Fara í efni

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings

28. fundur 11. ágúst 2021 kl. 08:30 - 12:20 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Stefán Bogi Sveinsson formaður
  • Jónína Brynjólfsdóttir varaformaður
  • Jakob Sigurðsson aðalmaður
  • Karl Sigfús Lauritzson varamaður
  • Þórunn Hrund Óladóttir varamaður
  • Ásdís Hafrún Benediktsdóttir aðalmaður
  • Hildur Þórisdóttir aðalmaður
  • Helgi Týr Tumason áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Hugrún Hjálmarsdóttir framkvæmda- og umhverfismálastjóri
  • María Markúsdóttir skipulagsfulltrúi
  • Sóley Valdimarsdóttir ritari
  • Freyr Ævarsson verkefnastjóri umhverfismála
Fundargerð ritaði: Sóley Valdimarsdóttir ritari umhverfis- og framkvæmdasviðs
Freyr Ævarsson verkefnastjóri umhverfismála sat fundinn undir lið nr. 1, Hugrún Hjálmarsdóttir framkvæmda- og umhverfismálastjóri sat fundinn undir liðum nr. 1-15 og María Markúsdóttir skipulagsfulltrúi sat fundinn undir liðum nr. 5-24.

1.Refa- og minkaveiðar í Múlaþingi

Málsnúmer 202103007Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggja samningsdrög vegna refa- og minkaveiða í sveitarfélaginu.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi drög að samningum við refa- og minkaveiðimenn innan sveitarfélagsins. Ráðið felur verkefnastjóra umhverfismála að ganga frá endurnýjun samninga við þá veiðimenn sem óska eftir að halda áfram og jafnframt að vinna áfram að gerð nýrra samninga þar sem þeir hafa ekki verið í gildi.

Samþykkt með 7 atkvæðum með handauppréttingu, ÁHB situr hjá.

2.Fjárhagsáætlun umhverfis- og framkvæmdaráðs

Málsnúmer 202011150Vakta málsnúmer

Framkvæmda- og umhverfismálastjóri fór yfir stöðu framkvæmda í sveitarfélaginu.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að fela framkvæmda- og umhverfismálastjóra að láta hefja framkvæmdir við fyrsta hluta útikörfuboltavallar á Djúpavogi.

Lagt fram til kynningar að öðru leyti.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Ærslabelgur á Egilsstöðum

Málsnúmer 202104277Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur erindi frá Hrefnu Björnsdóttur og Sverri Rafni Reynissyni dagsett 8. ágúst 2021 varðandi fyrirhugaða staðsetningu ærslabelgjar á Egilsstöðum.

Málið er í vinnslu.

4.Deiliskipulag, miðbær Egilsstaða

Málsnúmer 202010320Vakta málsnúmer

Endurskoðun á gildandi deiliskipulagi fyrir Miðbæ Egilsstaða, sem samþykkt var í bæjarstjórn þann 1. febrúar 2006 með síðari breytingum og er unnið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 41. gr. skipulaglaga nr. 123/2010, tók gildi 14. júlí síðastliðinn.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og umhverfismálastjóra að láta auglýsa eftir áhugasömum aðilum um uppbyggingu á miðbæjarsvæði Egilsstaða og jafnframt láta vinna kynningarefni fyrir nýtt skipulag, sem aðgengilegt verði og kynnt sérstaklega fyrir fasteignafélögum og verktökum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Uppbygging og viðhald á íþróttamannvirkjum, samráð við Hött

Málsnúmer 202104302Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur erindi frá íþróttafélaginu Hetti er varðar breytingu á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028. Fjallað var um tillöguna á 27. fundi byggðaráðs í júlí og henni vísað til umhverfis- og framkvæmdaráðs til frekari úrvinnslu.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að leggja til við sveitarstjórn að unnin verði breyting á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 sem geri ráð fyrir framtíðaríþróttasvæði neðan við Egilsstaðakirkju. Við mótun tillögunnar verði horft til þeirra hugmynda sem fulltrúar Íþróttafélagsins Hattar hafa sett fram og liggja fyrir ráðinu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

6.Skipulags- og matslýsing, ofanflóðavarnir undir Bjólfi við Seyðisfjörð

Málsnúmer 202010609Vakta málsnúmer

Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga að breytingu á aðalskipulagi Seyðisfjarðarkaupsstaðar auk tillögu að deiliskipulagi vegna ofanflóðavarna undir Bjólfi við Seyðisfjörð og óveruleg breyting á deiliskipulagi hafnasvæðis Seyðisfjarðar. Ein athugasemd barst á auglýsingatíma deiliskipulags vegna ofanflóðavarna.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi tillögur og vísar afgreiðslu vegna breytinga á aðalskipulagi Seyðisfjarðarkaupsstaðar til sveitastjórnar Múlaþings og afgreiðslu á deiliskipulagi til heimastjórnar Seyðisfjarðar. Ráðið felur skipulagsfulltrúa gera drög að svörum við athugasemdum og felur heimastjórn að afgreiða þau.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

7.Djúpivogur - Borgarland neðsti hluti - breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 202011081Vakta málsnúmer

Fyrir liggur að auglýsa þarf að nýju breytingu á deiliskipulagi neðsta hluta Borgarlands á Djúpavogi í samræmi við ábendingu Skipulagsstofnunar þar sem ekki náðist að birta auglýsingu um staðfestingu í B-deild Stjórnartíðinda innan árs frá því að auglýsingatíma tillögunnar lauk 4. maí 2020. Er það í samræmi við 2. mgr. 42. gr skipulagslaga og gr. 5.7.3. í skipulagsreglugerð.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að auglýsa tillöguna að nýju og vísar málinu til heimastjórnar Djúpavogs sem tekur endanlega ákvörðun um auglýsingu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

8.Deiliskipulag, óveruleg breyting, Sæbakki, Borgarfjörður

Málsnúmer 202108004Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur minnisblað um lagfæringar sem gera þarf á deiliskipulagi við Sæbakka á Borgarfirði.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að láta vinna tillögu að óverulegri breytingu á núverandi deiliskipulagi sem taki til lóðarinnar Sæbakki/Geymslulóð og geri ráð fyrir að hús sem þar stendur og nú er skráð geymsla verði íbúðar- eða frístundahús. Jafnframt verði gert ráð fyrir bílastæði við götu og gönguaðkomu að húsinu. Þegar tillagan liggur fyrir verði hún lögð fyrir heimastjórn Borgarfjarðar sem taki endanlega ákvörðun um auglýsingu hennar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

9.Deiliskipulagsbreyting, Egilsstaðir, Lagarás 21-39

Málsnúmer 202101236Vakta málsnúmer

Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju umsókn Ársala bs. varðandi óverulega breytingu á deiliskipulagi norðvestursvæðis Egilsstaða, með síðari breytingum, skv. 2. mgr. skipulagslaga nr. 123/2010. Breytingin felur í sér stækkun á lóðamörkum og byggingarreit ásamt því að heimil verður bygging á 1h í stað 2h. Tillagan var grenndarkynnt frá 7. júlí 2021 til og með 4. ágúst 2021. Ein athugasemd barst og liggur fyrir ráðinu að fjalla um hana.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Vegna fram kominnar athugasemdar bendir umhverfis- og framkvæmdaráð á að skipulagsbreytingin tekur ekki til útlits húss nema hvað varðar ystu mörk byggingarreits og hámarkshæð. Það er lóðarhafa að leggja fram umsókn um byggingarleyfi sem fellur innan marka gildandi skipulags. Ráðið samþykkir fyrirliggjandi tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulagi og vísar málinu til heimastjórnar Fljótsdalshéraðs til endanlegrar afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

10.Umsókn um framkvæmdaleyfi, efnistaka, Selá og Háalda

Málsnúmer 202106142Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur umsókn um framkvæmdaleyfi frá Vegagerðinni um aukna efnistöku úr Selá og Háaöldu, allt að 3000 rúmmetra til viðbótar við áður útgefið leyfi upp á 2000 rúmmetra.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Með vísan til þess að umræddar efnisnámur eru tilgreindar í Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008-2020 m.s.br. og um er að ræða hefðbundna efnistöku, auk þess sem fyrir liggur jákvæð umsögn Fiskistofu, samþykkir umhverfis- og framkvæmdaráð erindið með vísan til lokamálsliðar 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga og felur skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi þegar öll nauðsynleg gögn liggja fyrir.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

11.Smáragrund - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi

Málsnúmer 202105294Vakta málsnúmer

Grenndarkynningu vegna fyrirhugaðra byggingaráforma við Smáragrund á Borgarfirði eystri lauk 4. ágúst 2021 án athugasemda.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Í ljósi þess að engar athugasemdir voru gerðar við grenndarkynningu, og með hliðsjón af meginreglu 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, samþykkir umhverfis- og framkvæmdaráð að ekki þurfi að vísa málinu til afgreiðslu heimastjórnar Borgarfjarðar, og vísar málinu til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

12.Umsókn um byggingarleyfi, Seyðisfjörður, Skólavegur 1

Málsnúmer 202011018Vakta málsnúmer

Grenndarkynningu vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Skólaveg 1 á Seyðisfirði lauk 2. júlí 2021 án athugasemda.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Í ljósi þess að engar athugasemdir voru gerðar við grenndarkynningu, og með hliðsjón af meginreglu 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, samþykkir umhverfis- og framkvæmdaráð að ekki þurfi að vísa málinu til afgreiðslu heimastjórnar Seyðisfjarðar, og vísar málinu til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

13.Dalskógar 7 - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi

Málsnúmer 202103191Vakta málsnúmer

Grenndarkynningu vegna byggingaráforma við Dalskóga 7 lauk 12. júlí 2021 án athugasemda.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Í ljósi þess að engar athugasemdir voru gerðar við grenndarkynningu, og með hliðsjón af meginreglu 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, samþykkir umhverfis- og framkvæmdaráð að ekki þurfi að vísa málinu til afgreiðslu heimastjórnar, og vísar málinu til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

14.Hleinar 1 - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi

Málsnúmer 202105160Vakta málsnúmer

Grenndarkynningu vegna fyrirhugaðra byggingaráforma að Hleinum 1 er lokið. Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur að fjalla um athugasemdir og umsagnir sem bárust á kynningartíma.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kvað upp úrskurð í máli nr. 95/2021, kæru á afgreiðslu heimstjórnar Fljótsdalshéraðs á fundi 21. júni 2021 um að grenndarkynna byggingaráform í landi Hleina 1, 19. júlí síðastliðinn.
Kærunni var vísað frá á grundvelli þess að ákvörðun um grenndarkynningu sé ekki endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi en skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð gerir alvarlegar athugasemdir við að ráðist hafi verið í framkvæmdina sem um ræðir án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út og bendir á að sveitarfélagið hefur heimild til að stöðva framkvæmdir og fjarlægja byggingar sem reistar hafa verið án leyfis.
Ráðið tekur einnig undir athugasemdir sama efnis sem fram koma í umsögn Minjastofnunar Íslands.
Með hliðsjón af því að ekki komu fram efnislegar athugasemdir frá nágrönnum í grenndarkynningu samþykkir umhverfis- og framkvæmdaráð að vísa málinu til heimastjórnar Fljótsdalshéraðs til endanlegrar afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

15.Mýrar III - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi

Málsnúmer 202107082Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur umsókn um byggingaráform á Mýrum III í Skriðdal. Ekkert deiliskipulag er í gildi á svæðinu og fyrir ráðinu liggur að taka afstöðu til grenndarkynningar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Með vísan til lokamálsliðar 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samþykkir umhverfis- og framkvæmdaráð að falla frá grenndarkynningu og vísar málinu til afgreiðslu byggingarfulltrúa að fenginni staðfestingu heimastjórnar Fljótsdalshéraðs.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

16.Stóra - Steinsvað - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi

Málsnúmer 202106116Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur umsókn um byggingaráform á Stóra-Steinsvaði í Hjaltastaðaþinghá. Ekki er í gildi deiliskipulag af svæðinu og liggur fyrir ráðinu að taka afstöðu til grenndarkynningar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Með vísan til lokamálsliðar 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og þess að hið nýja hús kemur í stað annars sem fyrir er og verður ekki stærra en það, samþykkir umhverfis- og framkvæmdaráð að falla frá grenndarkynningu og vísar málinu til afgreiðslu byggingarfulltrúa að fenginni staðfestingu heimastjórnar Fljótsdalshéraðs.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

17.Steinar 1 - Tilkynning um framkvæmd undanþegin byggingarleyfi

Málsnúmer 202107021Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur umsókn frá ábúendum Steina 1 á Djúpavogi dags. 5. júlí 2021 um framkvæmdir á svæði sem tilheyrir verndarsvæði í byggð. Öll uppbygging skal taka mið af þeirri stefnu og skilmálum sem sett eru fram um svæðið í verndartillögu.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að auglýsa fyrirhugaða framkvæmd í samræmi við ákvæði 4. mgr. 6. gr. laga nr. 87/2015 um verndarsvæði í byggð. Auglýst verði á heimasíðu sveitarfélagsins og í opinberu rými á Djúpavogi. Auglýsingatími verði tvær vikur. Að honum loknum verði málinu vísað til sveitarstjórnar til afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

18.Umsókn um stofnun lóða, Eyjólfsstaðaskógur, sumarbústaðasvæði

Málsnúmer 202107065Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur umsókn um að skipta upp lóðinni Eyjólfsstaðaskógur 1 í þrjár minni lóðir. Lóðin tilheyrir sumarbústaðasvæði í Eyjólfsstaðaskógi þar sem í gildi er deiliskipulag frá árinu 1995.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð heimilar umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á gildandi deiliskipulagi. Málinu vísað til staðfestingar hjá heimastjórn Fljótsdalshéraðs.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

19.Umsókn um landskipti, Brennistaðir 1

Málsnúmer 202102227Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur umsókn um landskipti á Brennistöðum 1. Lagt er til að staðfang nýju lóðarinnar verði Brennistaðir 4.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi umsókn og felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

20.Umsókn um lóð, Seyðisfjörður, Múlavegur 52

Málsnúmer 202106204Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur umsókn um lóð að Múlavegi 52 á Seyðisfirði.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir umsóknina og felur framkvæmda- og umhverfismálastjóra að láta ganga frá úthlutun lóðarinnar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

21.Byggingarnefnd menningarhúss

Málsnúmer 202012176Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur að staðfesta nýjan fulltrúa í byggingarnefnd menningarhúss á Egilsstöðum. Helgi Hlynur Ásgrímsson kemur inn í stað Svandísar Egilsdóttur.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að Helgi Hlynur Ásgrímsson taki sæti sem fulltrúi V-lista í byggingarnefnd menningarhúss á Egilsstöðum í stað Svandísar Egilsdóttur.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

22.Úttekt á vöktun verndarsvæða og annarra svæða sem eru undir álagi ferðamanna innan Múlaþings sumarið 2020

Málsnúmer 202107026Vakta málsnúmer

Minnisblað frá Náttúrustofu Austurlands um stöðu verkefnisins, dagsett 5. júlí 2021, lagt fram til kynningar.

23.Ósk um umsögn, Svæðisskipulag Suðurhálendis, Skipulagslýsing

Málsnúmer 202107015Vakta málsnúmer

Skipulagslýsing vegna svæðisskipulags Suðurhálendis lögð fram til kynningar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð bendir á að Múlaþing, líkt og önnur sveitarfélög á Austurlandi, getur átt ríkra hagsmuna að gæta þegar kemur að gerð svæðisskipulags fyrir Suðurhálendið. Gildir það einkum hvað varðar áform um uppbyggingu flutningskerfis raforku og uppbyggingu vega á hálendinu. Ráðið hvetur til þess að við gerð svæðisskipulagsins verði haft samráð við sveitarfélög á Austurlandi um þessa þætti svo að sem mest samræmi verði milli áætlana landshlutanna hvað þetta varðar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

24.Umburðarbréf vegna breytinga á jarðalögum

Málsnúmer 202106031Vakta málsnúmer

Umburðarbréf vegna breytinga á jarðalögum lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 12:20.

Getum við bætt efni þessarar síðu?