Fara í efni

Laxeldi á Seyðifirði

Málsnúmer 202101050

Vakta málsnúmer

Byggðaráð Múlaþings - 8. fundur - 12.01.2021

Fyrir lá ályktun um væntanlegt laxeldi í Seyðisfirði frá Veiðifélögunum á Fljótsdalshéraði, Veiðifélagi Jökulsár, Veiðifélagi Lagarfljóts, Veiðifélagi Selfljóts og Veiðifélagi Fögruhlíðarár, þar sem mótmælt er harðlega 10.000 tonna framleiðslu á frjóum norskum laxi í opnum sjókvíum í Seyðisfirði.

Lagt fram til kynningar.

Byggðaráð Múlaþings - 41. fundur - 18.01.2022

Fyrir liggur álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum 10.000 tonna eldis á laxi í Seyðisfirði á vegum Fiskeldis Austfjarða.

Lagt fram til kynningar.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 44. fundur - 26.01.2022

Álit Skipulagsstofnunar vegna fyrirhugaðra áforma Fiskeldis Austfjarða um 10.000 tonna eldi á laxi í Seyðisfirði lagt fram til kynningar.

Hildur Þórisdóttir og Ásdís Hafrún Benediktsdóttir lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs sjókvíaeldis í Seyðisfirði kemur fram að landfræðilegar aðstæður, skipaumferð og lega Farice-1 sæstrengsins setji staðsetningu fiskeldiskvía þröngar skorður. Töluverð hætta geti orðið á erfðablöndun við villta laxastofna, útbreiðslu smitsjúkdóma og laxalúsar. Það kemur fram í áliti Skipulagsstofnunar að áhrif eldisins á samfélagið á Seyðisfirði geti orðið neikvæð vegna andstöðu stórs hluta íbúa. Skipulagstillaga strandsvæðisskipulags fyrir Austfirði er væntanleg á vormánuðum 2022 og hvetur Skipulagsstofnun til að beðið sé niðurstöðu þess og tekur umhverfis- og framkvæmdaráð undir með stofnuninni því þannig mætti frekar ná fram sátt um málið.

Afgreiðslu máls er frestað til næsta fundar.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 45. fundur - 02.02.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur að nýju álit Skipulagsstofnunar vegna fyrirhugaðra áforma Fiskeldis Austfjarða um 10.000 tonna eldi á laxi í Seyðisfirði. Afgreiðslu málsins var frestað á síðasta fundi ráðsins. Fyrir fundinum liggja tvær tillögur; tillaga L-lista sem lögð var fram á síðasta fundi liggur fyrir með viðbót frá V-lista annarsvegar og tillaga frá B-lista og D-lista hinsvegar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram af fulltrúum L-lista og V-lista:
Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs sjókvíaeldis í Seyðisfirði kemur fram að landfræðilegar aðstæður, skipaumferð og lega Farice-1 sæstrengsins setji staðsetningu fiskeldiskvía þröngar skorður. Töluverð hætta geti orðið á erfðablöndun við villta laxastofna, útbreiðslu smitsjúkdóma og laxalúsar. Það kemur fram í áliti Skipulagsstofnunar að áhrif eldisins á samfélagið á Seyðisfirði geti orðið neikvæð vegna andstöðu stórs hluta íbúa. Skipulagstillaga strandsvæðisskipulags fyrir Austfirði er væntanleg á vormánuðum 2022 og hvetur Skipulagsstofnun til að beðið sé niðurstöðu þess. Undir það tekur umhverfis- og framkvæmdaráð og leggur til að leyfisumsóknum um laxeldið verði beint inn í skipulagsferlið. Þannig mætti frekar ná fram sátt um málið.

Tillagan var felld með 4 atkvæðum (SBS, JB, JS og OBD) og 3 samþykktu (ÁHB, HÞ og PH).

Eftirfarandi tillaga lögð fram af fulltrúum B- og D-lista:
Umhverfis- og framkvæmdaráð telur álit Skipulagsstofnunar greinargott og fagnar því að þar er víða tekið tillit til athugasemda frá fagstofnunum, sveitarfélaginu og öðrum aðilum sem létu sig málið varða. Skipulagsstofnun gerir í áliti sínu ítarlegar tillögur að skilyrðum sem setja ætti í starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrir laxeldi í Seyðisfirði til að sporna við mögulegum neikvæðum áhrifum á umhverfi fjarðarins, innviði og aðra atvinnustarfsemi á svæðinu. Ráðið hvetur Umhverfisstofnun og Matvælastofnun til þess að taka tillit til þessara tillagna þegar unnið verður að útgáfu þessara leyfa. Þá hvetur ráðið Fiskeldi Austfjarða til að fara að tilmælum Skipulagsstofnunar hvað varðar samstarf og samráð við heimafólk, svo sem við sjómenn hvað varðar staðsetningu eldiskvía. Ráðið ítrekar fyrri afstöðu sveitarfélagsins að mikilvægt sé að sem fyrst verði lokið við gerð strandsvæðaskipulags fyrir Austfirði og að Fiskeldi Austfjarða leitist við að skapa aukna sátt um áform sín með samtali við íbúa og aðra hagsmunaaðila.

Tillagan var samþykkt með 4 atkvæðum (SBS, JB, JS og OBD) og 3 voru á móti (ÁHB, HÞ og PH).


Fulltrúar L-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
Við ítrekum þau atrið sem bent var á í tillögu Austurlistans og VG og teljum að það muni verða farsælast að áformum um fiskeldi í firðinum verði frestað þar til niðurstaða haf- og strandsvæðaskipulags liggur fyrir og þannig lagður grunnur að sátt við samfélagið og umhverfið í heild.

Heimastjórn Seyðisfjarðar - 20. fundur - 07.02.2022

Fyrir fundinum liggur álit Skipulagsstofnunar á fyrirhugðuðu 10.000 tonna eldi á laxi í Seyðisfirði á vegum Fiskeldis Austfjarða.

Umræðu frestað til næsta fundar.

Heimastjórn Seyðisfjarðar - 21. fundur - 07.03.2022

Fyrir lá erindi frá VÁ! félagi um vernd fjarðar varðandi 10.000 tonna fiskeldi í Seyðisfirði.

Eftirfarandi bókun lögð fram af Berglindi og Ólafi:

Heimastjórn vísar erindi frá VÁ! félagi um vernd fjarðar varðandi Farice-1 sæstrenginn til faglegrar umræðu og afgreiðslu Umhverfis og framkvæmdaráðs.
Heimastjórn fagnar nýafstöðnum upplýsinga- og kynningarfundi á vegum Fiskeldi Austfjarða um áformað fiskeldi í Seyðisfirði.
Gríðarleg atvinnutækifæri fylgja mögulegu eldi sem ekki er hægt að horfa framhjá. Skoða verður af ábyrgð þau tækifæri sem skapast fyrir Seyðisfjörð. Mikilvægt er að Fiskeldi Austfjarða vinni vel með samfélaginu og sinni þeirri nauðsynlegu upplýsingagjöf sem hefur vantað hingað til.

Eftirfarandi bókun er lögð fram af Rúnari:

Rúnar Gunnarsson, fulltrúi heimastjórnar Seyðisfjarðar óskar eftir skýrum svörum með rökstuðningi frá sveitastjórn Múlaþings varðandi þá þætti er snúa að eldissvæðum í Sörlastaðavík og Selstaðavík þar sem það fer ekki saman við þau viðmið sem gilda um helgunarsvæði Farice-1 sæstrengsins og siglingaleiða um fjörðinn samanber álit Skipulagsstofnunar. Ljóst er að helgunarsvæði Farice-1 sæstrengsins er, samkvæmt fjarskiptalögum, mílufjórðungsbelti hvorum megin við strenginn og því lítið svigrúm fyrir uppsetningu eldiskvía og þarf því að tryggja að fjarskiptalög verði ekki brotin.
Samkvæmt umsögn Vegargerðarinnar er ábyrgð á öryggi innan hafnarsvæðis í höndum hafnaryfirvalda og þar með hlutverk hafnarinnar að tryggja að farið sé að lögum.
Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 49. fundur - 16.03.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur bókun frá heimastjórn Seyðisfjarðar frá fundi hennar 7. mars 2022 þar sem lagt var fram erindi frá VÁ! félagi um vend fjarðar varðandi 10.000 tonna fiskeldi í Seyðisfirði. Heimastjórn vísaði erindinu til faglegrar umræðu og afgreiðslu í umhverfis- og framkvæmdaráði. Hafnastjóri sat fundinn undir liðnum.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð leggur áherslu á að við meðferð Matvælastofnunar á umsókn um rekstrarleyfi fyrir laxeldi í Seyðisfirði verði haft samráð við hafnaryfirvöld varðandi þá þætti sem að höfninni snúa. Með vísan til þess að Vegagerðin hefur, í umsögn sinni til Skipulagsstofnunar, óskað eftir samráði við hafnaryfirvöld varðandi merkingar á siglingaleiðum innan hafnarsvæðis Seyðisfjarðar í tengslum við umsókn um rekstrarleyfi fyrir fiskeldi í firðinum, felur ráðið hafnastjóra að setja sig í samband við Vegagerðina til að hefja slíkt samráð.

Samþykkt með 6 atkvæðum, 1 (PH) sat hjá.

Fulltrúi V-lista (PH) lagði fram eftirfarandi bókun:
Vegna mikillar andstöðu meðal Seyðfirðinga við áform um laxeldi í Seyðisfirði telur Skipulagsstofnun að eldið geti að óbreyttu haft talsverð eða verulega neikvæð samfélagsleg áhrif. Álykta má að slíkt gæti mögulega leitt til atgerfislótta, ekki síst úr röðum þess fólks sem árum saman hefur gert sitt til að byggja seyðisfirskt samfélag ekki síst á menningu, listum, rannsóknum og ferðamannaþjónustu. Forsvarsmenn laxeldisins hafa sýnt íbúum og sveitarfélagi þá lítilsvirðingu að bjóða fyrst til upplýsinga- og kynningarfundar fyrir nokkrum dögum, nær 7 árum eftir upphaf eldisáforma og 10 mánuðum eftir að sveitarstjórn beindi því sérstaklega til þeirra að halda slíkan fund. Ég hvet sveitarstjórn Múlaþings, á grunni íbúalýðræðis annars vegar og af virðingu við lífríki og náttúru hins vegar, að gera nú þegar allt sem í hennar valdi stendur til að stöðva endanlega öll áform um laxeldi í opnum sjókvíum í Seyðisfirði, eða að lágmarki að beita sér fyrir að gerð verði vönduð könnun á meðal íbúa á viðhorfi til eldisins.

Gestir

  • Björn Ingimarsson

Heimastjórn Seyðisfjarðar - 32. fundur - 08.03.2023

Í kjölfar niðurstöðu skoðunarkönnunar Gallup um afstöðu íbúa Seyðisfjarðar til fiskeldis í sjókvíum á Seyðisfirði, fékk heimastjórn fulltrúa Fiskeldis Austfjarða annars vegar og fulltrúa Vá-félags um verndun fjarðar hins vegar á fundinn. Fyrir hönd Fiskeldis Austfjarða mætti Jens Garðar Helgason í fjarfundarbúnaði og fór yfir stöðu verkefnisins og svaraði spurningum. Sigfinnur Mikaelsson mætti fyrir hönd VÁ- félags um verndun fjarðar og gerði grein fyrir þeirra afstöðu og sýn á sjókvíaeldi í Seyðisfirði og svaraði spurningum. Heimastjórn þakkar þeim fyrir komuna á fundinn og veittar upplýsingar.

Það er mat heimastjórnar að vanda þurfi til verka þegar kemur að fiskeldi í Seyðisfirði og er upplýsingagjöf til íbúa mikilvæg í því samhengi. Heimastjórn vill því hvetja Fiskeldi Austfjarða til að halda íbúum upplýstum um áform fyrirtækisins og stöðu verkefnisins.

Heimastjórn fagnar almennri umræðu um stjórnsýslu og eftirlit með sjókvíaeldi og vonast til umbóta í umgjörðinni og að meiri sátt verði um greinina. Einnig fagnar heimastjórn ábendingum um að breytinga sé þörf er varðar Fiskeldissjóð enda mikilvægt að nærumhverfið njóti góðs af atvinnustarfseminni. Það er mikilvægt að þessi starfsemin byggi á traustum grunni með upplýsingagjöf og að teknu tilliti til allra sjónarmiða.

Heimastjórn vill einnig beina því til sveitarstjórnar að hún hlutist til um að þau ráðuneyti, sem fara með málaflokkinn, haldi kynningarfund sem fyrst fyrir íbúa í Múlaþingi um leyfisveitingar, stefnu og framtíðarsýn stjórnvalda í málaflokknum. Horfir heimastjórn í því sambandi til vel heppnaðra kynningarfunda um fjarfundabúnað t.d. um Axarveg.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Gestir

  • Jens Garðar Helgason - mæting: 13:00
  • Sigfinnur Mikaelsson - mæting: 13:30

Sveitarstjórn Múlaþings - 34. fundur - 15.03.2023

Fyrir liggur bókun frá fundi heimastjórnar Seyðisfjarðar, dags. 08.03.23, varðandi laxeldi á Seyðisfirði.

Til máls tóku: Ásrún Mjöll Stefánsdóttir sem bar upp fyrirspurn, Jónína Brynjólfsdóttir sem svaraði fyrirspurn Ásrúnar, Hildur Þórisdóttir, Björg Eyþórsdóttir, Eyþór Stefánsson, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Ásrún Mjöll Stefánsson, Þröstur Jónsson, Jónína Brynjólfsdóttir, Eyþór Stefánsson bar upp fyrirspurn, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Ásrún Mjöll Stefánsdóttir með andsvar, Ívar Karl Hafliðason sem svaraði fyrirspurn Eyþórs, Björg Eyþórsdóttir sem svaraði fyrirspurn Eyþórs, Einar Freyr Guðmundsson sem svaraði fyrirspurn Eyþórs, Jónína Brynjólfsdóttir sem svaraði fyrirspurn Eyþórs, Þröstur jónsson sem svaraði fyrirspurn Eyþórs og Eyþór Stefánsson með andsvar og Helgi Hlynur Ásgrímsson einnig með andsvar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings tekur undir skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi sem leiddi m.a. í ljós að umgjörð sjókvíaeldis við Íslandsstrendur hefur einkennst af veikburða og brotakenndri stjórnsýslu sem var vart í stakk búin til að takast á við aukin umsvif í greininni á undanförnum árum.
Sveitarstjórn Múlaþings skorar á stjórnvöld að tryggja markvissa endurskoðun á stjórnsýslu greinarinnar og bendir sérstaklega á að hvergi er fjallað um afgerandi aðkomu sveitarfélaga til að mynda varðandi skipulagsvald á fjörðum. Sveitarfélög fara með skipulagsvald á landi og hafa skipulagsgerð og leyfisveitingar út að 115 m stórstraumsfjöru. Samtök sjávarútvegssveitarfélaga hafa ítrekað bent á þennan ágalla og kallað eftir skipulagsvaldi sveitarfélaga á fjörðum og þar með væri aðkoma að leyfisveitingum sambærileg og gerist á landi.
Með óbreyttu fyrirkomulagi er lagalegur réttur sveitarfélaga til að hafa aðkomu að málum er varða atvinnuuppbyggingu innan síns svæðis ekki til staðar. Innan Múlaþings hefur verið mótspyrna meðal íbúa Seyðisfjarðar og mælist umtalsverð andstaða við uppbyggingu fiskeldis í firðinum. Mikilvægi þess að skipulagsvaldið sé í nærsamfélaginu er því öllum ljóst.

Sveitarstjórn Múlaþings tekur sérstaklega undir tillögur Ríkisendurskoðunar um að endurskoða þurfi Fiskeldissjóð og umgjörð hans enda mikilvægt að arðsemi af starfseminni skili sér til nærsamfélagsins.
Sveitarstjórn Múlaþings tekur undir með heimastjórn Seyðisfjarðar varðandi mikilvægi þess að þau ráðuneyti, sem fara með málaflokkinn, haldi kynningarfund sem fyrst fyrir íbúa í sveitarfélaginu varðandi stefnu og framtíðarsýn stjórnvalda. Sveitarstjóra falið að koma framangreindu á framfæri við þar til bær ráðuneyti.

Samþykkt með 8 atkvæðum, 2 sitja hjá (HHÁ,ÞJ) og einn á móti (ÁMS)

Ásrún Mjöll Stefánsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
Skýr og mikil andstaða gagnvart fiskeldi í opnum sjókvíum í firðinum ríkir á Seyðisfirði. Þetta hefur fengist staðfest með könnun sem sveitastjórn Múlaþings hafði frumkvæði að.

Heimastjórn bókar um kynningarfund viðeigandi ráðuneyta fyrir íbúa varðandi stefnu og framtíðarsýn stjórnvalda. Heimastjórn ætti hins vegar að ávarpa þann mikla meirihluta sem er á móti öllum áformum um fiskeldi í firðinum og lýsa tafarlaust yfir stuðningi með honum.

Þá myndi heimastjórn sinna skyldu sinni svo sómi væri af. Réttast væri svo að koma á framfæri við þar til bær ráðuneyti að stöðva eigi leyfisveitingu fyrir sjókvíaeldi tafarlaust, þar til unnið hefur verið úr ábendingum sem svo sannarlega koma fram í skýrslu ríkisendurskoðunar.
Getum við bætt efni þessarar síðu?