Fara í efni

Fjárhagsáætlun 2021 - 2024

Málsnúmer 202010469

Vakta málsnúmer

Byggðaráð Múlaþings - 1. fundur - 20.10.2020

Fjármálastjóri fór yfir almennar reglur um tímamörk sveitarfélaga um formlega afgreiðslu fjárhagsáætlana sinna. Einnig kynnti hann tilslakanir sem sveitarfélög geta fengið á þessu ári vegna Covid faraldursins.
Stefnt er þó á að fyrri umræða um fjárhagsáætlun Múlaþings verði í sveitarstjórn 11. nóvember og síðari umræða 9. desember.
Einnig fór hann yfir ýmsar forsendur vegna gerðar fjárhagsáætlunarinnar, bæði varðandi tekjur og gjöld.

Byggðaráð Múlaþings - 2. fundur - 27.10.2020

Björn Ingimarsson bæjarstjóri ræddi fjárhagsstöðuna og spálíkön fyrir næstu ár, eins og þau líta út í dag.
Síðan tók Guðlaugur fjármálastjóri við og fór yfir vinnu við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs ásamt þriggja ára áætlun. Einnig kynnti hann ýmsar forsendur sem notaðar eru við gerð áætlunarinnar.
Að því búnu fór Guðlaugur yfir A-hluta fjárhagsáætlunarinnar og sýndi ýmis áhrif sem samdráttur vegna Covid faraldursins mun hafa á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og fyrri áætlanir frá sveitarfélögunum fjórum.
Allar áætlanir B-hlutafyrirtækja liggja ekki fyrir á þessari stundu, en stefnt að því að leggja fram fyrstu drög að heildaráætlun nú í lok vikunnar.

Byggðaráð Múlaþings - 3. fundur - 03.11.2020

Fjármálastjóri og sveitarstjóri fóru yfir niðurstöður úr vinnu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021 og þriggja ára áætlun 2022-2024.
Lögð er áhersla á að ráðin ljúki afgreiðslu gjaldskráa milli 1. og 2. umræðu um fjárhagsáætlun og að sveitarstjórn staðfesti álagningarhlutföll útsvars fyrir árið 2021 nú í nóvember.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð samþykkir að vísa drögum að fjárhagsáætlun 2021 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2022-2024 til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Sveitarstjórn Múlaþings - 3. fundur - 11.11.2020

Fyrir fundinum liggur fjárhagsáætlun Múlaþings fyrir árið 2021, ásamt þriggja ára áætlun áranna 2022 - 2024, sem vísað var frá byggðaráði til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

Eftirtaldir tóku til máls um fjárhagsáætlunina: Björn Ingimarsson sveitarstjóri, sem fór yfir undirbúning og vinnu við að gera þessa fyrstu fárhagsáætlun Múlaþings og kynnti hana. Gauti Jóhannesson, sem lagði fram tillögur, Eyþór Stefánsson,sem bar fram fyrirspurnir. Jakob Sigurðsson, sem bar fram fyrirspurnir, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Hildur Þórisdóttir, sem bar fram fyrirspurn, Björn Ingimarsson, sem svaraði fyrirspurnum, Þröstur Jónsson, sem bar fram fyrirspurn, Jódís Skúladóttir, Stefán Bogi Sveinsson, Eyþór Stefánsson, sem bar fram fyrirspurn, Vilhjálmur Jónsson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Jakob Sigurðsson, Gauti Jóhannesson, Stefán Bogi Sveinsson, Þröstur Jónsson,sem bar fram fyrirspurn, Eyþór Stefánsson og Björn Ingimarsson, sem svaraði fyrirspurnum.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn samþykkir að vísa fjárhagsáætlun 2021, ásamt þriggja ára áætlun, til síðari umræðu í byggðaráði og sveitarstjórn.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings samþykkir að álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2021 verði óbreytt frá því sem það var í sveitarfélögunum fjórum, eða 14,52%.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Byggðaráð Múlaþings - 4. fundur - 17.11.2020

Inn á fundinn mættu fulltrúar HEF þeir Aðalsteinn Þórhallsson framkvæmdastjóri HEF, Gunnar Jónsson stjórnarformaður HEF og Magnús Jónsson endurskoðandi og gerðu grein fyrir fyrirhuguðum fjárfestingum í veitustarfsemi næstu fjögur árin ásamt fjármögnun þeirra.
Einnig svöruðu þeir fyrirspurnum fundarmanna varðandi rekstrar- og fjárfestingaáætlun HEF næstu ár.

Björn Ingimarsson ræddi framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins næstu 4 til 6 ár og mikilvægi þess að sveitarstjórn móti sér fljótlega stefnu varðandi helstu verkefni hennar.
Guðlaugur fjármálastjóri sagði frá vinnu við fjárhagsáætlun næsta árs og ýmislegt endurmat varðandi hana, út frá nýjum forsendum og upplýsingum. Einnig eru nefndir að vinna við endurskoðun gjaldskráa sveitarfélagsins, svo þær liggi fyrir við síðari umræðu.

Heimastjórn Djúpavogs - 3. fundur - 30.11.2020

Drög að fjárhagsáætlun 2021 - 2024 lögð fram til kynningar. Heimastjórn gerir alvarlegar athugasemdir við að ekki skuli gert ráð fyrir framkvæmdum eftir 2021 á Djúpavogi í fjárfestingaráætlun og leggur áherslu á að við því verði brugðist við gerð næstu fjárhagsáætlunar enda mörg brýn verkefni framundan.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 3. fundur - 30.11.2020

Heimastjórn fékk úrelt eintak af fjárhagsáætlun til umfjöllunar og þykir það miður. Heimastjórn saknar framlags vegna lyftu í hafnarhúsinu á árinu 2021.
Fyrir sameiningu sveitarfélaganna fjögurra voru skuldir sveitarfélaganna í viðhaldsverkefni metnar. Heimastjórn Borgarfjarðar sér þess ekki merki á þriggja ára fjárhagsáætlun Múlaþings að tekið sé tillit til þeirra verkefna, hvað Borgarfjörð varðar.
Á það skal bent að sveitarfélögin fjögur beittu mismunandi aðferðum við gerð sinna fjárhagsáætlana. Á Borgarfirði tíðkaðist að ráðstafa rekstrarafgangi til fjárfestinga. Fjárhagsáætlun Múlaþings ber þess merki að Borgarfjörður líði fyrir að hafa sýnt ráðdeild í rekstri.

Byggðaráð Múlaþings - 6. fundur - 01.12.2020

Guðlaugur Sæbjörnsson, fjármálastjóri, fór yfir þær breytingar sem fram hafa komið frá fyrri umræðu um fjárhagsáætlun. Einnig var farið yfir upplýsingar úr fjárhagsáætlunum annarra sveitarfélaga og borið saman við fjárhagsáætlun Múlaþings.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings samþykkir að vísa fjárhagsáætlun 2021, ásamt þriggja ára áætlun 2022 -2024, til síðari umræðu í sveitarstjórn.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs - 2. fundur - 02.12.2020

Fyrir liggja drög að fjárhagsáætlun Múlaþings 2021 til 2024.
Á fundinn undir þessum lið mætti Guðlaugur Sæbjörnsson fjármálastjóri sem kynnti áætlunina og svaraði fyrirspurnum.

Sveitarstjórn Múlaþings - 4. fundur - 09.12.2020

Björn Ingimarsson sveitarstjóri lagði fram áætlunina til síðari umræðu í sveitarstjórn. Áður hefur hún verið afgreidd af byggðaráði og við fyrri umræðu í sveitarstjórn. Aðrir sem til máls tóku um fjárhagsáætlunina voru: Jódís Skúladóttir, Þröstur Jónsson og Eyþór Stefánsson.

Helstu niðurstöðutölur eru sem hér segir:

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2021 nema 7.264 millj. kr. samkvæmt samstæðu fyrir A og B hluta, en þar af nema rekstrartekjur A hluta 6.383 millj. kr.

Rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði og afskriftir verða alls 6.347 millj. kr. í samstæðu fyrir A og B hluta, þar af eru rekstrargjöld A hluta áætluð 6.065 millj. kr. Afskriftir ársins í A og B hluta nema 428 millj., þar af 240 millj. í A hluta. Fjármagnsliðir verða neikvæðir um 452 millj. í samanteknum A og B hluta, þar af 310 millj. í A hluta.

Eftir fjármagnsliði og afskriftir er rekstrarafkoma ársins jákvæð um 5 millj. kr. í samanteknum A og B hluta. Afkoma A-hluta er neikvæð og nema rekstrargjöld umfram rekstrartekjur um 251 millj. kr.

Veltufé frá rekstri er jákvætt um 722 millj. kr. hjá samstæðu A og B hluta, þar af er veltufé frá rekstri í A hluta jákvætt um 198 millj. kr.
Fjárfestingahreyfingar ársins 2021 nema nettó 1.585 millj. kr. hjá samstæðu A og B hluta, þar af 701 millj. í A hluta.
Afborganir af lánum og leiguskuldbindingum hjá samstæðu A og B hluta verða 823 millj. kr. á árinu 2021, þar af 588 millj. í A hluta.

Heildarskuldir og skuldbindingar eru áætlaðar 11.062 millj. kr. í árslok 2021 fyrir A og B hluta. Þar af nema heildarskuldir og skuldbindingar A hluta 7.818 millj. kr.

Skuldaviðmið samstæðu A og B hluta verður 123,3% í árslok 2021.

Fjárhagsáætlun 2021-2024 í heild sinni verður að öðru leyti aðgengileg á heimasíðu Múlaþings.


Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn samþykkir framlagða fjárhagsáætlun Múlaþings fyrir árið 2021 við seinni umræðu, ásamt þriggja ára áætlun 2022 - 2024 og framangreindum álagningarhlutföllum og viðmiðunartölum. Fyrri umræða um fjárhagsáætlunina fór fram 11. nóvember sl.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.
Getum við bætt efni þessarar síðu?