Fara í efni

Aðalskipulagsbreyting, Egilsstaðir, íþróttasvæði

Málsnúmer 202109040

Vakta málsnúmer

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 35. fundur - 20.10.2021

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur skipulagslýsing dags. 13. október 2021 vegna breyting á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 vegna nýs íþróttasvæðis á Egilsstöðum.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að fyrirliggjandi skipulagslýsing verði kynnt í samræmi við 1. mgr. 30. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010. Málinu er vísað til sveitarstjórnar til afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Sveitarstjórn Múlaþings - 17. fundur - 10.11.2021

Fyrir lá bókun frá fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs, dags. 20.10.2021,þar sem því er vísað til sveitarstjórnar að fyrirliggjandi skipulagslýsing vegna breytinga á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028, vegna nýs íþróttasvæðis á Egilsstöðum, verði kynnt í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Til máls tóku: Stefán Bogi Sveinsson,Kristjana Sigurðardóttir,Berglind Harpa Svavarsdóttir og Hildur Þórisdóttir.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu umhverfis- og framkvæmdaráðs samþykkir sveitarstjórn Múlaþings að fyrirliggjandi skipulagslýsing vegna breytinga á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028, vegna nýs íþróttasvæðis á Egilsstöðum, verði kynnt í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsfulltrúa falið að annast framkvæmd málsins.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Öldungaráð Múlaþings - 3. fundur - 16.12.2021

Öldungaráð Múlaþings vill hér með koma á framfæri athugasemdum til sveitarstjórnar Múlaþings og þeirra nefnda sem um málið fjalla, að með fyrirhugaðri breytingu á aðalskipulagi á svæðinu norðan Dyngju á Egilsstöðum, skerðist það svæði, sem heilbrigðisstofnunum á Egilsstöðum hefur verið ætlað til frekari þróunar og stækkunar. Öldungaráð telur óráðlegt að hamla þannig starfsemi heilbrigðisþjónustu á Hérað til langrar framtíðar. Nú þegar er greinilega þörf á auknu hjúkrunarrými og áhugi er hjá eldri borgurum að byggðar verði íbúðir fyrir aldraða einmitt á þessu svæði sbr. samþykkt ráðsins á síðasta fundi þann 21. október 2021. Mikil þörf er nú þegar til staðar á að eldri borgurum gefist kostur á hentugum íbúðum og þar með að losa stærri íbúðir sem orðnar er alltof stórar fyrir þá einstaklinga sem þar búa og vilja minnka við sig. Það er augljóst hagræði í því að ætla þessu húsnæði pláss á umræddu svæði til að samnýta sem best þá þjónustu sem þar verður að fá og lágmarka ferðaþjónustu, sem eldri borgarar þurfa á að halda.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 48. fundur - 02.03.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggja umsagnir sem bárust við skipulagslýsingu fyrir breytingu á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 vegna nýs íþróttasvæðis á Egilsstöðum. Lýsingin var kynnt frá 17. nóvember til 3. desember 2021.
Fyrir ráðinu liggur að fjalla um útmörk skipulagssvæðisins og skilgreiningu svæða.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að við gerð vinnslutillögu verði útmörk breytingarinnar til suðurs miðuð við lóðamörk við Dyngju annars vegar og götuna Blómvang hins vegar. Í vinnslutillögu verði tekin afstaða til skilgreiningar syðsta hluta svæðisins og horft til hugmynda um íbúðabyggð og þjónustustarfsemi, eftir því sem raunhæft er talið. Þá samþykkir ráðið að gera ráð fyrir hverfisvernd Gálgakletts í vinnslutillögunni.

Málið er áfram í vinnslu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 50. fundur - 23.03.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur að fjalla að nýju um útmörk skipulagssvæðis og skilgreiningu lands í tengslum við breytingu á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs vegna nýs íþróttasvæðis á Egilsstöðum. Fyrir fundinum liggja fjórar mögulegar útfærslur frá skipulagsráðgjafa.
Skipulagsfulltrúi, Sigurður Jónsson, sat fundinn undir þessum lið.

Umræðu frestað til næsta fundar ráðsins.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 51. fundur - 30.03.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur að fjalla að nýju um útmörk skipulagssvæðis og skilgreiningu lands í tengslum við breytingu á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs vegna nýs íþróttasvæðis á Egilsstöðum. Fyrir fundinum liggja fjórar mögulegar útfærslur frá skipulagsráðgjafa.
Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að láta gera vinnslutillögu sem gerir ráð fyrir útmörkum og landnotkun í samræmi við tillögu 3. Er þar miðað við útmörk skipulagssvæðis O1 í gildandi skipulagi þegar kemur að lóð ME og gert ráð fyrir að svæðið milli lóðar Dyngju og þjóðvegar verði áfram hluti af svæðinu T1 og hugsað fyrir uppbyggingu þjónustustofnana. Gert verði ráð fyrir að norðurmörk svæðis T1 miðist við að hugmyndir um byggingu næst Dyngju, sem fyrir liggja, rúmist innan þess svæðis. Gert er ráð fyrir hverfisverndarsvæði umhverfis Gálgaklett. Ekki er gert ráð fyrir íbúðabyggð á svæðinu.

Málið er áfram í vinnslu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fulltrúi M-lista (BVW) lagði fram eftirfarandi bókun:
Markmið með skipulagi er m.a. að haga uppbyggingu þannig, að hægt sé að sjá hvert bæjaryfirvöld stefna með aðstöðu fyrir starfsemi fyrirtækja, skóla, þjónustukjarna, íþróttamannvirkja og íbúðarbyggðar svo dæmi séu tekin. Mjög óheppilegt er að taka upp skipulag nema mjög ríkar ástæður kalla á það.
Málefni Hattar eru allra athygli verðar þó vandséð er hvernig það geti vegið þyngra á svæði, sem þegar hefur verið tekið frá fyrir aðra starfsemi. Þjóðin eldist og við munum þurfa á svæðinu í kringum Dyngju að halda til stækkunar. Háskólastig hefur lengi verið á óskalista sveitarfélagsins og á góða samleið með Menntaskólanum á Egilsstöðum á lóð í nágrenni hans.
Undirritaður leggur til að farið verði í löngu tímabæra skipulagsvinnu á suðursvæðinu með íbúðabyggð, íþrótta- og uppeldisstofnanir samfélagsins í huga. Hugsa þarf stærra og lengra fram í tímann og skipuleggja byggð með mismunandi þarfir íbúanna. Skipulagið þarf að bera með sér að leiðir barna og unglinga séu tryggar, vegna náms og tómstunda.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 53. fundur - 27.04.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur erindi frá Félagi eldri borgara á Fljótsdalshéraði dagsett 11. apríl 2022 þar sem fyrirhuguðum breytingum á aðalskipulagi er mótmælt. Jafnframt er lögð fram bókun framkvæmdastjórnar HSA, dagsett 3. mars 2022, vegna skipulagslýsingar fyrirhugaðra breytinga sem stofnuninni var send til umsagnar. Kom þar fram að framkvæmdastjórn teldi ekki ástæðu til að gera athugasemd við fyrirliggjandi skipulagsáform.
Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Í tilefni af erindi Félags eldri borgara á Fljótsdalshéraði vill umhverfis- og framkvæmdaráð benda á að núverandi skipulagsskilmálar svæðisins heimila ekki byggingu almennra íbúða á svæðinu, þó þær væru hugsaðar fyrir eldri borgara. Hugmyndir þær sem kynntar voru fyrir ráðinu kalla því á breytingu á skipulaginu.
Að athuguðu máli taldi ráðið ekki unnt að gera ráð fyrir svæði til aukinna umsvifa HSA, nýju íþróttasvæði og nýju íbúðasvæði. Endanleg vinnslutillaga skipulagsins hefur ekki verið tekin fyrir en þar mun í samræmi við fyrri bókun ráðsins verða gert ráð fyrir svæði fyrir heilbrigðisþjónustu annars vegar og íþróttasvæði hins vegar. Ráðið bendir á að innan deiliskipulags miðbæjar eru allmargar lóðir fyrir fjölbýlishús sem henta fyrir íbúðir fyrir eldri borgara, enda nærri þeirri þjónustu sem veitt er eldri borgurum í Hlymsdölum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 54. fundur - 04.05.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur vinnslutillaga dags. 3. maí 2022 fyrir fyrirhugaðar breytingar á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs vegna nýs íþróttasvæðis á Egilsstöðum.
Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að fyrirliggjandi vinnslutillaga verði kynnt í samræmi við 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Hannes Karl Hilmarsson (M-lista) lagði fram eftirfarandi bókun:
Undirritaður ítrekar andstöðu sína við fyrirhugaðar framkvæmdir nýs íþróttasvæði á þeim stað sem hefur verið valin. Ég tel þetta verði of dýrt með þeim breytingum og bútasaum sem þarf til að koma þessu fyrir þar. Ég tel að það ætti að forgangsraða fjármunum í önnur verkefni sem liggur meira á í að bregðast við ástandi í innviðum sveitarfélagsins, til dæmis skólamannvirki þar sem þörfin víða er gríðarleg.

Öldungaráð Múlaþings - 4. fundur - 01.06.2022

Öldungaráð Múlaþings vekur athygli á að ofangreind vinnslutillaga sem nú er kynnt, gengur lengra en skipulagslýsingin, sem kynnt var á s.l. ári, hvað varðar að þrengt er að svæðinu sem ætlað er til frekari starfsemi heilbrigðisstofnana á Egilsstöðum. Samkvæmt vinnslutillögunni eru mörk íþróttasvæðisins komin að lóð Dyngju og lokar því fyrir frekari þróun heilbrigðisstofnana í þá áttina.
Í bókun ráðsins frá 16.12.2021 var vakin athygli á að hugsa þarf til framtíðar hvað þessa þjónustu hér varðar og að nú þegar er skortur á hjúkrunarrými. Þá styður Öldungaráðið heilshugar óskir eldri borgara um að á þessu svæði verði gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði fyrir eldri borgara. Ljóst er að þörf fyrir slíkt íbúðarhúsnæði fer vaxandi og verður ekki leyst til frambúðar með fyrirhugaðri byggingu við Miðvang 8. Mikilvægt er að búseta eldri borgara sé í góðum tengslum við þá fjölbreyttu þjónustu sem eldri borgarar þurfa að sækja og nú þegar er þarna í næsta nágrenni. Það þjónar hagsmunum sveitarfélagsins að nýta sem best þá þjónustu fyrir eldri borgara, sem nú þegar er þar til staðar.
Öldungaráðið gerir eftirfarandi athugasemdir við vinnslutillöguna eins og hún er nú send ráðinu til umfjöllunar.
1.
Á svæðinu næst Dyngju verði gert ráð fyrir íbúðum fyrir aldraða.
2.
Einnig verði þar gert ráð fyrir frekari uppbyggingu hjúkrunarrýma.
3.
Gert verði ráð fyrir að frekari starfsemi heilbrigðisþjónustu geti þróast inn
á þetta svæði. Með þessum athugasemdum er verið að halda opnum möguleikum á svæðinu varðandi þróun þjónustu við eldri borgara í stað þess að þrengja þá.

Samþykkt samhljóða.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 59. fundur - 15.08.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggja umsagnir og athugasemdir sem bárust við kynningu vinnslutillögu breytinga á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 vegna nýs íþróttasvæðis á Egilsstöðum. Jafnframt liggur fyrir ráðinu minnisblað með viðbrögðum við þeim auk uppfærðrar skipulagstillaga þar sem brugðist hefur verið við athugasemdum.
Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Frestað til næsta fundar.

Gestir

  • Sigurður Jónsson

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 60. fundur - 22.08.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggja umsagnir og athugasemdir sem bárust við kynningu vinnslutillögu breytinga á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 vegna nýs íþróttasvæðis á Egilsstöðum. Jafnframt liggur fyrir ráðinu minnisblað með viðbrögðum við þeim auk uppfærðrar skipulagstillaga þar sem brugðist hefur verið við athugasemdum.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi tillögu og leggur til við sveitarstjórn að hún verði auglýst í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Sveitarstjórn Múlaþings - 27. fundur - 14.09.2022

Fyrir liggur bókun frá fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs, dags. 22.08.2022, varðandi breytingu á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 vegna nýs íþróttasvæðis á Egilsstöðum.

Til máls tók: Jónína Brynjólfsdóttir.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu umhverfis- og framkvæmdaráðs samþykkir sveitarstjórn Múlaþings að fyrirliggjandi tillaga, varðandi breytingu á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 vegna nýs íþróttasvæðis á Egilsstöðum, verði auglýst í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 81. fundur - 27.03.2023

Auglýsingu tillögu vegna breytinga á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 fyrir nýtt íþróttasvæði utan við Dyngju á Egilsstöðum og hverfisvernd umhverfis Gálgaklett lauk 16. mars síðast liðinn. Engar athugasemdir bárust. Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að leggja til við sveitarstjórn að fyrirliggjandi skipulagsáætlun verði samþykkt.

Samþykkt samhljóða.

Sveitarstjórn Múlaþings - 35. fundur - 12.04.2023

Fyrir liggur bókun frá fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings, dags. 27.03.23, þar sem tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 var til umfjöllunar.

Til máls tóku: Sigurður Gunnarsson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Þröstur Jónsson, Jónína Brynjólfsdóttir og Helgi Hlynur Ásgrímsson

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu umhverfis- og framkvæmdaráðs samþykkir sveitarstjórn Múlaþings fyrirliggjandi skipulagsáætlun fyrir nýtt íþróttasvæði utan við Dyngju á Egilsstöðum og hverfisvernd umhverfis Gálgaklett og felur skipulagsfulltrúa framkvæmd málsins.

Samþykkt með 10 atkvæðum, einn sat hjá (ÞJ)
Getum við bætt efni þessarar síðu?