðstæður og að ekki sé talað um hamfaraaðstæður eins voru í aðdragandi hamfaranna þann 18 desember síðastliðinn. Sérstaklega þarf að skoða hvar ábyrgð á ákvörðun um rýmingar liggur en samkvæmt núgildandi reglum liggur ákvörðun um rýmingar hjá Veðurstofu varðandi snjóflóðahættu og hjá Almannavarnarnefnd varðandi aurskriðuhættu. Þetta skapar hættulegt flækjustig sem sýndi sig ljóslega í þessum atburðum á Seyðisfirði. Eðlilegt verður að telja að í báðum tilvikum eigi þessi ákvörðun að liggja hjá Veðurstofu með sterkri tengingu inn á staðina bæði með aðkomu eftirlitsmanna Veðurstofunnar á hverjum stað auk staðarnefndar sem virkjast um leið og Veðurstofa telur tilefni til. Núverandi staða þessara mála er algerlega óviðunandi enda ljóst að þetta flækjustig hefði getað kostað mörg mannslíf á Seyðisfirði.

Bókun sendist til Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Sveitastjórnar Múlaþings, Ofanflóðasjóðs, Veðurstofunnar og Sveitastjórnaráðuneytið.

c) Áframhaldandi áfallahjálp fyrir íbúa Seyðisfjarðar.

Heimastjórn leggur þunga áherslu á áframhaldandi þjónustu við bæjarbúa er varðar áfallahjálp og beinir því til Félagsþjónustu Múlaþings að tryggja að svo verði. Slík þjónusta verður að vera til staðar næstu mánuði og því mikilvægt að hún verði veitt áfram á Seyðisfirði og einnig hugað vel að einstökum hópum. Mikilvægt er að í boði verði sérstakt námskeið í áfallahjálp fyrir starfsfólk leik- og grunnskóla til að greina áfallaeinkenni barna.

d.Fjarðarheiðargöng

Mikilvægt er fyrir alla uppbyggingu á Seyðisfirði að vinna við Fjarðarheiðargöng hefjist sem fyrst. Heimastjórn skorar á ríkisstjórnina að kvika hvergi frá áætlunum um Seyðisfjarðargöng, mikilvægt er fyrir íbúa Seyðisfjarðar að eiga greiða flóttaleið frá staðnum ef hamfaraaðstæður eru í uppsiglingu.Núverandi aðstæður með einu landleiðina frá Seyðisfirði um hæsta og erfiðasta fjallveg landsins er ekki lengur boðleg. Mikil mildi var að Fjarðarheiðin var fær 18. desember þegar ósköpin dundu yfir.

d.Útgáfa upplýsingarblaðs á Seyðisfirði

Heimastjórn telur mikilvægt að huga fljótt að upplýsingablað fyrir Seyðfirðinga þar sem eingöngu eru upplýsingar um aurskriðurnar, afleiðingar hennar og það sem framundan er.

e) Þakkir.

Heimastjórn þakkar öllum þeim fjölmörgu sem komið hafa að björgunarstörfum á Seyðisfirði fyrir frábærlega unnin störf. Heimastjórn lýsir jafnframt yfir ánægju sinni með það hversu vel hreinsunarstörf hafa gengið og hversu gott skipulag hefur verið á málum af hálfu Múlaþings. Vinnubrögð þeirra sem hafa komið hér að málum varðandi tryggingar og almannaþjónustu hafa verið einstaklega vel unnin sem ber sérstaklega að þakka.

2.Heimildavinna með sjónarvottum aurflóðanna á Seyðisfirði 18.12.2020

Málsnúmer 202101067Vakta málsnúmer

Heimastjórn Seyðisfjarðar samþykkir fyrirliggjandi tillögu frá Ólafi Hr. Sigurðssyni og Hörpu Grímsdóttur varðandi viðtöl við sjónarvotta aurflóðanna á Seyðisfirði.

Óskað er eftir heimild til að ráða aðila til að taka að sér viðtöl við þá sem voru inn á hamfarasvæðinu utan Búðarár þann 18.des og hluta þeirra fjölmörgu aðila sem voru utan þessa svæðið og horfðu á hamfarirnar gerast.

Megintilgangur verkefnisins er að fá fram upplýsingar sem geti gagnast í vinnunni við að finna lausnir í vörnum og hjálpa sérfræðingum til að átta sig á því í hvað röð atburðir gerast og til að dýpka skilning á þessum atburði en sjaldgæft er að svona margir verði vitni að hamförum af þessari stærðargráðu. Ákveðin sáluhjálp felst einnig í því að rifja svona lífreynslu upp strax á meðan hún er fersk og benda um leið á þá þjónustu sem er í boði á þessu sviði. Gert er ráð fyrir að samtöl og úrvinnsla taki um mánuð og kostnaður verði u.þ.b. 1.000.000.kr

3.Tillaga að aðgerðarhóp varðandi hugmyndir um framtíðarskipulag vegna aurskriða á Sey.

Málsnúmer 202101068Vakta málsnúmer

Innsent erindi barst frá Þóru Bergný Guðmundsdóttur um hugmynd að skipun hóps sem hefði það hlutverk að rýna ástandið og að koma með framtíðarhugmyndir að skipulagi byggðar. Erindinu er vísað til Umhverfis- og framkvæmaráðs.


Gestir

  • Þóra Guðmundsdóttir - mæting: 10:20

4.Gamla ríkið á Seyðisfirði

Málsnúmer 202010547Vakta málsnúmer

Fundagerðir 14. og 15 lagðar fram. Aðalheiður, formaður vinnuhóps um Gamla ríkið fór yfir stöðu mála. Helst ber að nefna að vinnuhópur í samráði við Minjastofnun, Verkís og Braga Blumenstein verkefnisstjóra hefur tekið ákvörðun um að færa húsið um 3 metra frá götunni og að aðferð Minjastofnunar verði farin. Minjavernd leggur til hönnun varðandi færsluna.

Ljóst er að færsla hússins er í uppnámi vegna aurflóðanna 18. desember og mun framhald verkefnisins ráðast eitthvað af því hvernig nýtt hættumat mun þróast.

5.Seyðisfjörður - Skólavegur 1 - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi

Málsnúmer 202011018Vakta málsnúmer

Fyrir Heimastjórn liggur umsókn sveitarfélagsins um byggingarleyfi fyrir aukaskólastofur við Skólaveg 1, Rauðaskóla á Seyðisfirði. Um er að ræða tilbúnar samsettar húseiningar úr timbri sem staðsettar verða á áður steyptum grunni sem ætlaður er fyrir viðbyggingu skólahúsnæðis. Ekki er í gildi deiliskipulag á svæðinu. Grenndarkynningu lauk 17.12.2020, engar athugasemdir bárust frá hagsmunaaðilum vegna hennar. Athugasemdir hafa borist frá Vinnueftirlitinu og HAUST. Brunavarnir á Austurlandi gera ekki athugasemd.

Heimastjórn gerir ekki athugasemd við erindið og leggur til að byggingarleyfi verði gefið út. Varðandi deiliskipulag þá er mikilvægt að ráðist verði í deiliskipulag fyrir skólann í heild sinni án þess þó að það hindri framkvæmdir við lausar skólastofur sem eru staðsettar á gömlum grunni skólans.

Fundi slitið - kl. 11:00.

Getum við bætt efni þessarar síðu?