Fara í efni

Vindorka í Múlaþingi

Málsnúmer 202111136

Vakta málsnúmer

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 39. fundur - 24.11.2021

Starfsmenn EFLU kynntu fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði minnisblað um mögulegt verkefni við greiningu svæða til vindorkunýtingar í Múlaþingi.

Málið er í vinnslu.

Gestir

 • Ásbjörn Egilsson - mæting: 10:00
 • Einar Andresson - mæting: 10:00
 • Hrafnhildur Brynjólfsdóttir - mæting: 10:00

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 41. fundur - 15.12.2021

Fyrir ráðinu liggur að taka afstöðu til minnisblaðs um mögulegt verkefni við greiningu svæða til vindorkunýtingar í Múlaþingi.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að ráðist verði í greiningarvinnu í samræmi við fyrirliggjandi tilboð frá verkfræðistofunni Eflu. Verkefnið nýtist í framhaldinu við gerð aðalskipulags Múlaþings. Framkvæmda- og umhverfismálastjóra er falið að ganga frá samningi um verkefnið.

Samþykkt með 6 atkvæðum, 1 er á móti (PH).

Hannes Karl Hilmarsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Ég tel að þessi vindmylluumræða sé ótímabær sérstaklega í ljósi þess að virkjanlegt vatnsafl með rannsóknarleyfi á Austurlandi nemur nú allt að 140MW, þá beri að forgangsraða orkuvinnslu með vatnsafli áður en litið er til meira umhverfisspillandi og síðri kosta til orkuvinnslu í Múlaþingi svo sem vindmylla. Ég leggst því gegn því að farið verði í frekari vinnu við vindorku að þessu sinni.

Pétur Heimisson lagði fram eftirfarandi bókun:
Ég legg áherslu á að umhverfis- og framkvæmdaráð verði sá aðili sem kemur að því að gildismeta hina sex þætti sem fram koma í minnisblaði Eflu um verkefnið.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 52. fundur - 06.04.2022

Sérfræðingar frá Eflu tengjast inn á fundinn og kynna stöðu verkefnis við greiningu vindorkukosta í Múlaþingi.
Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Málið er í vinnslu og verður tekið fyrir að nýju á næsta fundi ráðsins.

Gestir

 • Árni Veigar Thorarensen - mæting: 10:00
 • Sigmar Metúsalemsson - mæting: 10:00
 • Kristinn Arnar Ormsson - mæting: 10:00
 • Hrafnhildur Brynjólfsdóttir - mæting: 10:00

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 53. fundur - 27.04.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur að taka afstöðu til forsenda við greiningu á vindorkukostum í Múlaþingi. Á 52. fundi ráðsins kynntu fulltrúar Eflu, sem vinna að greiningunni, tillögur að forsendum sem nú liggja fyrir til afgreiðslu.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi tillögur að forsendum við greiningu á vindorkukostum í Múlaþingi með eftirfarandi breytingum:
- Í flokki takmarkana falli út hreindýragrið- og friðland þar sem slík svæði er aðeins að finna innan friðlýstra svæða sem áður eru talin upp í flokknum.
- Friðlýst verndarsvæði í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar teljist aðeins í flokki takmarkana sé friðlýsingin gerð vegna vindorkunýtingar, en ekki ef aðeins er friðlýst vatnasvið vegna hugmynda um virkjun fallvatna.
- Náttúrulegur skógur verði færður úr flokki takmarkana og undir áhrifaþætti líkt og önnur svæði sem tilgreind eru í 61. gr. náttúruverndarlaga. Ræktaður skógur verði einnig færður úr flokki takmarkana undir áhrifaþætti og hafi lægri einkunn en náttúrulegur skógur.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 54. fundur - 04.05.2022

Sérfræðingar frá Eflu tengjast inn á fundinn og kynna drög að niðurstöðu greiningu vindorkukosta í Múlaþingi.
Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Að aflokinni kynningu og umræðu var ákveðið að fela EFLU að uppfæra drögin í samræmi við umræður á fundinum og leggja fyrir ráðið að nýju á næsta fundi þess.

Málið er í vinnslu.

Gestir

 • Sigmar Metúsalemsson - mæting: 10:00
 • Kristinn Arnar Ormsson - mæting: 10:00
 • Hrafnhildur Brynjólfsdóttir - mæting: 10:00
 • Einar Andrésson - mæting: 10:00
 • Árni Veigar Thorarensen - mæting: 10:00

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 55. fundur - 18.05.2022

Sérfræðingar frá Eflu tengjast inn á fundinn og kynna drög að niðurstöðu verkefnis um greiningu vindorkukosta í Múlaþingi.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð felur verkefnastjóra að vinna úr þeim ábendingum sem fram komu á fundinum og samþykkir að drög að niðurstöðu greiningarvinnunnar verði kynnt fyrir nýrri sveitarstjórn, heimastjórnum og umhverfis- og framkvæmdaráði.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Gestir

 • Kristinn Arnar Ormsson - mæting: 10:00
 • Árni Veigar Thorarensen - mæting: 10:00
 • Sigmar Metúsalemsson - mæting: 10:00
 • Hrafnhildur Brynjólfsdóttir - mæting: 10:00

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 57. fundur - 21.06.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggja drög að niðurstöðu verkefnis um greiningu vindorkukosta í Múlaþingi.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að vísa fyrirliggjandi drögum til umfjöllunar og umsagna hjá heimastjórnum Múlaþings. Málið verður tekið fyrir að nýju hjá ráðinu þegar umsagnir liggja fyrir.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Ásrún Mjöll Stefánsdóttir (V-lista) lagði fram eftirfarandi bókun:
Að beiðni Múlaþings hefur Efla gert greiningu á vindorkukostum í Múlaþingi. Í niðurstöðum Eflu teljum við ekkert koma fram sem á þessu stigi réttlæti neins konar vinnu sem miðar að undirbúningi vindorkuvera á tilteknum svæðum í sveitarfélaginu. Því er sérstakt áhyggjuefni að sveitarstjórn heimilaði, á fundi sínum 10.11.2021, breytingu á aðalskipulagi í þeim tilgangi að greiða götu Orkusölunnar sem áformar að reisa tilraunamöstur við Lagarfossvirkjun. Það er nærri miðju Fljótsdalshéraðs, blómlegu landbúnaðarsvæði og vettvangi vaxandi ferðamennsku og útivistar. Því lýsum við, fulltrúar VG, algjörri andstöðu við þau áform og öll önnur áform um vindorkuver á tilteknum svæðum í Múlaþingi, á meðan íbúum hefur ekki verið gefinn kostur á að tjá sig og ekki liggur fyrir samþykkt heildarmat á því hvar vindorkuverum megi mögulega koma fyrir í sveitarfélaginu. Með því tökum við undir með fulltrúa VG á fundi ráðsins 03.11. 2021 og með fulltrúa VG á fundi sveitarstjórnar 10.11.2021.

Heimastjórn Djúpavogs - 27. fundur - 23.06.2022

Heimastjórn Djúpavogs telur lítil tækifæri felast í vindorku á svæðinu umhverfis Djúpavog samkvæmt skýrslu Eflu og telur mjög mikilvægt að á öllum stigum séu íbúar upplýstir um allar hugmyndir um vindorkuver áður en ákvarðanir eru teknar um uppbyggingu vindorku á svæðinu.

Heimastjórn Seyðisfjarðar - 24. fundur - 23.06.2022

Fyrir heimastjórn Seyðisfjarðar liggja drög að niðurstöðu verkefnis um greiningu vindorkukosta í Múlaþingi dags. 21.06.2022. Umhverfis og framkvæmdaráð vísaði fyrirliggjandi drögum til umfjöllunar og umsagnar hjá heimastjórnum Múlaþings. Heimastjórn hefur kynnt sér drögin og telur að næsta skref sé að upplýsa íbúa Múlaþings um málið, einkum þeirra svæða sem teljast álitleg til virkjunar vindorku.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs - 23. fundur - 27.06.2022

Fyrir liggja drög að niðurstöðu verkefnis um greiningu vindorkukosta í Múlaþingi.

Eftirfarandi var bókað á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs 21. júní 2022:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að vísa fyrirliggjandi drögum til umfjöllunar og umsagna hjá heimastjórnum Múlaþings. Málið verður tekið fyrir að nýju hjá ráðinu þegar umsagnir liggja fyrir.

Lagt fram til kynningar og verður tekið til umfjöllunar á næsta fundi heimastjórnar.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs - 24. fundur - 04.08.2022

Fyrir liggja drög að niðurstöðu verkefnis um greiningu vindorkukosta í Múlaþingi.

Eftirfarandi var bókað á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs 21. júní 2022:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að vísa fyrirliggjandi drögum til umfjöllunar og umsagna hjá heimastjórnum Múlaþings. Málið verður tekið fyrir að nýju hjá ráðinu þegar umsagnir liggja fyrir.

Málið var áður á dagskrá heimastjórnar Fljótsdalshéraðs 27.6. 2022.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs telur að fyrirliggjandi drög að greiningu vindorkukosta í Múlaþingi lýsi vel stöðu málsins eins og það er núna og sé gott innlegg í vinnu við stefnumörkun við gerð nýs aðalskipulags Múlaþings.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 26. fundur - 18.08.2022

Fyrir liggja drög að niðurstöðu verkefnis um greiningu vindorkukosta í Múlaþingi.

Eftirfarandi var bókað á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs 21. júní 2022:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að vísa fyrirliggjandi drögum til umfjöllunar og umsagna hjá heimastjórnum Múlaþings. Málið verður tekið fyrir að nýju hjá ráðinu þegar umsagnir liggja fyrir.

Heimastjórn Borgarfjarðar telur að fyrirliggjandi drög að greiningu vindorkukosta í Múlaþingi séu gagnleg og vel unnin m.v. þær forsendur sem þar er stuðst við. Heimastjórn Borgarfjarðar gerir ekki athugasemdir við greininguna fyrir sitt leyti.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu
Getum við bætt efni þessarar síðu?