Fara í efni

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings

62. fundur 05. september 2022 kl. 08:30 - 11:35 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Jónína Brynjólfsdóttir formaður
  • Ólafur Áki Ragnarsson varaformaður
  • Ásdís Hafrún Benediktsdóttir aðalmaður
  • Einar Tómas Björnsson varamaður
  • Þórhallur Borgarson aðalmaður
  • Þórunn Hrund Óladóttir varamaður
  • Pétur Heimisson aðalmaður
  • Hannes Karl Hilmarsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Hugrún Hjálmarsdóttir framkvæmda- og umhverfismálastjóri
  • Sóley Valdimarsdóttir ritari
  • Sigurður Jónsson skipulagsfulltrúi
Fundargerð ritaði: Sóley Valdimarsdóttir ritari á umhverfis- og framkvæmdarsviði

1.Strandsvæðisskipulag á Austfjörðum

Málsnúmer 202104121Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur beiðni um umsögn við tillögu um strandsvæðaskipulag Austfjarða. Frestur til að skila inn umsögn er til 15. september næst komandi.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð gerir ekki athugasemd við framkomna tillögu um strandsvæðaskipulag Austfjarða. En bendir hins vegar á að æskilegra væri að skipulagsvald sveitarfélaga næði til hafsvæða inni á fjörðum þar sem sú staða getur verið uppi að mannvirki á haffletinum hafi eins mikil áhrif á umhverfi og ásýnd líkt og þau sem eru á landi.
Allir sem vilja sig láta varða skipulag svæðisins eru hvattir til að kynna sér skipulagstillöguna og koma á framfæri ábendingum og eða athugasemdum við skipulagstillöguna og umhverfismat hennar.

Samþykkt með 4 atkvæðum, 2 (PH, ÞÓ) eru á móti, 1 (ÁHB) sat hjá.

Fulltrúar V-lista (PH og ÞÓ) leggja fram eftirfarandi bókun:
Tekið skal fram að við erum sammaála því sem segir um að æskilegt sé skipulagsvald sveitarfélaga í fjörðum verði meira en nú er.

Tillaga að skipulagi haf- og strandsvæða Austfjarða sýnist ekki unnin með það að leiðarljósi að leita og taka tillit til allra sjónarmiða og er að okkar mati að miklu leyti þjónkun við fiskeldisfyrirtæki. Í öllum tilvikum er gert ráð fyrir því eldi sem leyfi hafa fengist fyrir, sem alls ekki er eðlilegt við skipulagsgerð sem þessa, þar sem horfa skal til allra hagsmuna. Á engan hátt verður séð að horft hafi verið til annarra hagaðila né gætt annarra sjónarmiða og t.d. ekki til þekktra veiðislóða og hrygningarsvæða, þ.e. atriða sem varða aðra nýtingu hafsins en til fiskeldis. Ekki er heldur tekið tillit til sjónarmiða ferðamennsku eins og t.d. varðandi útsýni, kajakferðir, ljósmengun. Steininn tekur úr í fyrrnefndri þjónkun við fiskeldið, að meira að segja í Mjóafirði þar sem ekki liggja fyrir leyfi fyrir laxeldi, þá er gert ráð fyrir eldiskvíum þar.
Seyðisfjörður, enn ósnortinn af laxeldi, fer ekki varhluta af óvönduðum vinnubrögðum í skipulaginu. Lítið er gert úr mögulegri vá af ofanflóðum gagnvart uppbyggingu fiskeldis í Seyðisfirði. Í tillögunni er ekki virt það stóra atriði í umhverfismati Skipulagsstofnunar, að eldiskvíar í firðinum geti haft áhrf á og minnkað öryggi siglingaleiða og þar með sjófarenda um fjörðinn. Þá virðir tillagan ekki helgunarmörk sæstrengsins Farice-1 og ógnar því mögulega fjarskiptum. Síðast en ekki síst er í tillögunni á engan hátt tekið mið af þeirri leiðsögn sem felst í því að 55% Seyðfirðinga lýstu sig algjörlega andvíga laxeldi í opnum sjókvíum í Seyðisfirði, en sveitarfélagið Múlaþing var m.a. stofnað á grunni hugmynda um íbúalýðræði. Við teljum þurfa að vanda betur til endanlegrar tillögu og leggjumst alfarið gegn tillögunni í núverandi mynd.

2.Aðalskipulagsbreyting, Fljótsdalshérað, Fjarðarheiðargöng

Málsnúmer 202010422Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur samantekt á umsögnum og athugasemdum sem bárust við kynningu vinnslutillögu breytinga á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 vegna Fjarðarheiðarganga. Frestur til að skila inn athugasemdum rann út þann 25. ágúst síðastliðinn.
Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð beinir því til sveitarstjórnar að staðfesta ákvörðun ráðsins um leiðarval vegna Fjarðarheiðarganga Fljótsdalshéraðsmegin.
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að leiðarval vegna Fjarðarheiðarganga um Fljótsdalshérað fari um þá leið sem Vegagerðin hefur kynnt sveitarfélaginu og kölluð er hin nýja suðurleið. Aðrar forsendur eru þær að vegtenging um Melshorn haldi sér á aðalskipulagi og að um þá leið verði Borgarfjarðarvegur tengdur við hringveginn. Jafnframt leggur ráðið áherslu á að sett verði ný vegtenging frá Selbrekku inn á Fagradalsbraut.

Ráðið telur þá leið gefa þéttbýlinu á Egilsstöðum nægt svigrúm til stækkunar. Jafnframt er horft til mikilvægis þess að fá þungaumferð út fyrir bæinn með tengingu við iðnaðarsvæði auk þess sem settar yrðu mögulegar takmarkanir á umferð og umferðarhraða í gegnum Egilsstaði.
Ráðið telur mikilvægt að leiðarvalið sé skoðað heildstætt með stækkun flugvallarins og legu nýrrar Lagarfljótsbrúar til hliðsjónar.
Ráðið tekur annars undir niðurstöðu Vegagerðarinnar í umhverfismatsskýrslu framkvæmdar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fulltrúi M-lista (HKH) lagði fram eftirfarandi tillögu:
Þar sem leiðarval frá gangnamunna Fjarðarheiðargangna Héraðsmegin krefst að tekin verði óafturkræf stór ákvörðun er varðar nýtt aðalskipulag Múlaþings á Egilsstaðasvæðinu auk óafturkræfra umhverfis-fórna, er mikilvægt að upplýsa og virkja íbúa í þeirri ákvarðanatöku. Því er lagt til að Múlaþing boði til íbúafunda í öllum kjörnum sveitarfélagsins, þar sem hver listi í sveitarstjórn fær að kynna afstöðu sína og skoðanir er varða leiðarvalið auk opinna umræðna í sal þar sem íbúar fá að koma sjónarmiðum sínum til kjörinna fulltrúa.
Umhverfis og framkvæmdaráð beinir því til sveitarstjórnar Múlaþings að taka endanlega ákvörðun um slíka fundi, hvenær og hvernig skal halda þá.

Fellt með 7 atkvæðum.

3.Aðalskipulagsbreyting, Seyðisfjörður, Fjarðarheiðargöng

Málsnúmer 202105090Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur samantekt á umsögnum og athugasemdum sem bárust við kynningu vinnslutillögu breytinga á Aðalskipulagi Seyðisfjarðarkaupstaðar vegna Fjarðarheiðarganga. Frestur til að skila inn athugasemdum rann út þann 25. ágúst síðastliðinn.
Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að leggja til við sveitarstjórn að unnin verði tillaga að breytingu á aðalskipulagi Seyðisfjarðarkaupstaðar á grundvelli fyrirliggjandi vinnslutillögu að teknu tilliti til athugasemda og umsagna sem unnið verði úr í samráði við Vegagerðina og umsagnaraðila.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.Aðalskipulagsbreyting, Borgarfjörður, þéttbýli og efnisnáma í Fjarðará

Málsnúmer 202201080Vakta málsnúmer

Vinnslutillaga breytinga á Aðalskipulagi Borgarfjarðarhrepps 2004-2016 vegna breytinga í þéttbýli og við efnisnámu í Fjarðará var kynnt almenningi frá 25. maí til 15. júní 2022 og bárust engar athugasemdir. Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggja umsagnir sem bárust á kynningartíma auk samantektar með viðbrögðum við þeim. Fyrir ráðinu liggur jafnframt tillaga, dagsett júlí 2022, sett fram í greinargerð og á uppdrætti.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að leggja til við sveitarstjórn að fyrirliggjandi tillaga verði auglýst í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Deiliskipulag, Jörfi, Borgarfirði eystri

Málsnúmer 202106006Vakta málsnúmer

Vinnslutillaga nýs deiliskipulags við Jörfa og Dagsbrún á Borgarfirði var kynnt almenningi frá 25. maí til 15. júní 2022. Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggja umsagnir og athugasemdir sem bárust á kynningartíma auk uppfærðrar tillögu, sett fram í greinargerð og á uppdrætti, dagsett 11. ágúst 2022. Fyrir ráðinu liggur að taka afstöðu til auglýsingar tillögunnar.
Jafnframt er lögð fram til kynningar húsaskráning sem unnin var í tengslum við skipulagsgerðina.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að leggja til við heimastjórn Borgarfjarðar að fyrirliggjandi tillaga verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

6.Umsókn um byggingarheimild, Hesthúsalóð 2, 711,

Málsnúmer 202208147Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur umsókn um byggingaráform á Hesthúsalóð 2 (L201592) á Seyðisfirði. Fyrirhugað er að rífa núverandi byggingu á lóðinni og reisa þar vélaskemmu. Jafnframt er óskað eftir að gerð verði ný vegtenging að lóðinni frá Seyðisfjarðarvegi.
Skipulagsfulltrúi sat fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Landnotkun á svæðinu í gildandi aðalskipulagi er skilgreint "opið svæði til sérstakra nota" flokkur 4-Svæði til hestamennsku. Umhverfis- og framkvæmdaráð getur ekki fallist á að heimila umbeðin áform sem gera ráð fyrir uppbyggingu mannvirkis sem á heima á svæði með landnotkun sem athafnasvæði. Ekki er heldur hægt að fallast á að heimila nýja tengingu inn á Vesturveg.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

7.Framkvæmdaleyfi, Snjóflóðavarnir á Seyðisfirði

Málsnúmer 202109074Vakta málsnúmer

Framkvæmda- og umhverfismálastjóri kynnir stöðu mála vegna framkvæmda við snjóflóðavarnir á Seyðisfirði.
Skipulagsfulltrúi sat fundinn undir þessum lið.

Lagt fram til kynningar.

8.Umsókn um framkvæmdaleyfi, efnistaka, Hallgeirsstaðir og Hlíðarhús

Málsnúmer 202208066Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur umsókn um framkvæmdaleyfi frá Vegagerðinni dagsett 15. ágúst 2022. Sótt er um leyfi til efnistöku úr opinni námu í landi Hallgeirsstaða sem skilgreind er í Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 sem E28 (Hallgeirsstaðir). Jafnframt er óskað eftir heimild til að taka um 500 m3 af leir úr landi Hlíðarhúsa, en um er að ræða 1-1,5 m þykkt lag af um 400 m2 svæði. Enginn efnistökustaður er þar skilgreindur í aðalskipulagi.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að heimila skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í námu E28 í landi Hallgeirsstaða.

Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í landi Hlíðarhúsa er hafnað á þeirri forsendu að hún er ekki skilgreind í Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

9.Umsókn um lóð, Miðvangur 8

Málsnúmer 202208148Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur umsókn frá Sigurgarði ehf., dagsett 30. ágúst 2022, um lóðina Miðvangur 8 á Egilsstöðum.
Að félaginu stendur starfshópur innan Félags eldri borgara á Fljótsdalshéraði sem hefur fundað með verktökum og starfsmönnum sveitarfélagsins um nokkurt skeið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð tekur jákvætt í erindið og samþykkir að Sigurgarði ehf. verði veitt vilyrði fyrir lóðinni að Miðvangi 8 á meðan unnið verði að frekari útfærslu verkefnisins og hugsanlegum breytingum á skipulagi.
Ráðið telur uppbyggingu sem þessa mikilvægt skref í uppbyggingu Straums, nýs miðbæjar á Egilsstöðum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

10.Umsókn um skráningu nýrra landeigna í fasteignaskrá, Ós 1

Málsnúmer 202208138Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur lóðablað vegna skráningar nýrrar landareignar úr landi Óss (L157315) sem er í eigu Múlaþings og fær hún heitið Ós 1.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að fela skipulagsfulltrúa stofnun lóðarinnar og framkvæmda- og umhverfismálastjóra að ganga frá úthlutun hennar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

11.Skriðuföll á Seyðisfirði

Málsnúmer 202012168Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur bókun frá heimastjórn Seyðisfjarðar þar sem ráðið er hvatt til að fara í vinnu við að klára frágang á Búðareyri eftir skriðuföll hið fyrsta. Framkvæmda- og umhverfismálastjóri fór yfir stöðu vinnu á svæðinu.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og umhverfismálastjóra úrlausn verkefnisins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fundi slitið - kl. 11:35.

Getum við bætt efni þessarar síðu?