Fara í efni

Breyting á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs, Fjarðarheiðargöng

Málsnúmer 202010422

Vakta málsnúmer

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 1. fundur - 21.10.2020

Tillaga að afgreiðslu:

Lögð er fram fundargerð af vinnufundi skipulagsráðgjafa sveitarfélagsins (Alta) með Vegagerðinni. Einnig var á fundinum gert grein fyrir því að verkfræðistofunni Eflu hefur verið falið að vinna fyrir hönd sveitarfélagsins að breytingu á aðalskipulagi Seyðisfjarðarkaupstaðar vegna Fjarðarheiðarganga.

Lagt fram til kynningar.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 6. fundur - 02.12.2020

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur samantekt skipulagsráðgjafa á athugasemdum sem bárust við lýsinguna og tillaga að því hvernig brugðist verður við þeim.

Frestað.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 7. fundur - 16.12.2020

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur samantekt skipulagsráðgjafa á athugasemdum sem bárust við lýsinguna og tillaga að því hvernig brugðist verður við þeim.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir tillögu skipulagsráðgjafa að viðbrögðum við athugasemdum. Skipulagsráðgjafa er falið að vinna áfram að gerð vinnslutillögu að breytingu á aðalskipulagi, samhliða gerð umhverfismats fyrir framkvæmdina.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 37. fundur - 03.11.2021

Gestir fundarins fóru yfir stöðu mála vegna Fjarðarheiðarganga. Fjallað var um leiðarval og uppfært umferðaröryggismat auk þess sem kynntar voru niðurstöður úr skýrslu um samfélagsáhrif og samantekt á niðurstöðum umhverfismats valkosta.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð lýsir yfir ánægju með þau gögn sem tekin hafa verið saman og upplýsingar sem nú liggja fyrir. Gert er ráð fyrir að frekari kynning muni fara fram á þeim gögnum fyrir sveitarstjórn.

Samþykkt samhljóðaða með handauppréttingu.

Gestir

  • Freyr Pálsson, Vegagerðin
  • Viðar Jónsson, Mannvit
  • Hjalti Jóhannesson, Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri
  • Sóley Jónasdóttir, Vegagerðin
  • Erla Björg Aðalsteinsdóttir, VSÓ Ráðgjöf
  • Erna Bára Hreinsdóttir, Vegagerðin
  • Sveinn Sveinsson, Vegagerðin

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 46. fundur - 16.02.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur samantekt frá Vegagerðinni úr umhverfismatsskýrslu vegna Fjarðarheiðarganga sem send var til Skipulagsstofnunar í síðustu viku.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að haldinn verði kynningarfundur fyrir fulltrúa í ráðinu og sveitarstjórn Múlaþings, þar sem fulltrúar Vegagerðarinnar fari yfir forsendur skýrslunnar.

Málið er að öðru leyti áfram í vinnslu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.


Fulltrúi M-lista lagði fram eftirfarandi bókun:
Undirritaður hefur lengið verið þeirra skoðunar að norðurleið um Melshorn sé rétta leiðin, að því gefnu að gangamuninn Héraðsmegin verði fyrir ofan Steinholt. Undirritaður telur ótækt er að fara innanbæjar niður Fagradalsbraut með þungaflutninga, sem hafa verið þyrnir í augum bæjarbúa í tugi ára. Enn verra væri að skera framtíðar byggingarland eins og tillaga um miðleið gerir ráð fyrir niður á Vallaveg. Sé ekki verkfræðileg geta til þess að gera gangnamunann við Steinholt, gerir undirritaður kröfu um að könnuð verði vegtenging stystu leið frá Dalhúsum niður á Vallaveg, sem verði með um níuhundruð metra löng göng undir Egilsstaðaháls. Tillaga um þá leið verði lögð fyrir fyrirhugaðan kynningarfund um Fjarðarheiðargöng.

Sveitarstjórn Múlaþings - 21. fundur - 09.03.2022

Farið var yfir kynningarfund sem sveitarstjóri, fulltrúar í sveitarstjórn og umhverfis- og framkvæmdaráði áttu með fulltrúum Vegagerðarinnar, föstudaginn 4. mars sl., þar sem umfjöllunarefnið var aðalvalkostir Vegagerðarinnar og umhverfismat vegtenginga við fyrirhuguð Fjarðarheiðargöng.

Til máls tóku: Stefán Bogi Sveinsson, Þröstur Jónsson, Jakob Sigurðsson, Hildur Þórisdóttir, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Þröstur Jónsson, Stefán Bogi Sveinsson

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings þakkar þá vönduðu vinnu er Vegagerðin stendur fyrir varðandi umhverfismat og valkosti varðandi mögulegar vegtengingar við Fjarðarheiðargöng. Sveitarstjórn lýsir yfir stuðningi við þær niðurstöður er koma fram í vinnugögnum varðandi verkefnið og leggur áherslu á að Skipulagsstofnun hraði afgreiðslu umsagnar vegna umhverfismatsskýrslu framkvæmdarinnar eins og frekast er unnt þannig að formlegt kynningarferli geti hafist sem fyrst.

Samþykkt með handauppréttingu með 10 atkvæðum, einn var á móti (Þröstur Jónsson).

Jakob Sigurðsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Mikilvægt er að flýta sem kostur er staðsetningarvali á Lagarfljótsbrú svo hægt sé að koma henni á samgönguáætlun.
Það er ekki langt í að það verði frekari þungatakmarkanir settar á Lagarfljótsbrú.

Þröstur Jónsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Ég lýsi undrun minni á bókun sveitarstjórnar sem hrasar að þeirri ályktun að val Vegagerðarinnar á Suðurleið sé rétt áður en endanleg skýrsla er komin út og áður en nokkur umræða hefur farið fram um þetta stóra mál í samfélaginu.
Það eru mér mikil vonbrigði að Vegagerðin virðist ekkert tillit hafa tekið til athugasemda minna um verðmætt íbúðabyggingaland sem veglína Suðurleiðar sker og eyðileggur.
Það er í verkahring kjörinna fulltrúa að ákveða hvaða leið verður valin, en ekki embættismanna ríkisstofnunar.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 57. fundur - 21.06.2022

Vinnslutillaga vegna breytinga á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 fyrir Fjarðarheiðargöng, dagsett 15. júní 2022, lögð fram til kynningar.
Skipulagsfulltrúi sat fundinn undir þessum lið.


Sveinn Jónsson (M-lista) lagði fram eftirfarandi bókun:
Við lýsum furðu okkar á framkominni tillögu ALTA að breytingu á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs m.t. Fjarðarheiðaganga og „stofnvegur að vegtenging við Egilsstaði“. Tillagan byggir á illa ígrunduðum niðurstöðum Umhverfismatsskýrslu Fjarðarheiðaganga frá í apríl 2022 og vali vegagerðarinnar um leiðir frá gangnamunna Héraðsmegin. Niðurstaðan er röng og byggir um margt á rangri framsetningu og rangtúlkun á rannsóknum að baki skýrslunnar. Vinnsla ALTA að aðalskipulagstillögunni er því ótímabær og óþörf sóun á takmörkuðum fjármunum sveitarfélagsins.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 58. fundur - 05.07.2022

Undir þessum lið vakti formaður athygli á mögulegu vanhæfi Sveins Jónssonar, áheyrnarfulltrúa M-lista. Tillagan var borin upp til atkvæða og samþykkt með fimm atkvæðum (JB, ÁHB, ÓÁR, EGG, ÞB), tveir sátu hjá (ÁMS, ÞÓ).

Sveinn Jónsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Þrátt fyrir aðvörun lögfræðinga sveitarfélagsins, þess efnis að túlka lög um vanhæfi strangt (þröngt) m.a. með skírskotun í svo nefnt Mýrdalshrepps-mál, hefur Umhverfis- og Framkvæmdaráð Múlaþings kosið mig vanhæfan.
Um áheyrnarfulltrúa gildir gildir ákvæði 50. Gr laga nr. 138/2011 Sveitarstjórnarlög. Um réttindi og skyldur er þar annars lítt fjallað. Starfsreglur Alþingis skilgreina hins vegar áheyrnarfulltrúa í 7. grein, þar sem einnig er í 2. málsgr skilgreind réttindi áheyrnarfulltrúa.
Ég mun því leita úrskurðar Innviðaráðuneytis í máli þessu og ef með þarf dómstóla.
Ég ætla í ljósi vanhæfisumfjöllunar á vettvangi meirihluta sveitarstjórnar Múlaþings í ákvarðanatöku er varðar leiðarval frá Fjarðarheiðargöngum Héraðsmegin, að öll frekari málsmeðferð kunni því miður að frestast þar til endanleg niðurstaða um ætlað vanhæfi verður komin frá innviðaráðuneyti eða dómstólum. Ábyrgð á þeirri frestun, sem málsmeðferð kann að valda, vísa ég alfarið á þá sem á þessum fundi greiddu ætluðu vanhæfi mínu atkvæði sitt.

Sveinn vék af fundi við umfjöllun og afgreiðslu málsins.


Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur vinnslutillaga, dags. 24. júní 2022, fyrir breytingu á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs vegna fyrirhugaðra Fjarðarheiðarganga. Jafnframt liggur fyrir ráðinu glærukynning vegna fyrirhugaðra breytinga sem Vegagerðin kynnti fyrir sveitarstjórn og umhverfis- og framkvæmdaráði. Skipulagsfulltrúi sat fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að fyrirliggjandi vinnslutillaga verði auglýst og kynnt í samræmi við 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með því skilyrði að Vegagerðin leggi fram upplýsingar um tilfærslu á suðurleið sem kynnt var kjörnum fulltrúum á fundi 29. júní síðastliðinn og að henni verði bætt inn í vinnslutillöguna.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs - 24. fundur - 04.08.2022

Fyrir liggur til umsagnar vinnslutillöga, dagsett 24. júní 2022, vegna fyrirhugaðra breytinga á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 í samræmi við 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Breytingarnar tengjast fyrirhuguðum framkvæmdum við jarðgöng undir Fjarðarheiði en í henni er fjallað um staðsetningu gangamunna og legu stofnvega frá honum.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs telur að varpa þurfi betra ljósi á það hver tillagan nákvæmlega er varðandi suðurleiðina þar sem á bls. 5 kemur fram á mynd leið einkennd með fjólublárri brotalínu sem kölluð er tilbrigði við suðurleið. Einnig er vakin athygli á ekki verður séð að gerð sé grein fyrir vegi að hreinsivirki við Melshorn. Vakin er athygi á auknum umferðaþunga á Eiðavegi til Borgarfjarðar, í og við þéttbýlið, og lögð er áhersla á að gert verði ráð fyrir aðgerðum til að auka þar umferðaröryggi.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 61. fundur - 29.08.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggja umsagnir og athugasemdir sem
bárust við kynningu vinnslutillögu breytinga á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 vegna Fjarðarheiðarganga. Frestur til að skila inn athugasemdum rann út þann 25. ágúst síðastliðinn.
Umsagnir bárust frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofu Íslands, HEF veitum, heimastjórn Fljótsdalshéraðs, Heilbrigðiseftirliti Austurlands og Skipulagsstofnun en umsögn Minjastofnunar Íslands er væntanleg á næstu dögum. Ein athugasemd barst frá almenningi.
Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Lagt fram til kynningar.

Fulltrúi M-lista(HKH) lagði fram eftirfarandi bókun:
M-listinn lýsir furðu sinni á því að í skipulagstillögunni er talað um að Melshornsleið með brú við Melshorn er tekin útaf aðalskipulagi (kafli 4 bls. 8). Brúin og leiðin er hluti Norðurleiðar, auk þess að vera nauðsynleg vegna framtíðar-uppbyggingar norðan Eyvindarár. Svo virðist sem meirhlutinn sé búinn að taka skammsýna ákvörðun um Suðurleið bak við tjöldin án þess að viðurkenna það.
Þá vill M-listinn benda á að með Suðurleið stefnir ekki bara í aðalskiplags-klúður heldur líka umhverfisslys í einstöku nátturuvætti Egilsstaðaskógar stærsta fundarstað blæaspar á landinu.
Reynt var að friðlýsa skóginn á Náttúruverndaráætlun 2009-2013 en ekki varð af því vegna andstöðu landeigenda. Sveitarstjórnafulltrúi M-listans hefur gert Landvernd aðvart.
M-listinn vill vel auglýstan opinn íbúafund um þetta stórmál með tilliti til að fara eigi með leiðarvalið í íbúakosningu, þar sem svo virðist sem almennt fylgi sé með Norðurleið fremur en Suðurleið.

Gestir

  • Sigurður Jónsson - mæting: 10:40

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 62. fundur - 05.09.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur samantekt á umsögnum og athugasemdum sem bárust við kynningu vinnslutillögu breytinga á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 vegna Fjarðarheiðarganga. Frestur til að skila inn athugasemdum rann út þann 25. ágúst síðastliðinn.
Skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð beinir því til sveitarstjórnar að staðfesta ákvörðun ráðsins um leiðarval vegna Fjarðarheiðarganga Fljótsdalshéraðsmegin.
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að leiðarval vegna Fjarðarheiðarganga um Fljótsdalshérað fari um þá leið sem Vegagerðin hefur kynnt sveitarfélaginu og kölluð er hin nýja suðurleið. Aðrar forsendur eru þær að vegtenging um Melshorn haldi sér á aðalskipulagi og að um þá leið verði Borgarfjarðarvegur tengdur við hringveginn. Jafnframt leggur ráðið áherslu á að sett verði ný vegtenging frá Selbrekku inn á Fagradalsbraut.

Ráðið telur þá leið gefa þéttbýlinu á Egilsstöðum nægt svigrúm til stækkunar. Jafnframt er horft til mikilvægis þess að fá þungaumferð út fyrir bæinn með tengingu við iðnaðarsvæði auk þess sem settar yrðu mögulegar takmarkanir á umferð og umferðarhraða í gegnum Egilsstaði.
Ráðið telur mikilvægt að leiðarvalið sé skoðað heildstætt með stækkun flugvallarins og legu nýrrar Lagarfljótsbrúar til hliðsjónar.
Ráðið tekur annars undir niðurstöðu Vegagerðarinnar í umhverfismatsskýrslu framkvæmdar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fulltrúi M-lista (HKH) lagði fram eftirfarandi tillögu:
Þar sem leiðarval frá gangnamunna Fjarðarheiðargangna Héraðsmegin krefst að tekin verði óafturkræf stór ákvörðun er varðar nýtt aðalskipulag Múlaþings á Egilsstaðasvæðinu auk óafturkræfra umhverfis-fórna, er mikilvægt að upplýsa og virkja íbúa í þeirri ákvarðanatöku. Því er lagt til að Múlaþing boði til íbúafunda í öllum kjörnum sveitarfélagsins, þar sem hver listi í sveitarstjórn fær að kynna afstöðu sína og skoðanir er varða leiðarvalið auk opinna umræðna í sal þar sem íbúar fá að koma sjónarmiðum sínum til kjörinna fulltrúa.
Umhverfis og framkvæmdaráð beinir því til sveitarstjórnar Múlaþings að taka endanlega ákvörðun um slíka fundi, hvenær og hvernig skal halda þá.

Fellt með 7 atkvæðum.

Sveitarstjórn Múlaþings - 27. fundur - 14.09.2022

Við upphaf liðar vakti forseti athygli á mögulegu vanhæfi sveitarstjórnarfulltrúa Þrastar Jónssonar.

Til máls um mögulegt vanhæfi tóku: Þröstur Jónsson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Þröstur Jónsson, Ívar Karl Hafliðason, Jónína Brynjólfsdóttir, Þröstur Jónsson með andsvar

Vanhæfi Þrastar Jónssonar samþykkt með 10 atkvæðum, einn á móti (ÞJ)

Þröstur Jónsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Bæði lögfræðiálit sveitarstjórnar eru loðin og taka ekki afgerandi afstöðu til vanhæfis míns.
Álit lögfræðings míns sem er öllum hnútum kunnugur í sveitarstjórnarmálum og löggjöf um þau er hins vegar afgerandi um að ég sé EKKI vanhæfur.

Þegar liggur fyrir stjórnsýslukæra til innviðaráðuneytisins vegna meints vanhæfis míns á Byggðaráðsfundi nr. 55 að fjalla um málsnúmer 02205413 "Ósk um umsögn, Umhverfismatsskýrsla vegna Fjarðarheiðarganga".
Ég mun kanna hvort þurfi aftur að kæra sveitarstjórn stjórnsýslukæru vegna niðurstöðu vanhæfis-kosningar undir þessum lið sem varðar aðalskipulagsmál.

Atburðarás þessi sem hér fer fram á sér ekki fordæmi í sögu íslenskrar sveitarstjórnar. Hún lyktar af pólitísku ofbeldi og tilraun til að nota lög um vanhæfi sem stjórntæki, til að þagga niður skoðanir sem eru andstæðar skoðunum meirihlutans. Þegar meirihlutinn er kominn í rökþrot, grípur hann til slíkra óyndisúrræða. Slíkt er alvarleg ógn við lýðræðið og málfrelsið í landinu sem er stjórnarskrár-bundið.

Ég krefst í ljósi þessa að öll málsmeðferð og ákvarðanataka er skipulagstillögu þá er hér er til umræðu verði frestað þar til endanleg niðurstaða um ætlað vanhæfi mitt verður komin frá innviðaráðuneyti eða dómstólum, leiti ég til þeirra. Ábyrgð slíkra tafa er alfarið vísað til þeirra sem greiða atkvæði með vanhæfis-tillögunni.

Þröstur Jónsson vék af fundi, inn á fund undir þessum lið kom varamaður M lista Benedikt Waren.


Fyrir liggur bókun frá fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs, dags. 05.09.2022, þar sem því er beint til sveitarstjórnar Múlaþings að staðfesta ákvörðun ráðsins varðandi leiðarval vegna Fjarðarheiðarganga Fljótsdalshéraðs megin.

Til máls tóku: Jónína Brynjólfsdóttir, Benedikt Waren, Ívar Karl Hafliðason, Jónína Brynjólfsdóttir, Eyþór Stefánsson með fyrirspurn, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Jónína Brynjólfsdóttir sem svarar fyrirspurn og Benedikt Waren.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings samþykkir þá tillögu umhverfis- og framkvæmdaráðs að leiðarval Fjarðarheiðarganga um Fljótsdalshérað fari um þá leið sem Vegagerðin hefur kynnt sveitarfélaginu og kölluð er hin nýja suðurleið. Aðrar forsendur eru þær að vegtenging um Melshorn haldi sér á aðalskipulagi og að um þá leið verði Borgarfjarðarvegur tengdur við hringveginn. Jafnframt er lögð áhersla á að sett verði ný vegtenging frá Selbrekku inn á Fagradalsbraut.

Samþykkt með 9 atkvæðum, einn sat hjá (HHÁ), einn á móti (BW)

Benedikt Waren lagði fram eftirfarandi bókun:
M-listinn hefur unnið mikið og þarft verk við að rökstyðja annað skipulag en skipulagstillagan ber með sé. Ítrekað hefur verið bent á að þessi skipulagstillaga sé óheillaskref. M-listinn hefur fengið til þess virtan, reyndan og ópólitískan sérfræðing. Niðurstaða þeirrar vinnu er að Norðurleiðin verði fyrir valinu.

Meirihlutinn virðist ekki vilja kynna sér niðurstöðu og röksemdir þeirrar vinnu.
Meirihlutanum hefur þvert á móti mistekist að rökstyðja svo nefnda Suðurleið, út frá sjónamiðum skipulags og er kominn í slík rökþrot að gripið er til óyndisúrræða í aðalskipulagi sveitarfélagsins, sem verður íbúum þess til óheilla um langa framtíð.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 79. fundur - 06.03.2023

Undir þessum lið vakti formaður athygli á mögulegu vanhæfi Sveins Jónssonar, áheyrnarfulltrúa M-lista, og bar upp tillögu þess efnis. Tillagan var samþykkt samhljóða.

Sveinn Jónsson, áheyrnarfulltrúi M-lista, lagði til frestun á afgreiðslu máls og var samþykkt af ráðinu að færa dagskrárliðinn aftast á dagskrá fundarins svo hægt væri að fá inn annan fulltrúa í hans stað. Ekki gekk að fá inn annan fulltrúa og var afgreiðslu um frekari frestun hafnað með 5 atkvæðum gegn 2 (ÁMS og ÞÓ).

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur tillaga til auglýsingar vegna breytinga á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 fyrir Fjarðarheiðargöng. Breytingin er sett fram í greinargerð dagsett 27. janúar 2023. Jafnframt er lagt fram minnisblað frá VSÓ Ráðgjöf dagsett 26. janúar 2023 um frekari úrvinnslu Suðurleiðarkosts.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að leið um Melshorn sem sýnd er á uppdrætti verði tekin út og gatan neðan byggðarinnar endi við fyrirhugaða lóð fyrir hreinsistöð HEF við Melshorn. Ráðið samþykkir að vísa útfærslu á nýrri tengingu Borgarfjarðarvegar um Melshorn til gerðar nýs aðalskipulags.
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi skipulagstillögu og leggur til við sveitarstjórn að hún verði auglýst með ofangreindri breytingu í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt með 5 atkvæðum, 2 sitja hjá (ÁMS og ÞÓ).

Fulltrúar V-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
Í þessu samhengi viljum við, fulltrúar VG, lýsa yfir undrun okkar á því að ekki virðist eiga að líta til niðurstaðna nýlega framkominnar könnunar meðal íbúa Fljótsdalshéraðs er varðar leiðarval vegna Fjarðarheiðarganga, þar sem meirihluti aðspurðra kusu norðurleið fremur en suðurleið. Fulltrúar VG vilja hvetja til aukins íbúalýðræðis í málefnum sveitarfélagsins og telja betra að kanna hug íbúa hvað stórar ákvarðanir varðar áður en þær eru teknar.

Sveitarstjórn Múlaþings - 34. fundur - 15.03.2023

Við upphaf 7.dagskrárliðar vakti forseti athygli á mögulegu vanhæfi sveitarstjórnarfulltrúa Þrastar Jónssonar og lagði til að sveitarstjórn tæki afstöðu til málsins með atkvæðagreiðslu. Forseti greindi einnig frá því að sveitarstjórnarfulltrúi Þröstur Jónsson hefði verið upplýstur með nokkurra daga fyrirvara í tölvupósti um mögulegt vanhæfi á sveitarstjórnarfundinum og þar með gefinn kostur á því að kalla inn varamann í sinn stað.

Til máls tóku: Jónína Brynjólfsdóttir, Þröstur Jónsson, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Þröstur Jónsson og Eyþór Stefánsson

Forseti lagði fram vanhæfistillögu til afgreiðslu og voru 10 samþykktir og einn á móti (ÞJ)

Eyþór Stefánsson lagði fram tillögu um að þessum lið yrði seinkað á meðan sveitarstjórnarfulltrúi Þröstur Jónsson kallaði til varamans.

Tillagan var felld með 8 atkvæðum, 3 kusu með tillögunni (ES,HHÁ,BE)

Þröstur Jónsson lagði fram tillögu um fundarhlé á meða hann kallaði til varamann.

Tillagan var felld með 6 atkvæðum, 3 samþykkir (HÞ,GLG,ÞJ) 2 sátu hjá (ES,HHÁ)

Þröstur Jónsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Enn og aftur er reynt að gera mig vanhæfan í umræðu og ákvarðanatöku við leiðarvalsmálið.

Þetta er gert þrátt fyrir það, að innviðaráðherra hefur skotið sér undan að kveða upp úrskurð um vanhæfi mitt eins og hann var beðinn um í stjórnsýslukæru minni dagsettri 10. október 2022.
Áður hafði ráðherra kveðið upp úrskurð við stjórnsýslukæru minni dagsettri 3ja ágúst 2022, þar sem kemur fram að tilhæfulaust hafi verið vísa mér út af byggðaráðsfundi í júlí 2022 á grundvelli meints vanhæfis.

Í seinni stjórnsýslukæru minni varð ráðuneytið aðeins við beiðni minni um að framkvæma frumkvæðisathugun á stjórnsýslu Múlaþings, sem ráðherra birti niðurstöður úr 16. janúar síðastliðinn. Um var að ræða 13 síðna leiðbeiningar og sjónarmið ráðuneytisins. Þar kemur m.a. fram, að „Eðli hagsmuna þarf að vera þess háttar, að almennt sé hætta á að ómálefnaleg sjónarmið geti haft áhrif á ákvörðun máls.“

Ef ráðherra getur ekki kveðið upp úrskurð um vanhæfi mitt, hvernig getur sveitarstjórn Múlaþings þá gert það, meðan æðra stjórnvaldsstig eða dómstóll hefur ekki kveðið upp úrskurð?

Í ofanálag hefur enginn enn getað sýnt fram á, að ég hafi ómálefnaleg sjónarmið í máli þessu, eins og þarf til skv. áðurnefndu áliti innviðaráðuneytisins.
Það er því svo að þau, sem hér greiða atkvæði með ætluðu vanhæfi mínu, hunsa leiðbeiningar ráðuneytisins, þrátt fyrir að í lokaorðum álitsins standi: "Bendir ráðuneytið sveitarfélaginu á að kynna sér þau sjónarmið, sem rakin hafa verið í álitinu."

Þá vekur það furðu að hér vill fólk kjósa mig vanhæfan í þessu máli á meðan sveitarstjórnarfulltrúi Helgi Hlynur Ásgrímsson (HÁ) var kosinn hæfur á tveim síðastliðnum sveitarstjórnarfundum til að fjalla um Byggðakvóta annars vegar og Strandveiðar hins vegar. Þetta gerist þrátt fyrir það að HÁ vekti máls á hugsanlegu vanhæfi sínu í báðum tilfellum og vekti sérstakleg athygli á, að megin hluti tekna hans kæmi af strandveiðum á C svæði þegar best hafi látið. Því líka hagsmuni á ég enga af leiðarvali frá Fjarðarheiðargöngum, en samt ætlar sama fólk að kjósa mig vanhæfan.

Og að lokum er ljóst orðið að málflutningur minn er í samræmi við vilja meirihluta íbúa Fljótsdalshéraðs ef marka má niðurstöðu nýlegrar skoðanakönnunar þar sem fram er komið að nær 2/3 hlutar íbúa á Héraði eru andsnúnir vali suðurleiðar á vegum meirihluta sveitarstjórnar (að teknu tilliti til þeirra sem afstöðu tóku eingöngu).

Vék Þröstur Jónsson af fundi undir þessum lið.

Fyrir liggur bókun frá fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings, dags. 06.03.23, þar sem tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 fyrir Fjarðarheiðargöng var til umfjöllunar.

Til máls tóku: Jónína Brynjólfsdóttir, Ívar Karl Hafliðason,Einar Freyr Guðmundsson, Hildur Þórisdóttir, Vilhjálmur Jónsson og Eyþór Stefánsson, Helgi Hlynur Ásgrímsson

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu umhverfis- og framkvæmdaráðs samþykkir sveitarstjórn Múlaþings að fyrirliggjandi tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2020 fyrir Fjarðarheiðargöng verði auglýst í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og felur skipulagsfulltrúa framkvæmd málsins.

Samþykkt með 7 atkæðum, 3 sátu hjá (HHÁ, ÁMS, ES)
Þröstur Jónsson kom inn og sat fundinn undir öðrum liðum.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 92. fundur - 28.08.2023

Við upphaf umræðu um þennan lið bar áheyrnarfulltrúi Hannes Karl Hilmarsson (M-lista) upp eftirfarandi tillögu:
"Í ljósi umfangs máls og alvarleika vegna fjölda athugasemda sem alls eru 96 fer ég fram á að máli þessu verði frestað til næsta fundar eða boðað til sérstaks aukafundar til að fjalla um það eingöngu.
Fjöldi athugasemda sem allar eru andsnúnar efni þessa fundarliðar er sennilega einsdæmi í íslenskri sveitarstjórnarsögu og því þarf málið í lið þessum góðan undirbúning fundarmanna auk mikils tíma til yfirferðar á fundi umhverfis og framkvæmdaráðs."

Tillagan var felld samhljóða með 7 atkvæðum.


Formaður vakti athygli á mögulegu vanhæfi Hannesar Karls Hilmarssonar við umræðu og afgreiðslu athugasemdar sem hann sendi inn á auglýsingatíma skipulagstillögunnar.
Umræða um meint vanhæfi fór fram innan ráðsins og eftirfarandi tillaga lögð fram:
Formanni ráðsins og skipulagsfulltrúa falið að óska eftir frekari upplýsingum sem ætlað er að skýra málsmeðferð varðandi mögulegt vanhæfi.
Málinu að öðru leiti frestað til næsta fundar.

Samþykkt með 6 atkvæðum, 1 (ÁHB) situr hjá.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 93. fundur - 04.09.2023

Við upphaf máls vakti formaður athygli á mögulegu vanhæfi áheyrnarfulltrúa Hannesar Karls Hilmarssonar (M-lista) við umræðu og afgreiðslu málsins en hann sendi inn athugasemd á auglýsingatíma skipulagstillögunnar.
Umræða um meint vanhæfi fór fram innan ráðsins á síðasta fundi og var málinu frestað. Formanni ráðsins og skipulagsfulltrúa var falið að óska eftir frekari upplýsingum sem ætlað var að skýra málsmeðferð varðandi mögulegt vanhæfi.
Umræðu var því áframhaldið á þessum fundi og var lagt fram lögmannsálit í samræmi við samþykkt síðasta fundar. Undir umræðu um vanhæfi sat Aron Thorarenssen lögfræðingur en hann vék af fundi kl. 10:00.

Eftirfarandi tillaga var lögð fram:
Í samræmi við fyrirliggjandi löfræðiálit er lagt til að áheyrnarfulltrúi Hannes Karl Hilmarsson sé vanhæfur til umfjöllunar um sína eigin athugasemd, sem og allar aðrar umsagnir í ljósi þess hve víðtæk athugasemdin er.

Tillagan var samþykkt með 5 atkvæðum, 2 (PH og ÁMS) sátu hjá.

Hannes Karl Hilmarsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Auglýsing vegna aðalskiplagsbreytingartillögunnar sem hér um ræðir var þess eðlis að ég sá mig knúinn að svara kalli yfirvalda í Múlaþingi og skila inn athugasemd, vegna síðustu setningarinnar í auglýsingunni sem hljómaði þannig:
"hver sá sem eigi gerir athugasemdir við tillöguna fyrir tilskilinn frest teljist samþykkur henni“
Þar sem ég er EKKI samþykkur "henni" hlýt ég því að skila inn athugasemd.
Um þetta er Umhverfis og Framkvæmdaráð sammála því í svari við athugasemd Sveins Jónssonar um sama efni kemur eftirfarandi fram:
"Um er að ræða staðlaðan texta í auglýsingu sem hefur þann tilgang að hvetja þá sem telja sig hafa hagsmuna að gæta og hafa athugasemdir við auglýsta tillögu til að koma þeim á framfæri þar sem auglýsing tillögu er að jafnaði lokaskref opins samráðs um skipulagsáætlunina."
Skv. þessu eru hagsmunir mínir þeir að verða ekki sjálfkrafa gerður samþykkur aðalskiplagsbreytingartillögunni af sveitarfélaginu.
Því kem ég athugasemdum mínum á framfæri sem sýna að svo er ekki, með því að lýsa skoðunum mínum á tillögunni, eins og beðið er um.
Það að ég hlýði boði yfirvalda í Múlaþingi á nú að nota gegn mér til vanhæfis í umhverfis og framkvæmdaráði. Það stenst enga skoðun og getur því ekki talist annað en tilraun til þöggunar með pólitísku ofbeldi.

Hannes Karl Hilmarsson vék af fundi kl. 10:40.


Ásdís Hafrún Benediktsdóttir (L-lista) vakti máls á mögulegu vanhæfi sínu vegna fjölskyldutengsla við aðila sem skilaði inn athugasemd á auglýsingatíma skipulagstillögunnar.
Málið var tekið til umfjöllunar og tillaga þess efnis að Ásdís sé vanhæf til umfjöllunar um athugasemd skyldmennis auk allra annarra athugasemda sem eru sama efnis, var borin upp og samþykkt samhljóða.

Ásdís Hafrún Benediktsdóttir vék af fundi kl. 11:00.


Auglýsingu tillögu til breytinga á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 vegna Fjarðarheiðarganga lauk 6. júlí sl. 96 athugasemdir bárust við tillöguna á auglýsingatíma og liggur fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði að taka þær til umfjöllunar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi tillögu að breytingu á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs ásamt fyrirliggjandi drögum að umsögnum um athugasemdir með þeim ábendingum sem ræddar voru á fundinum og vísar afgreiðslu málsins til sveitarstjórnar.

Samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Aron Thorarensen - mæting: 09:20

Sveitarstjórn Múlaþings - 39. fundur - 13.09.2023

Fyrir liggur bókun frá fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs dags. 4.9.2023 um breytingu á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 vegna Fjarðarheiðarganga.

Við upphaf 4.dagskrárliðar vakti forseti sveitarstjórnar athygli á mögulegu vanhæfi sveitarstjórnarfulltrúa Þrastar Jónssonar og lagði til að sveitarstjórn tæki afstöðu til málsins með atkvæðagreiðslu.

Til máls tók: Þröstur Jónsson.

Forseti lagði fram vanhæfistillögu til afgreiðslu og var hún samþykkt með 10 atkvæðum, einn á móti (ÞJ)

Þröstur Jónsson óskaði eftir að fá að koma upp undir liðnum Fundarstjórn forseta sem og hann gerði.
Forseti bað Þröst Jónsson um að yfirgefa salinn yfir afgreiðslu málsins, neitaði hann því og tók forseti því fundarhlé. Fundur hélt áfram en þar sem Þröstur neitaði að víkja sæti undir málinu lagði forseti til að fundi yrði áframhaldið og áréttaði að sökum vanhæfis hefði Þröstur hvorki málfrelsi, tillögu- né atkvæðisrétt.


Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu umhverfis- og framkvæmdaráðs samþykkir sveitarstjórn Múlaþings fyrirliggjandi tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 og felur skipulagsfulltrúa framkvæmd málsins. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn fyrirliggjandi drög að umsögnum um athugasemdir sem bárust á auglýsingatíma tillögunnar.

Samþykkt samhljóða með 10 atkvæðum.
Getum við bætt efni þessarar síðu?