Fara í efni

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings

51. fundur 30. mars 2022 kl. 13:00 - 17:00 á skrifstofu sveitarfélagsins, Egilsstöðum
Nefndarmenn
  • Stefán Bogi Sveinsson formaður
  • Jónína Brynjólfsdóttir varaformaður
  • Jakob Sigurðsson aðalmaður
  • Oddný Björk Daníelsdóttir aðalmaður
  • Pétur Heimisson aðalmaður
  • Ásdís Hafrún Benediktsdóttir aðalmaður
  • Hildur Þórisdóttir aðalmaður
  • Benedikt V. Warén
Starfsmenn
  • Hugrún Hjálmarsdóttir framkvæmda- og umhverfismálastjóri
  • Sóley Valdimarsdóttir ritari
Fundargerð ritaði: Sóley Valdimarsdóttir ritari á umhverfis- og framkvæmdarsviði

1.Gjaldskrár 2022

Málsnúmer 202111059Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggja drög að breytingu á gjaldskrá skipulags- og byggingarmála í Múlaþingi 2022. Breytingin er tilkomin vegna breytinga á byggingarreglugerð og felst í heimild til gjaldtöku vegna byggingarheimildar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi tillögu að breytingu á gjaldskrá skipulags- og byggingarmála í Múlaþingi. Málinu er vísað til sveitarstjórnar til afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

2.Þarfagreining grunnskóla

Málsnúmer 202202021Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum lá sameiginlegt minnisblað fræðslustjóra, framkvæmda- og umhverfismálastjóra og verkefnastjóra framkvæmdamála um forgangsröðun næstu stórverkefna hvað varðar húsakost grunnskóla í sveitarfélaginu. Í minnisblaðinu er lagt til að ráðist verði í þarfagreiningu vegna viðbyggingar við Rauða skóla á Seyðisfirði með það að markmiði að framkvæmdir geti hafist 2023. Í framhaldi verði metið hvort næsta verkefni verði við Fellaskóla eða Djúpavogsskóla. Einnig er lagt til að núverandi húsnæði leikskólans Hádegishöfða í Fellabæ verði nýtt fyrir starfsemi Fellaskóla eða Tónlistarskólans í Fellabæ til að leysa þar úr brýnustu þörf. Áhersla er lögð á að samhliða þurfi að huga að viðhaldi allra skólabygginga sveitarfélagsins.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að fela framkvæmda- og umhverfismálastjóra að láta hefja vinnu við þarfagreiningu vegna viðbyggingar við Rauða skóla á Seyðisfirði, í samræmi við það sem fram kemur í fyrirliggjandi minnisblaði. Meðfram þeirri vinnu verði mótuð stefna um framtíðarnýtingu Gamla skóla. Jafnframt samþykkir ráðið að óska eftir því að fræðslustjóri láti nánar útfæra tillögur að nýtingu núverandi húsnæðis Hádegishöfða, að teknu tilliti til þarfar fyrir húsnæði fyrir leik-, grunn- og tónlistarskólastarf í Fellabæ, sem teknar verði fyrir í fjölskylduráði og umhverfis- og framkvæmdaráði.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Umsókn um byggingarheimild, Hóll, Borgarfirði

Málsnúmer 202203109Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur umsókn um byggingaráform við Hól (L157300) á Borgarfirði eystri. Áformin eru í samræmi við Aðalskipulag Borgarfjarðarhrepps 2004-2016 en ekkert deiliskipulag er í gildi á svæðinu. Fyrir ráðinu liggur að taka afstöðu til grenndarkynningar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Með vísan til lokamálsliðar 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og með hliðsjón af því að fjarlægð frá næstu nágrönnum er slík að ekki er líklegt að áformin hafi veruleg grenndaráhrif samþykkir umhverfis- og framkvæmdaráð að falla frá grenndarkynningu. Afgreiðslu málsins er vísað til byggingarfulltrúa að fenginni staðfestingu heimastjórnar Borgarfjarðar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.Nýr miðbær á Egilsstöðum

Málsnúmer 202010320Vakta málsnúmer

Kynningargögn vegna uppbyggingaráforma í miðbæ Egilsstaða lögð fram til kynningar. Verkefnið ber yfirskriftina Straumur og auglýst hefur verið eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu á fjórum skilgreindum reitum innan deiliskipulags miðbæjarins.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð hvetur sem flesta til að kynna sér verkefnið á vefnum straumur.mulathing.is. Einnig hvetur ráðið þá aðila sem áhuga hafa á samstarfi við sveitarfélagið um uppbyggingu í miðbæ Egilsstaða á grundvelli fyrirliggjandi skipulags til að setja sig í samband við sveitarfélagið sem fyrst.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Svæðisskipulag Austurlands 2022-2044

Málsnúmer 202203183Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur umsagnarbeiðni frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi við tillögu að svæðisskipulagi Austurlands ásamt umhverfismatsskýrslu. Formaður ráðsins, sem einnig er formaður svæðisskipulagsnefndar, kynnti tillöguna fyrir ráðinu. Fram kom að umsagnafrestur er til 22. apríl 2022.

Lagt fram til kynningar. Málið verður á dagskrá á ný á næsta fundi ráðsins.

6.Aðalskipulagsbreyting, Egilsstaðir, íþróttasvæði

Málsnúmer 202109040Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur að fjalla að nýju um útmörk skipulagssvæðis og skilgreiningu lands í tengslum við breytingu á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs vegna nýs íþróttasvæðis á Egilsstöðum. Fyrir fundinum liggja fjórar mögulegar útfærslur frá skipulagsráðgjafa.
Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að láta gera vinnslutillögu sem gerir ráð fyrir útmörkum og landnotkun í samræmi við tillögu 3. Er þar miðað við útmörk skipulagssvæðis O1 í gildandi skipulagi þegar kemur að lóð ME og gert ráð fyrir að svæðið milli lóðar Dyngju og þjóðvegar verði áfram hluti af svæðinu T1 og hugsað fyrir uppbyggingu þjónustustofnana. Gert verði ráð fyrir að norðurmörk svæðis T1 miðist við að hugmyndir um byggingu næst Dyngju, sem fyrir liggja, rúmist innan þess svæðis. Gert er ráð fyrir hverfisverndarsvæði umhverfis Gálgaklett. Ekki er gert ráð fyrir íbúðabyggð á svæðinu.

Málið er áfram í vinnslu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fulltrúi M-lista (BVW) lagði fram eftirfarandi bókun:
Markmið með skipulagi er m.a. að haga uppbyggingu þannig, að hægt sé að sjá hvert bæjaryfirvöld stefna með aðstöðu fyrir starfsemi fyrirtækja, skóla, þjónustukjarna, íþróttamannvirkja og íbúðarbyggðar svo dæmi séu tekin. Mjög óheppilegt er að taka upp skipulag nema mjög ríkar ástæður kalla á það.
Málefni Hattar eru allra athygli verðar þó vandséð er hvernig það geti vegið þyngra á svæði, sem þegar hefur verið tekið frá fyrir aðra starfsemi. Þjóðin eldist og við munum þurfa á svæðinu í kringum Dyngju að halda til stækkunar. Háskólastig hefur lengi verið á óskalista sveitarfélagsins og á góða samleið með Menntaskólanum á Egilsstöðum á lóð í nágrenni hans.
Undirritaður leggur til að farið verði í löngu tímabæra skipulagsvinnu á suðursvæðinu með íbúðabyggð, íþrótta- og uppeldisstofnanir samfélagsins í huga. Hugsa þarf stærra og lengra fram í tímann og skipuleggja byggð með mismunandi þarfir íbúanna. Skipulagið þarf að bera með sér að leiðir barna og unglinga séu tryggar, vegna náms og tómstunda.

7.Aðalskipulagsbreyting, Seyðisfjörður, Hafnarsvæði

Málsnúmer 202106009Vakta málsnúmer

Skipulagsfulltrúi fer yfir stöðu máls varðandi matsskyldu fyrirhugaðra skipulagsbreytinga.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að fela skipulagsfulltrúa, í samráði við hafnastjóra, að undirbúa næstu skref til að ná niðurstöðu um það hvort framkvæmdin er tilkynningaskyld eða matsskyld.

Málið er áfram í vinnslu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

8.Rammahluti aðalskipulags, Stuðlagil

Málsnúmer 202111199Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur vinnslutillaga fyrir rammahluta aðalskipulag Fljótsdalshéraðs vegna uppbyggingar við Stuðlagil. Fyrir ráðinu liggur að taka afstöðu til kynningar.
Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að fyrirliggjandi vinnslutillaga verði kynnt í samræmi við 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

9.Deiliskipulag, Jökuldalur, Klaustursel

Málsnúmer 202111169Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur vinnslutillaga vegna nýs deiliskipulags í landi Klaustursels á Jökuldal. Fyrir ráðinu liggur að taka afstöðu til kynningar.
Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að fyrirliggjandi vinnslutillaga verði kynnt í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

10.Deiliskipulag, Hákonarstaðir á Jökuldal

Málsnúmer 202111209Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur vinnslutillaga vegna nýs deiliskipulags í landi Hákonarstaða á Jökuldal. Fyrir ráðinu liggur að taka afstöðu til kynningar.
Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að fyrirliggjandi vinnslutillaga verði kynnt í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

11.Deiliskipulagsbreyting, Grund á Jökuldal

Málsnúmer 202111210Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur vinnslutillaga vegna breytinga á deiliskipulagi við Grund á Jökuldal. Fyrir ráðinu liggur að taka afstöðu til kynningar.
Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að fyrirliggjandi vinnslutillaga verði kynnt í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

12.Vegagerð Jökuldalsvegur 923 Gilsá - Arnórsstaðir, breyting á veglínu

Málsnúmer 202202016Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur erindi frá Sigvalda H. Ragnarssyni og Stefáni Ólasyni, dagsett 1.2. 2022, vegna fyrirhugaðrar veglínu um bæjarhlað Arnórsstaða. Heimastjórn Fljótsdalshéraðs vísaði málinu til umhverfis- og framkvæmdaráðs til umfjöllunar á fundi sínum 7. febrúar 2022.
Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að heimila Vegagerðinni að gera umbeðnar breytingar á veglínunni við bæjarhól á Arnórsstöðum samkvæmt meðfylgjandi gögnum og með vísan til umsagnar Minjastofnunar Íslands. Við framkvæmdina verði haft náið samráði við Minjastofnun vegna vinnu á þessum kafla og tekið tillit til umsagnar stofnunarinnar. Ráðið telur að umbeðin breyting rúmist innan þeirra heimilda sem núgildandi framkvæmdaleyfi veitir.
Málinu, hvað varðar túlkun á áður útgefnu framkvæmdaleyfi, er vísað til heimastjórnar Fljótsdalshéraðs til staðfestingar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

13.Umsókn um svæði til notkunar fyrir hestaíþróttir.

Málsnúmer 202110214Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur að fjalla um erindi frá hestamannafélaginu Glampa sem kynnt var á síðasta fundi ráðsins. Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð þakkar fyrir kynningu frá forsvarsfólki hestamannafélagsins Glampa og fagnar hugmyndum um uppbyggingu hestasvæðis á Djúpavogi. Ráðið telur þó að umbeðið svæði í Bóndavörðulág henti ekki undir starfsemina einkum vegna nálægðar við núverandi og mögulega fyrirhugaða íbúðabyggð. Jafnframt telur ráðið að uppbygging mannvirkja í Loftskjólum kalli á víðtækari umræðu um framtíðarnýtingu Búlandsness og er ekki reiðubúið að leggja til uppbyggingu þar á þessum tímapunkti. Ráðið lýsir sig reiðubúið til frekari samvinnu með hestamannafélaginu Glampa og heimastjórn Djúpavogs til þess að finna ákjósanlegt svæði fyrir starfsemi félagsins og verði einkum horft til svæðisins suðvestan við þéttbýlið.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

14.Innsent erindi, fyrirspurn um lóð

Málsnúmer 202203156Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur fyrirspurn um lóð frá Landstólpa ehf. Einnig liggja fyrir ráðinu gögn varðandi mögulega stækkun kirkjugarðsins á Egilsstöðum, sem gert hefur verið ráð fyrir í námunda við og á því svæði sem fyrirspurnin tekur til.
Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að leggja drög að skipulagsbreytingu þar sem leitast verði við að gera ráð fyrir hvoru tveggja, stækkun kirkjugarðs og nýrri athafnalóð. Skipulagsfulltrúa er falið að fylgja málinu eftir og eiga fundi með fulltrúum Landstólpa og sóknarnefndar Egilsstaðakirkju við undirbúning skipulagsgerðar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

15.Ósk um samráð um svæðið í heild við Skaga - Girðingar

Málsnúmer 202201171Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur erindi frá Skógræktarfélagi Seyðisfjarðar. Jafnframt fór framkvæmda- og umhverfismálastjóri yfir kynningu sem hún sótti hjá fyrirtækinu Yggdrasill Carbon sem er nýsköpunarfyrirtæki í sveitarfélaginu sem vinnur að tengingu kolefnisfjármála (carbon finance) við verkefni sem stuðla að minnkun losunar eða bindingu kolefnis úr andrúmslofti.
Skipulagsfulltrúi sat fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og umhverfismálastjóra að ganga frá samningi við Skógræktarfélag Seyðisfjarðar um afnot félagsins af landi í Seyðisfirði til skógræktar. Í samningnum verði, með hliðsjón af því sem fram kemur í erindi félagsins, tekið á fyrirkomulagi girðinga og nauðsynlegs undirbúnings, svo sem fornleifaskráningar svæðisins, kostnaðarskiptingu vegna framangreindra þátta og hagnýtingu þeirrar kolefnisbindingar sem leiðir af skógrækt á svæðinu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fundi slitið - kl. 17:00.

Getum við bætt efni þessarar síðu?