Fara í efni

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings

29. fundur 25. ágúst 2021 kl. 08:30 - 12:00 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Stefán Bogi Sveinsson formaður
  • Jónína Brynjólfsdóttir varaformaður
  • Jakob Sigurðsson aðalmaður
  • Karl Sigfús Lauritzson varamaður
  • Þórunn Hrund Óladóttir varamaður
  • Ásdís Hafrún Benediktsdóttir aðalmaður
  • Hildur Þórisdóttir aðalmaður
  • Helgi Týr Tumason áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Hugrún Hjálmarsdóttir framkvæmda- og umhverfismálastjóri
  • María Markúsdóttir skipulagsfulltrúi
  • Sóley Valdimarsdóttir ritari
  • Björn Ingimarsson sveitarstjóri
  • Freyr Ævarsson verkefnastjóri umhverfismála
  • Sigurður Jónsson skipulagsfulltrúi
Fundargerð ritaði: Sóley Valdimarsdóttir ritari umhverfis- og framkvæmdasviðs
Björn Ingimarsson hafnastjóri sat fundinn undir lið nr. 1, Freyr Ævarsson verkefnastjóri umhverfismála sat fundinn undir liðum nr. 1-3, María Markúsdóttir og Sigurður Jónsson sátu fundinn undir liðum nr. 4-15.

1.Seyðisfjarðarhöfn Olíuleki El Grillo

Málsnúmer 202108067Vakta málsnúmer

Hafnastjóri fór yfir stöðu mála vegna fyrirhugaðra aðgerða við olíuleka í Seyðisfirði úr El Grillo. Hafnayfirvöld hafa verið í stöðugu sambandi við Umhverfisstofnun og yfirvöld vegna málsins. Beðið er eftir skýrslu frá Landhelgisgæslunni sem kannaði aðstæður neðansjávar í síðustu viku.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð leggur áherslu á að brugðist verði við lekanum, bæði með bráðaaðgerðum og að fundin verði varanleg lausn í samstarfi við Umhverfisstofnun og ráðuneyti umhverfismála.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

2.Sameiginlegur fundur Ungmennaráðs og Sveitarstjórnar

Málsnúmer 202102219Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur erindi frá ungmennaráði Múlaþings sem var kynnt fyrir sveitarstjórn á fundi þann 9. júní 2021. Byggðaráð vísað, á fundi sínum 10. ágúst 2021, þeim hluta erindisins er snýr að umhverfismálum til umhverfis- og framkvæmdaráðs til umfjöllunar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð þakkar ungmennaráði fyrir erindið og tekur undir að rétt sé að koma á flokkun sorps sem víðast. Ráðið felur verkefnastjóra umhverfismála að leggja fram tillögu að tilraunaverkefni um flokkun sorps á almenningssvæðum fyrir næsta sumar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Erindi frá Fjarðabyggð, Viðhald fjárrétta

Málsnúmer 202108050Vakta málsnúmer

Fyrir ráðinu liggur erindi frá Fjarðabyggð um kostnaðarþátttöku Múlaþings í viðhaldi á fjárréttum í Mjóafirði og Breiðdal.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð bendir á að samkvæmt gildandi fjallskilasamþykkt og ákvæðum laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. er það á ábyrgð hvers sveitarfélags að til staðar séu hæfilega stórar réttir og að þeim sé vel við haldið. Af þeim sökum hafnar umhverfis- og framkvæmdaráð erindi Fjarðabyggðar um þátttöku í kostnaði við viðhald fjárrétta innan Fjarðabyggðar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.Íbúðarlóðir í Múlaþingi, heildarsýn og framtíðaruppbygging

Málsnúmer 202105281Vakta málsnúmer

Málið var áður á dagskrá umhverfis- og framkvæmdaráðs á fundi 2.6.2021. Þá óskaði ráðið eftir tillögum að mögulegri þéttingu byggðar á Egilsstöðum. Tvær tillögur bárust, annarsvegar í Einbúablá og hinsvegar norðan Ranavaðs. Jafnframt voru ræddar hugmyndir að fjölgun lóða við Selbrekku og Mánatröð.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að farið verði í breytingu á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 til stækkunar íbúasvæða í Einbúablá, Mánatröð og norðan Ranavaðs. Jafnframt leggur ráðið til við heimastjórn Fljótsdalshéraðs að hafin verði vinna við breytingu á deiliskipulagi vegna lóða við Einbúablá og Selbrekku, og að unnið verði deiliskipulag fyrir nýjar lóðir við Mánatröð.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Seyðisfjörður breyting á aðalskipulagi vegna Vesturvegar 4

Málsnúmer 202102153Vakta málsnúmer

Lögð er fram að nýju tillaga að breytingu Aðalskipulags Seyðisfjarðarkaupstaðar 2010-2030 vegna Vesturvegar 4. Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur að fjalla um inn komnar athugasemdir og umsagnir.

Málinu er frestað til næsta fundar ráðsins.

6.Athafnalóðir á Djúpavogi

Málsnúmer 202012089Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggja bókanir heimastjórnar Djúpavogs vegna athafnalóða á Djúpavogi. Skipulagsfulltrúi fer yfir stöðu málsins.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að leggja til við sveitarstjórn að gerð verði breyting á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps þar sem gert verði ráð fyrir athafnalóðum við Víkurland og leggur jafnframt til við heimastjórn Djúpavogs að hafin verði vinna við deiliskipulag svæðisins samhliða.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

7.Verndarsvæði í byggð, Egilsstaðir

Málsnúmer 202011161Vakta málsnúmer

Undir þessum lið vakti formaður, Stefán Bogi Sveinsson, athygli á vanhæfi sínu. Það var borið upp upp til atkvæða og samþykkt samhljóða með handauppréttingu. Stefán Bogi vék af fundi við umfjöllun og afgreiðslu málsins. Jónína Brynjólfsdóttir tók við stjórn fundarins undir þessum lið.

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggja endurunnin drög að skilmálum vegna verndarsvæðis í byggð á Egilsstöðum en sveitarstjórn Múlaþings fól umhverfis- og framkvæmdaráði að gangast fyrir kynningu á drögum að þeim og samráði við íbúa á svæðinu. Einnig liggur fyrir ný tímalína fyrir afgreiðslu tillögunnar hjá sveitarfélaginu. Málið var áður á dagskrá umhverfis- og framkvæmdaráðs þann 26.5.2021. Heimastjórn Fljótsdalshéraðs fékk málið til umsagnar og lagði áherslu á að leitast yrði við að hafa skilmála eins lítið íþyngjandi og kostur væri.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að kynna drög að skilmálum verndarsvæðisins eins og þau liggja fyrir fundinum, með því að senda þau til íbúa, með kynningu á Facebook og með opnu húsi í Samfélagssmiðjunni. Ráðið leggur til að breytingar verði gerðar á tímalínu verkefnisins að því leiti að uppfærð tillaga komi til umfjöllunar í umhverfis- og framkvæmdaráði þegar hún liggur fyrir.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

8.Miðvangur 13 staðfesta lóðamörk í gagnasjá Þjóðskrár

Málsnúmer 202010323Vakta málsnúmer

Formaður fór yfir stöðu viðræðna vegna stækkunar lóðarinnar að Miðvangi 13 og viljayfirlýsingu sem unnið er að vegna þessa. Jafnframt var sýnd tillaga að lóðamörkum.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að leggja til við heimastjórn Fljótsdalshéraðs að gerð verði breyting á deiliskipulagi Norðvestursvæðis Egilsstaða í samræmi við fyrirliggjandi tillögu að lóðamörkum.

Málið að öðru leyti áfram í vinnslu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

9.Stöðuleyfi, Stýrishús - Brú, Austurveg 17 Seyðisfirði

Málsnúmer 202107033Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur erindi frá íbúum á Seyðisfirði þar sem m.a. er óskað útskýringa á því hvort, hvenær og af hverju stöðuleyfi var veitt fyrir Stýrishúsi/Brú í nágrenni lónsins á Seyðisfirði.
Málinu var vísað til afgreiðslu hjá umhverfis- og framkvæmdaráði í bókun byggðaráðs frá 10. ágúst 2021.
Fram kom að umhverfisnefnd Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykkti á fundi sínum 6. júlí 2020 að veita tímabundið leyfi til uppsetningar á listaverki á lóð við Austurveg 17B, eftir að hafa áður fengið kynningu á áformunum. Starfsfólk Múlaþings hefur verið í sambandi við handhafa leyfisins og fengið upplýsingar um stöðu verkefnisins.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu framkvæmda- og umhverfismálastjóra samþykkir umhverfis- og framkvæmdaráð að framlengja áður veitt leyfi um eitt ár.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

10.Erindi um leikvöll frá grunnskólanum

Málsnúmer 202108037Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur erindi frá nemendum grunnskólans á Borgarfirði um tillögur að úrbótum á skólalóðinni.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð þakkar nemendum fyrir erindið og ábendingarnar. Ráðið samþykkir að vísa hugmyndum nemendanna til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

11.Innsent erindi, beiðni um samstarfsyfirlýsingu frá ENVALYS

Málsnúmer 202108070Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur erindi frá Páli Jakobi Líndal þar sem óskað er eftir viljayfirlýsingu sveitarfélagsins um þátttöku í þróunarverkefni fyrirtækisins ENVALYS um þróun hugbúnaðar og aðferðarfræði sem nýtist við skipulagsgerð. Sveitarfélögin Djúpavogshreppur, Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstaður gáfu út sambærilega viljayfirlýsingu um þátttöku í verkefninu á árunum 2020 og 2021.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir áframhaldandi aðkomu að verkefninu og leggur til að sveitarstjóri undirriti viljayfirlýsingu þess efnis.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

12.Lækjarhús - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi

Málsnúmer 202107086Vakta málsnúmer

Lögð er fram umsókn dags. 27. júlí 2021 um byggingarleyfi til að byggja íbúðarhús á Lækjarhúsum L231613. Ekki er í gildi deiliskipulag af svæðinu og liggur fyrir ráðinu að taka afstöðu til grenndarkynningar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Með vísan til lokamálsliðar 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og með hliðsjón af því að fjarlægð frá næstu nágrönnum er slík að ekki er líklegt að áformin hafi veruleg grenndaráhrif samþykkir umhverfis- og framkvæmdaráð að falla frá grenndarkynningu. Afgreiðslu málsins er vísað til byggingarfulltrúa að fenginni staðfestingu heimastjórnar Fljótsdalshéraðs.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

13.Umsókn um framkvæmdaleyfi, Ljósleiðari, Vellir vestan Grímsár

Málsnúmer 202108071Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur umsókn um framkvæmdaleyfi frá HEF veitum vegna lagningu ljósleiðara á Völlum vestan Grímsár.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi umsókn um framkvæmdaleyfi og heimilar útgáfu þess hafi öllum tilskildum gögnum verið skilað. Málinu er vísað til heimastjórnar Fljótsdalshéraðs til afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

14.Umsókn um lóð, Seyðisfjörður, Oddagata 3

Málsnúmer 202108015Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráð liggur umsókn um lóð að Oddagötu 3 á Seyðisfirði. Málsaðili hyggst færa á lóðina smáhýsi til að dvelja í þegar hætta er á aurskriðum á heimili hans við Botnahlíð. Fyrirhuguð byggingaráform á lóðinni samræmast ekki skipulagsskilmálum gildandi skipulags.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Með vísan til þess að yfirlýst áform umsækjanda um húsbyggingu samræmast ekki skipulagsskilmálum lóðarinnar, samþykkir umhverfis- og framkvæmdaráð að hafna umsókninni. Framkvæmda- og umhverfismálastjóra falið að ræða við umsækjanda um aðra mögulega staðsetningu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

15.Byggingarnefnd menningarhúss

Málsnúmer 202012176Vakta málsnúmer

Fundargerðir frá 20. maí, 1. júlí og 12. ágúst 2021 lagðar fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 12:00.

Getum við bætt efni þessarar síðu?